31.3.07

klukkan er níu

Klukkan er níu að morgni laugardags. Ég kom heim rúmlega eitt í nótt. Lögðum af stað fjögur upp úr ellefu, týnd einhvers staðar í innviðum hins ógurlega 16. hverfis Parísar, en þar býr fína fólkið. Þar sem enginn leigubíll var sjáanlegur stukkum við upp í strætisvagn sem var að fara í sömu átt og við gengum, í góðri trú um að við værum að ganga í rétta átt. Eftir nokkrar stoppistöðvar var hins vegar ljóst að við vorum á leið út úr borginni, í þveröfuga átt við það sem við vildum. Þá var stokkið út úr vagninum (ekki á ferð) og reyndumst við vera fyrir framan einhvern ægilega IN bar, þennan nýjasta í bænum. Stórir og flottir dyraverðir stóðu fyrir utan og glitti í mikið fjör fyrir innan. Okkur fannst ekki úr vegi að kíkja þangað í einn drykk, búumst ekki við að eiga leið um þessar slóðir næstu mánuðina og tilvalið að geta nú slett kæruleysislega fram í næstu partýum: "Já, TSE á Porte d'Auteuil, jú jú, alveg ágætur staður, frekar flott fólk og kúl stemning. Tónlistin dálítið hávær en góð. Kokkteilarnir dýrir en smart frambornir með jasmínublómi fljótandi ofan á. Alvöru rommbragð af Daiquiri. Get svo sem alveg mælt með honum."
Fólk mun horfa á okkur í forundran: "Vá, hvað þið eruð lífsreynd."

En klukkan er nú ellefu mínútur gengin í tíu, þessi skrif tóku svipaðan tíma og dráttur hjá hóru samkvæmt Paulo Coelho. Og nú er líklega tími kominn til að fara að pota fötum í tösku og loka. Panta leigubílinn (sjúkraþjálfarinn bannaði mér að fara með töskuna í metró upp á völl) og kveðja kall og börn. Matur hjá mömmu í kvöld. Ég hlakka til.

Lifið í friði.