6.3.07

enn um kl... og svo Mondovino

Varðandi upplýsingarnar um Robbe-Grillet hér að framan, er full ástæða til að undirstrika það að hann hefur aldrei verið að flíka sínu kynlífi á nokkurn hátt, hann lætur fjöldann í friði og er, að ég held, alveg látinn í friði sjálfur. Í sjónvarpsviðtölum er áherslan eingöngu á kenningar hans um dauða höfundarins og annað tengt skáldskap, sem betur fer.

Og mér finnst líka vert að benda ykkur á skemmtilega myndaröð á síðu Þórdísar sem setti inn youtube-ljósmyndasyrpu af Serge Gainsbourg og Jane Birkin. Þau voru hjón lengi og ögruðu ýmsum með framkomu sinni. A.m.k. ein ljósmyndanna er frekar klámfengin, a.m.k. á bandarískan mælikvarða, það sést vel í brjóst Jane og hún er að sjúga fingurinn á Gainsbourg, þau bæði í rúmi undir sæng (líklega nakin). Hvort hann kúgaði hana, er vitanlega ekki alveg ljóst. Flestir myndu líklega segja nei, en ég veit samt að Jane var mjög taugaveikluð og líklega hefur verið einhver misnotkun á lyfjum og áfengi. Grátt svæði. Er ekki oftast einhvers konar misbeiting á valdi og tilfinningum í samböndum milli tveggja einstaklinga? Ekki alltaf sami aðilinn sem er fórnarlamb og stundum alls ekki skörp skil milli fórnarlamb/níðingur.

Annars horfði ég á Mondovino loksins í gær. Ef þú ert ekki búin(n) að sjá hana, drífðu þá í því. Vá hvað hún er flott. Vá hvað það eru drulluóhugnalegar senur í henni. Vá hvað mig langar til að fara og brjóta og brenna. Vá.
Tónlistin er góð, myndatakan er flott, fór í taugarnar á mér rétt fyrst (þoli ekki vel svona hreyfðar tökur) en svo var þetta bara smart og rétt notað einhvern veginn.
Flott að leyfa öllum að tala sitt tungumál.
Tvískinnungurinn í Frökkum er sláandi. En flott að sjá unga fólkið í Bourgogne sem er að hætta við.

Og þar sem það er ekki leiðrétt í myndinni: Það eru fleiri en einn kommúnistaborgarstjórar í Frakklandi.

Lifið í friði.