5.3.07

banaslys

Bændurnir eru farnir aftur heim að sinna dýrunum, traktorar verða aftur til sölu í þessari viku og mér gæti liðið örlítið eins og nú færi að hægjast um hjá mér en í raun þarf ég að finna sal ekki seinna en strax, þetta er farið að leggjast á sálina.

Það er gaman að fylgjast með máltöku barna sinna. Ég hef í raun alltaf haft áhuga á máltöku og málnotkun og ber takmarkalausa virðingu fyrir málvísindamönnum. Stundum held ég að ég hefði átt að fara þá leið. Kannski ég geri það bara?

Ég man ekki lengur af hverju, en um helgina, milli anna, rifjuðust upp fyrir mér fyrstu kynni mín af orðinu banaslys.
Það kom fyrir í óvanalega stórri fyrirsögn framan á Vísi eða Þjóðviljanum. Með fréttinni fylgdi mynd af gangstétt með manneskju úr fókus í forgrunni. Ég tengdi orðið banönum en spurði samt ömmu hvað það þýddi því eitthvað fannst mér þetta undarlegt. Þegar amma sagði mér að unglingur hefði dáið þegar bíll keyrði á hann, gerbreyttist orðið. Liturinn, lyktin, bragðið varð strax allt annað og í engu hægt að líkja því við mjúkan og bragðgóðan banana.
Ég man að ég smjattaði samt áfram á orðinu, lengi lengi, í eldhúsinu á Kjartansgötunni. Hálfgerður masókismi, því ég var skíthrædd en gat samt ekki hætt að hugsa um þetta. Velti orðinu fyrir mér á allan mögulegan hátt, uppi í góm, undir tungunni, niðri í koki. Kitlaði í magann. Dauðahræðsla kviknaði. Gæti bíll keyrt á mig? Á mömmu?
Það er svo skrýtin aðstaða að geta aftur orðið litla barnið sem uppgötvar ný orð sem opna nýjar víddir. Þetta upplifi ég næstum daglega í gegnum börnin.

Lifið í friði.