klukkan er níu
Klukkan er níu að morgni laugardags. Ég kom heim rúmlega eitt í nótt. Lögðum af stað fjögur upp úr ellefu, týnd einhvers staðar í innviðum hins ógurlega 16. hverfis Parísar, en þar býr fína fólkið. Þar sem enginn leigubíll var sjáanlegur stukkum við upp í strætisvagn sem var að fara í sömu átt og við gengum, í góðri trú um að við værum að ganga í rétta átt. Eftir nokkrar stoppistöðvar var hins vegar ljóst að við vorum á leið út úr borginni, í þveröfuga átt við það sem við vildum. Þá var stokkið út úr vagninum (ekki á ferð) og reyndumst við vera fyrir framan einhvern ægilega IN bar, þennan nýjasta í bænum. Stórir og flottir dyraverðir stóðu fyrir utan og glitti í mikið fjör fyrir innan. Okkur fannst ekki úr vegi að kíkja þangað í einn drykk, búumst ekki við að eiga leið um þessar slóðir næstu mánuðina og tilvalið að geta nú slett kæruleysislega fram í næstu partýum: "Já, TSE á Porte d'Auteuil, jú jú, alveg ágætur staður, frekar flott fólk og kúl stemning. Tónlistin dálítið hávær en góð. Kokkteilarnir dýrir en smart frambornir með jasmínublómi fljótandi ofan á. Alvöru rommbragð af Daiquiri. Get svo sem alveg mælt með honum."
Fólk mun horfa á okkur í forundran: "Vá, hvað þið eruð lífsreynd."
En klukkan er nú ellefu mínútur gengin í tíu, þessi skrif tóku svipaðan tíma og dráttur hjá hóru samkvæmt Paulo Coelho. Og nú er líklega tími kominn til að fara að pota fötum í tösku og loka. Panta leigubílinn (sjúkraþjálfarinn bannaði mér að fara með töskuna í metró upp á völl) og kveðja kall og börn. Matur hjá mömmu í kvöld. Ég hlakka til.
Lifið í friði.
tölvunerðirnir á Njálsgötunni
Ég er búin að opna wordpress síðu og mun líklega flytja mig héðan á næstu dögum. Ég sagði engum frá því en tölvunerðirnir á Njálsgötunni eru bæði búin að bjóða mig velkomna! Og Hildigunnur aka Corleone er farin að segja mér fyrir verkum þar.
Annars er þetta einmitt eitthvað sem ég geri þegar ég á að vera að leita að upplýsingum um Frakkland. Í dag hef ég þefað uppi tölur og staðreyndir til að skreyta fyrirlesturinn, hann var orðinn einum of væminn, ég bætti inn hvílíkum prósentutölum um fólksfjölda, skiptingu atvinnugreina og þéttingu byggðar að fólk á eftir að flýja æpandi út úr salnum og beint á næsta bar. Sem er einmitt mjög hentugt, mér finnst gaman á bar svo ég elti þau bara þangað.
Svo gelti ég.
Lifið í friði.
bitur
Í gær var ég spurð hvers vegna ég væri svona bitur. Ég varð hálfhvumsa, ég tel mig ekki bitra. Ég er stundum ægilega reið út af óréttlætinu, launaþrælkuninni, endalausri rangri forgangsröð og frumskógarlögmálum. Ég er stundum pirruð út af því að mér finnst bæði ég sjálf og fólkið í kringum mig vera syndandi um í þessari óáran án þess að gera neitt í málunum, mér finnst að við eigum að vera að gera eitthvað en ég veit bara ekki hvað.
Og svo sér maður svona:
skoðaðu myndbandið er nema von að við séum ráðalaus?
Lifið í friði.
umhugsun
Eftir langa umhugsun hef ég ákveðið að á netsíðunni minni verður talað um nörð og nerði. Ekki það að ég sé að vinna nokkuð í narðarkaflanum núna en það er alveg dæmigert fyrir mig að vera að hugsa um annað en það sem ég á að vera að einbeita mér að. Ef þú ert nörður máttu deila þínu áhugasviði með mér, hver veit nema það komi kafli fyrir þig á síðuna. Það hefur áður komið fram að ég fíla nirði í botn og er í fullkominni sátt við eigin njarðareinkenni. Nerðir eru alls ekki lúðar, bara svo það sé á hreinu. Nörðum þykir alls ekki gaman að vera ruglað saman við Barnalandslúða eða Moggabloggarabjána (he he, bara varð). Nú er ég búin að koma öllum föllum orðsins að nema einu. Hvaða fall skyldi það nú vera? En þetta með nerðir/nirðir er helvíti erfitt. Ef ég væri Málbein, væri ég búin að hýða mig nokkrum sinnum fyrir villu. Ætti ég að merkja þessa færslu sem fall (þriðji valmöguleikinn í hugmyndum blogspot)? Nei, ég held ég merki þetta þeim fyrsta, scooters. Mér finnst það eiga betur við.
Fyrirlesturinn finnst mér núna alveg hrottalega leiðinlegur, þurr og gagnslaus. Ég held að það sé nokkuð eðlilegt, ég hef verið að grufla í þessu í rúma viku og gert lítið annað enda má ég ekki mikið hreyfa mig. Þrátt fyrir annir og veikt hné ætla ég út í kvöld, stundum er bara of mikilvægt fólk á ferð um borgina sem maður verður að heiðra með nærveru sinni. En ég fæ bílfar niður í bæ og ef ég verð lengur en bílstjórinn, sem er með ennþá verra hné en ég, fer ég bara heim í leigubíl.
Ég hlakka til að komast aðeins út, ég er orðin næstum jafnleið á íbúðinni minni og á fyrirlestrinum. Og reyndar nett leið á sjálfri mér líka, eins og þessi pistill hlýtur að sýna.
Lifið í friði.
Efnisorð: scooters
stundum
Stundum er nóg að leggjast í slakandi bað og allt í einu er það deginum ljósara í hvað þú ætlar að fara í kvöld.
Lifið í friði.
álfur, ekki mennsk
Í foreldraflórunni á leikskólanum er þessi manneskja: litla feita unga mamman sem alltaf rífst hæst yfir öllu, er alltaf mætt löngu áður en opnar (ég hef lent í því einu sinni fyrir smá misskilning, þess vegna veit ég það) og er svo aldrei farin fyrr en hurðinni er læst, ég er oftar þarna í síðara lagi og alltaf stendur hún þarna fyrir utan, sjálfumglöð með nýjasta barnið í kerrunni, malandi og vælandi, hún, ekki barnið. Kannski bíður hún líka til að sjá hverjir koma of seint og reyna bljúgir að kría út inngöngu og fá skammir frá skólastýrunni, ekki yrði ég hissa.
Þessi kona fer ógnar mikið í taugarnar á mér og hefur gert það frá því ég sá hana fyrst. Í morgun var mikið um að vera í skólanum, kennari veikur og enginn til að leysa af. Foreldrar beðin um að taka börnin heim. Allir ægilega reiðir, fólk glennti upp augun, hnussaði, horfði á óræðan punkt í loftinu og þrumaði athugasemdir um lélega þjónustu, tilætlunarsemi bæjarfélagsins og þar fram eftir götunum. Það er náttúrulega ekki hægt að þruma yfir vesalings illa launuðu konunum sem skeina og mata börnin okkar alla daga en skilaboð um óánægju þurfa samt að komast út. Litla feita stóð þarna á sínum stað fyrir utan og sárhneykslaðist með öðrum mæðrum.
Það rann upp fyrir mér ljós. Barnaland er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði, það er til í ýmsum myndum á mörgum stöðum. Mér finnst það óþægileg staðreynd.
Lifið í friði.
Efnisorð: fall
Frakkland - ferðamannaland
Ég á sem betur fer að tala um það sem mér er hugleikið í fyrirlestrinum, þetta ferðaráðstefna í tengslum við Pourquoi Pas - franska menningarvorið (sjá tengil hér til hliðar einhvers staðar). Ég mæti og mæri Frakkland.
Ég er búin að sitja dag eftir dag með mitt beyglaða hné við tölvuna og lesa um Frakkland, skoða ferðamöguleika og ég get sagt ykkur það í óspurðum fréttum að ég held að Frakkland hljóti að vera eitt af bestu löndum í heiminum. Á köflum hætti ég næstum því að hata peninga (þetta er vísun í frétt um útskýringar kennara hjá HR á því hvers vegna konur græða minna en karlar) og langar frekar að verða ríkur forstjóri risafyrirtækisins Parísardaman (í stað krúttfyrirbærisins sem hún er í dag) sem getur boðið fjölskyldunni upp á alls kyns spennandi frí, á bátum, á hjólum, í kastölum uppi á fjallstindum, í gljúfrum eða skógum.
Ég vildi óska að ég gæti sagt ykkur að ég yrði niðri í bæ eitthvert kvöldið og hvar og gert blogghitting en ég veit ekki alveg hvernig hnéð á mér verður svo ég þori ekki að lofa neinu strax. Ég verð samt í rafleikfimi og hnykkingum hjá sjúkraþjálfara fram að helgi svo kannski verð ég skrallfær, en kannski verð ég bara heima hjá mömmu að prjóna.
Lifið í friði.
tiltekt
Ég lagaði nokkra bloggtengla, Hildigunnur er komin á Wordpress og fólkið sem þrjóskast við að vera á moggablogginu fær nú tengil þangað hjá mér (fordómaleysi mínu og umburðalyndi eru engin takmörk sett), láttu mig vita ef ég gleymdi þér. Svo bætti ég Skruddu og Stefáni Arasyni sem er að koma með Stöku til Parísar bráðum, við.
Ég hvet ykkur til að lesa pistilinn hans Davíðs (sjá tenglalista) um lygarnar sem berast frá Straumsvík. Og vitanlega hvet ég ykkur til að mæta á fundinn í Hafnarfirði á morgun og auðvitað að drífa ykkur í að skrifa undir sáttmálann (sjá nánar hjá Framtíðarlandinu, tengill undir Móðir jörð).
En undirbúningur fyrirlestursins sækist seint og kemur í veg fyrir almennar pælingar og gáfulega pistla um það og hitt.
Ég var mjög hissa á litlum undirtektum eftir síðustu færslu, takk Baun, skilur enginn að ég er að koma til Íslands? Þarf að tyggja allt ofan í ykkur?
Lifið í friði.
málið
Nú hlýtur málið að vera að rífa sig upp úr slappleika og veikindum.
Allt of mikið að gera til að leyfa sér þetta áfram.
Fyrst sem ég auglýsingu sem þarf að faxa í dag svo sem ég fyrirlestur sem ég ætla að flytja á mánudaginn kemur í öðru landi en samt mínu landi.
Lifið í friði.
Fyrirsögnin er tengill sem hjálpar okkur við að hverfa frá hugsunum um börn sem send eru í burtu frá velmegunarþjóðfélögunum. Ekki það að við eigum að gleyma því, síður en svo. En það er líka hollt að hlæja.
Lifið í friði.
Fyrirsögnin er tengill í mynd og smá umfjöllun á frönsku um konuna sem ég vildi óska að væri á leið í 2. umferð í forsetakosningunum. Hún er heiðarleg, hógvær, alvöru vinstrisinni og leggur mesta áherslu á umhverfisvernd þó hún sé jafnframt vel að sér í öðrum mikilvægum málum eins og t.d. atvinnuleysi. Það að hún hefur eitthvað að segja í öðrum málaflokkum hefur verið notað gegn henni, þykir sýna að hún sé ekki alvöru umhverfisverndarsinni, hreint ótrúleg aðferð til að rægja hana, sérstaklega ef hugsað er til þess að stöðugt er verið að reyna að klekkja á Ségolène Royal með því að spyrja hana fáránlegra spurninga eins og hversu marga kafbáta á Frakkland og hamra svo á því að hún viti ekki nóg um allt. Það er ekkert grín að vera þátttakandi í kosningabaráttunni en þetta vissu báðar konurnar áður en þær buðu sig fram enda hvorug miklir nýgræðingar í stjórnmálum. Verst að þær skuli ekki starfa saman.
Ég horfði smá á sjónvarpið í gær og lærði m.a. þetta: Það eru 12 frambjóðendur í forsetann, 4 hægrimenn (Bayrou er hægrimaður, það er engin spurning í mínum huga), 7 vinstrimenn (þar af 3 trotskíistar!) og svo Le Pen. Ég hika við að setja Le Pen með hægrimönnunum, finnst hann reyndar mýkri en viðurstyggðin hann Sarkozy en hann er samt einhvern veginn utan við þessa einföldu skiptingu í hægri og vinstri.
Ég hef ekki getað haft mig upp í að segja ykkur almennilega frá landhreinsuninni sem á sér nú þegar stað og minnir um margt á hreinsun nasistanna á síðustu öld. Nýlega fengu starfsmenn grunnskólanna bréf um að þau ættu að afhenda lögreglu öll pappírslaus börn, komi til þeirrar beiðni. Þetta er alveg sambærilegt við reglurnar sem andspyrnumenn brutu í hernáminu. Joseph Migneret, skólastjóri barnaskóla í Mýrinni (gyðingahverfið) í París lét t.d. lífið í útrýmingarbúðum vegna þess að hann óhlýðnaðist fyrirmælum og kom nokkrum gyðingabörnum undan. Hvað á fólk að gera í dag? Er hetjudáð möguleiki? Er hægt að vera stríðshetja á svokölluðum "friðar"tímum?
Lifið í friði.
Að vera eða ekki að vera nörd
Það er til betra íslenskt orð yfir nörd, en ég er ekki viss hvort það er njörður eða eitthvað annað. Í fleirtölu er það nerðir, held ég.
Sem minnir mig á skemmtilega undarlega málvísindakönnun sem ég tók þátt í varðandi fleirtölumyndir á orðum eins og banani- banönum-bununum-bönönum. Ég fór inn í gegnum ghh, hann benti á þetta fyrir nokkru síðan.
Stafsetningavillur í spurningunum sjálfum trufluðu mig á tveimur stöðum en ég er fyrirgefandi kona og fyllti þetta allt saman samviskusamlega út.
En við Hildigunnur erum sem sagt aðalnerðirnir og fáum eflaust báðar tilnefningu ef einhvern tímann verður sett í gang leitin að íslenska nirðinum.
Og nú lýsi ég eftir þessu orði, nörður, njörður?
Glit auglýsingin var sem sagt kona sem brýtur allt stellið, mig minnir að matur hafi slest yfir manninn og börnin sem sátu stillt við borðið og allir sögðu sigri hrósandi loksins, loksins, loksins getum við keypt nýtt stell frá Glit.
Ég man vel eftir nokkrum öðrum íslenskum auglýsingum:
Hitatchi, já þú vinnur fyrir því
Hitatchi, já þú sparar fyrir því
og það mun endast endast endast...
Ég man eftir söngvaranum, mjög frægur söngvari enn í dag, einn af mínum uppáhalds, spurt er: Hver er maðurinn?
Svo man ég sérlega vel eftir stelpunum sem sungu bakraddirnar, aðallega af því að Jóna frænka var ein af þeim.
Svo man ég náttúrulega:
Við viljum Vilco, við viljum Vilco!
Bylting?
Já, Vilcobylting.
Aðallega vegna þess að Ása frænka lék mömmuna sem var svo stolt af byltingu barna sinna.
Einnig man ég eftir hinni ögrandi mjólkurferðarauglýsingu, ertu með í mjólkurferð? Já, viltu dansa mjólkurdaaaaaans?
Þar var líka eitthvað af frænkunum, voru það ekki tvíburarnir í það skiptið?
Sjónvarpið í þá daga var nú betra og skemmtilegra og draumkenndara en það er í dag. Finnst mér gömlu kerlingunni. Auglýsingar í dag eru mun agressívari og dónalegri. Það er allt á niðurleið í þessum ömurlega heimi. (og enn og aftur minni ég á að ég nota aldrei broskarla svo þið verðið sjálf að ákveða hvort ég er uppþornaður pessímisti með fortíðarþrá eða alveg brjálæðislega fyndin og ung í anda, nema hvorugt sé).
Lifið í friði.
Efnisorð: fall
Nýtt frá Glit
Ég er alveg viss um að einhver af nördunum á blogginu man eftir auglýsingunni:
Loksins, loksins, loksins getum við fengið okkur nýtt stell frá Glit.
N'est-ce pas?
Lifið í friði.
Efnisorð: scooters
kosningavor
Það er ekki bara á Íslandi sem kosningar fara fram í vor. Hér eru bæði forseta- og þingkosningar framundan og baráttan í fullum gangi. Mig langar ekki neitt til að skrifa um hana, ástandið hér er ömurlegt og frambjóðendur virðast helst keppast við að taka hluti upp eftir hver öðrum.
Mitt uppáhald var vitanlega Ségolène Royal. Ég segi vitanlega því ég er nefninlega með þennan fæðingargalla að halda ósjálfrátt með konum þegar konur keppa við karla. Hér í Frakklandi er tilhugsunin um konu í forsetastól einfaldlega of sjarmerandi tilhugsun til að geta annað en haldið með Ségolène eða Ségo eins og hún er nú kölluð hérna. (Eins og ég skrifaði Morgunblaðinu fyrir einhverju síðan er vaninn að nota fornöfn kvenna meðan karlar eru alltaf ávarpaðir með eftirnafninu, ég benti þeim á þetta eftir að hafa lesið um Clinton þetta og Clinton hitt í smá stund áður en ég áttaði mig á því að verið var að fjalla um Hillary. Mér finnst ágæt regla að nota fornöfn kvennanna, oft er eftirnafnið notað með en það er eiginlega hálfgerð virðing falin í að fornafnið sé notað eitt og sér, smá stjörnufílingur í því, og lýkur nú þessu innskoti). En vandamálið er að ég held ekkert alveg með öllu sem Ségo segir. Til dæmis ber ég mun minni virðingu fyrir Tony Blair en hún. Og það er þessi frjálslyndisstimpill sem hún hefur fengið á sig sem hefur gert vinstrafólki erfiðara fyrir að ákveða sig hvort þau eigi að kjósa hana eða ekki. Spunameistarar hinna flokkanna gerðu sér vel grein fyrir forskotinu sem hún hafði með því að vera kona. Þeir vita, eins og ég, að ég er ekki sú eina sem langar það eitt að sjá konu í ljósri dragt standa með hálsfestina góðu við Elysée-höllina og vinka okkur. Gvuð mín góð hvað ég var glöð þegar Frú Vigdís vinkaði okkur forðum af svölunum á Aragötunni.
Ég er því í smá krísu með Ségo. En ég held samt eiginlega með henni ennþá, þessi löngun í konu í valdastöðu er svo sterk. Ég er samt að mörgu leyti sammála Rafauganu sem skýtur niður þennan hugsunarhátt og vitanlega væri best af öllu, langbest af öllu að geta ímyndað sér stóra feita svarta konu í afrískum kjól með hálsfestina við Elysée-höllina. Ætli þess sé langt að bíða?
Frambjóðandinn sem hefur í raun tekið við af Ségo síðustu daga í tvennunni Sarkó-Ségo sem ávallt var notuð í upphafi sem hin eini raunhæfi möguleiki í annarri umferðinni, er miðjugaurinn Bayrou. Hann lætur nú mynda sig í gríð og erg með trefil í frakka à la Mitterand, hugsi á svip. Og þessar myndir gera það að verkum að maður hugsar jafnvel með sér að kannski sé hann bara allt í lagi kostur. Að minnsta kosti þúsund sinnum betri en Sarkozy eða, ó nei, ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda: Le Pen!
En í gær sá ég hann svo tala í sjónvarpinu. Hann hefur stúderað andstæðing sinn, Sarkó, og notar sömu handahreyfingar, sömu orð, sömu frasa, sömu aðferðir við að sedúsera á djöfullegan máta. Ég vil hann ekki og sagði við manninn minn að hjónabandi okkar yrði jafnvel lokið, kysi hann Bayrou. Auðvitað meinti ég það ekki, læt ekki þessar strengjabrúður stjórnmálanna komast upp á milli okkar en eitthvað varð ég að segja og þetta var eina hótunin sem mér datt í hug.
Kosningar eru leiðinlegt fyrirbrigði og að mínu viti endurspegla úrslitin í engu afgerandi vilja þjóðanna. Lýðræðið er trunta með tóman grautarhaus.
Lifið í friði.
um sáttmálann
Ég vil aftur minna á sáttmálann og koma að þeirri leiðréttingu að ekki er nauðsynlegt að fara í gegnum "innskráningu". Nóg er að smella á SKRIFA UNDIR og fylla svo samviskusamlega út alla reiti þar. Ef þú býrð ekki á Íslandi, skaltu bara velja þér póstnúmerið á staðnum sem þig dreymir oftast um, staðnum þar sem þú helst vildir vera í 20 stiga hita og hlýrri golu með ilmandi nýslegið gras í kringum þig.
Einhverjir harðir græningjar virðast vera hikandi gagnvart sáttmálanum. Ég endurtek það sem Guðný segir í athugasemd hér fyrir neðan: Ef þú ert sammála, skrifaðu þá undir. Annað skiptir engu máli.
Ég veit alveg að sumir dyggir lesendur og góðir bloggvinir eru ekki sammála mér. Þau eru ekki verri menn í mínum huga, síður en svo. Það er allt í lagi að vera ósammála. Ég veit ekkert af hverju ég er á móti stóriðju, virkjunum, framleiðslu, iðnaði, peningagróða, vöxtum, vaxtavöxtum, þenslu, bólgu, eyðslu. Ég veit það ekki en ég er hrædd við öll þessi orð, þau valda mér ugg. Mig dreymir um nýslegið gras, fífur á eyri, gott ferskt loft og heilbrigt fólk. Sem helst skortir ekki neitt, og, það sem er ennþá betra, því líður ekki eins og það vanti samt eitthvað.
Ég er draumóramanneskja en þú líka.
Lifið í friði.
Efnisorð: grænt
Nýi sáttmáli
Í kaflanum hér til hliðar sem heitir Móðir jörð er tengill á Framtíðarlandið. Á þeirri síðu getur þú skrifað undir grænan og góðan sáttmála. Ég er búin að gera það, vona að undirskrift mín verði tekin gild, ég setti inn póstnúmerið 105 sem mér fannst næst 93230 af þeim sem í boði voru. Eða það er a.m.k. síðasta póstnúmerið sem ég bjó í á Íslandi. Minnir mig.
Nú bið ég þig um að skrifa undir líka.
Svo getur þú kannski farið í leikinn að gera þingmenn græna.
Eða ekki.
Lifið í friði.
stundum
Stundum hugsa ég: Hvað var ég eiginlega að hugsa? Það er vont.
Stundum hugsa ég beint: Ég var greinilega ekkert að hugsa. Það er verra.
Lifið í friði.
p.s. fréttir sem ég vil ekki segja strax varða enga fjölgun í minni fjögurra manna kjarnafjölskyldu.
Efnisorð: scooters, stundum
Alparnir
sól, snjór, lúffur í mismunandi stærðum eða engar lúffur, skíði sem dettur af í stólalyftu, engar raðir neins staðar, alltaf nýjar og nýjar brekkur og hver annarri skemmtilegri, yndisleg íbúð, góðir vinir, duglegir krakkar (hún á skíðum, hann á snjóþotu), fullt af góðu víni, fullt af bráðnum osti (þrátt fyrir daglega hreyfingu hefur frekar bæst á kílóin og það eru ekki bara vöðvar), beyglað hné í síðustu ferðinni síðasta daginn (moi, bien sûr), 3250 metra hæð (hef aldrei verið jafn hávaxin og get sagt ykkur að þetta kveikir í einhvers konar undarlegri löngun til að stefna enn hærra, get þó líka lofað ykkur að áfram verða notaðar lyftur, ég ætla mér engan veginn út í fjallaklifur sem er sport sem hefur tekið frá mér tvo unga menn), sól, snjór, sól, snjór, sól sól sól allan tímann.
Ég er heppin kona þó ég staulist nú um hérna með verk í hné. Ferðin á slysavarðstofuna í gær var allt í lagi, fyndið að sitja í litlu herbergi í skíðaúlpunni með hóp sem hægt var að skipta í íþróttaiðkenndur annars vegar og vesalingar/fíklar hins vegar. Alveg hreint áreiðanlega í fyrsta skipti sem ég tilheyri íþróttahópnum svona ljóslega.
Það er margt að frétta en ég ætla ekki að láta neitt uppi um það ennþá. Bíðið spennt.
Sýningin er að hefjast og ég fer spenntur í leikhúsið, sagði maðurinn í mörg ár, minnir mig, á leikhússíðunni í Mogganum.
Nú verður það vinna. Sem betur fer frekar svona tölvuvinna næstu dagana, ég ætla mér að jafna mig hratt og vel í hnénu. Mark my words. Hratt og vel.
Lifið í friði.
farin
Ég er farin í skíðaferð, fannst ég eiginlega verða að kveðja. Dæmigert að þegar maður er plöggaður af mun víðlesnari bloggara hefur maður engan tíma til að koma með snilldarfærslur um vandamál heimsins. Nei, ég hef bara svo voða voða lítinn tíma börnin mín, hver veit nema ég blási til byltingar við heimkomu, endurnærð eftir útiveru og fjallaloft? Hver veit? Ekki ég.
Ekki láta ykkur leiðast í fjarveru minni. Verið umfram allt góð hvert við annað, kitlið hvert öðru undir handarkrikunum (þó ég verði nú að játa að ég er guðslifandi fegin að þurfa ekki að horfa upp á nágranna mína nakta, væri alveg til í að ganga um nakin sjálf enda alltaf sagt að það er hinna tap ef þeir sjá mig nakta, en vil helst að hinir séu í fötum, sérstaklega karlarnir, hef aldrei kunnað við djásnin lafandi á förnum vegi). Já, þetta var vísun í skáldið sem skrifar um Framtíðarlandið sitt. Farið þangað inn og lesið margt skemmtilegt, t.d. um hönnun og bændur. Gaman að því.
Lifið í friði.
Fyrirsögnin er tengill.
Og svo er líka gaman að lesa framtíðarlandslýsingu sama manns í nýjasta tölublaði Framtíðarlandsins.
Og þar er óhugnalegt að lesa viðtal við frjálshyggjukonuna. Mér stendur stuggur af svona fólki sem talar um ímyndir og styrkleika þjóðar (og nú er ég óviss um notkun orðsins frjálshyggja, verð að fara að koma þessu á hreint í kolli mínum en er að flýta mér og læt standa þið fyrirgefið ég þarf að setja yfir eggin börnin svöng taka úr vél setja í vél klára þýðinguna finna hótel er svo upptekin ætli ég eigi nokkurn tímann eftir að brenna bíla samt er ég svo reið svo pirruð svo... ekki hrædd en bara reið reið reið).
Lifið í friði.
enn um kl... og svo Mondovino
Varðandi upplýsingarnar um Robbe-Grillet hér að framan, er full ástæða til að undirstrika það að hann hefur aldrei verið að flíka sínu kynlífi á nokkurn hátt, hann lætur fjöldann í friði og er, að ég held, alveg látinn í friði sjálfur. Í sjónvarpsviðtölum er áherslan eingöngu á kenningar hans um dauða höfundarins og annað tengt skáldskap, sem betur fer.
Og mér finnst líka vert að benda ykkur á skemmtilega myndaröð á síðu Þórdísar sem setti inn youtube-ljósmyndasyrpu af Serge Gainsbourg og Jane Birkin. Þau voru hjón lengi og ögruðu ýmsum með framkomu sinni. A.m.k. ein ljósmyndanna er frekar klámfengin, a.m.k. á bandarískan mælikvarða, það sést vel í brjóst Jane og hún er að sjúga fingurinn á Gainsbourg, þau bæði í rúmi undir sæng (líklega nakin). Hvort hann kúgaði hana, er vitanlega ekki alveg ljóst. Flestir myndu líklega segja nei, en ég veit samt að Jane var mjög taugaveikluð og líklega hefur verið einhver misnotkun á lyfjum og áfengi. Grátt svæði. Er ekki oftast einhvers konar misbeiting á valdi og tilfinningum í samböndum milli tveggja einstaklinga? Ekki alltaf sami aðilinn sem er fórnarlamb og stundum alls ekki skörp skil milli fórnarlamb/níðingur.
Annars horfði ég á Mondovino loksins í gær. Ef þú ert ekki búin(n) að sjá hana, drífðu þá í því. Vá hvað hún er flott. Vá hvað það eru drulluóhugnalegar senur í henni. Vá hvað mig langar til að fara og brjóta og brenna. Vá.
Tónlistin er góð, myndatakan er flott, fór í taugarnar á mér rétt fyrst (þoli ekki vel svona hreyfðar tökur) en svo var þetta bara smart og rétt notað einhvern veginn.
Flott að leyfa öllum að tala sitt tungumál.
Tvískinnungurinn í Frökkum er sláandi. En flott að sjá unga fólkið í Bourgogne sem er að hætta við.
Og þar sem það er ekki leiðrétt í myndinni: Það eru fleiri en einn kommúnistaborgarstjórar í Frakklandi.
Lifið í friði.
robbi grillaði
Mér datt allt í einu í hug sú skemmtilega staðreynd og tilviljun að Robbe-Grillet er á leið til Íslands og að á móti honum verður eflaust tekið með pompi og prakt, enda frægur maður og virtur í bókmenntaheiminum.
Hann verður með bókasýningu og fyrirlestur 20. apríl nk. Ég veit ekki alveg hvað bókasýning er en fyrirlesturinn verður áreiðanlega skemmtilega óskiljanlegur og kannski er ókeypis vín á eftir að launum fyrir mætingu.
Robbe-Grillet er yfirlýstur masókisti, eiginkonan er herrann hans og klæðist alltaf svörtum leðurgalla. Hún hefur skrifað skáldsögur með BDSM-þemanu undir nafninu Jean de Berg, og skrifaði, í samvinnu við Catherine Millet (líka mjög
dónaleg skáldkona, frægust fyrir bókina
La vie sexuelle de Catherine M - Kynlíf Catherine M), grein sem hefur titilinn: "Ekki sekar, ekki fórnarlömb: Frjálst að stunda vændi".
Nei, jú. Fannst bara skemmtilegra að þið vissuð þetta, a.m.k. þið sem eruð með klám eða kynlíf eða bæði á heilanum eins og ég.
Lifið í friði.
banaslys
Bændurnir eru farnir aftur heim að sinna dýrunum, traktorar verða aftur til sölu í þessari viku og mér gæti liðið örlítið eins og nú færi að hægjast um hjá mér en í raun þarf ég að finna sal ekki seinna en strax, þetta er farið að leggjast á sálina.
Það er gaman að fylgjast með máltöku barna sinna. Ég hef í raun alltaf haft áhuga á máltöku og málnotkun og ber takmarkalausa virðingu fyrir málvísindamönnum. Stundum held ég að ég hefði átt að fara þá leið. Kannski ég geri það bara?
Ég man ekki lengur af hverju, en um helgina, milli anna, rifjuðust upp fyrir mér fyrstu kynni mín af orðinu banaslys.
Það kom fyrir í óvanalega stórri fyrirsögn framan á Vísi eða Þjóðviljanum. Með fréttinni fylgdi mynd af gangstétt með manneskju úr fókus í forgrunni. Ég tengdi orðið banönum en spurði samt ömmu hvað það þýddi því eitthvað fannst mér þetta undarlegt. Þegar amma sagði mér að unglingur hefði dáið þegar bíll keyrði á hann, gerbreyttist orðið. Liturinn, lyktin, bragðið varð strax allt annað og í engu hægt að líkja því við mjúkan og bragðgóðan banana.
Ég man að ég smjattaði samt áfram á orðinu, lengi lengi, í eldhúsinu á Kjartansgötunni. Hálfgerður masókismi, því ég var skíthrædd en gat samt ekki hætt að hugsa um þetta. Velti orðinu fyrir mér á allan mögulegan hátt, uppi í góm, undir tungunni, niðri í koki. Kitlaði í magann. Dauðahræðsla kviknaði. Gæti bíll keyrt á mig? Á mömmu?
Það er svo skrýtin aðstaða að geta aftur orðið litla barnið sem uppgötvar ný orð sem opna nýjar víddir. Þetta upplifi ég næstum daglega í gegnum börnin.
Lifið í friði.
grautur
Grautur í hausnum á mér
klám
ósómi
hræðsla
nenni ekki að spá í neitt af þessu
það er svo gaman að vera til gaman að vera til gaman að vera til
peningana eða lífið?
Lifið í friði.