23.3.07

Að vera eða ekki að vera nörd

Það er til betra íslenskt orð yfir nörd, en ég er ekki viss hvort það er njörður eða eitthvað annað. Í fleirtölu er það nerðir, held ég.
Sem minnir mig á skemmtilega undarlega málvísindakönnun sem ég tók þátt í varðandi fleirtölumyndir á orðum eins og banani- banönum-bununum-bönönum. Ég fór inn í gegnum ghh, hann benti á þetta fyrir nokkru síðan.
Stafsetningavillur í spurningunum sjálfum trufluðu mig á tveimur stöðum en ég er fyrirgefandi kona og fyllti þetta allt saman samviskusamlega út.
En við Hildigunnur erum sem sagt aðalnerðirnir og fáum eflaust báðar tilnefningu ef einhvern tímann verður sett í gang leitin að íslenska nirðinum.
Og nú lýsi ég eftir þessu orði, nörður, njörður?

Glit auglýsingin var sem sagt kona sem brýtur allt stellið, mig minnir að matur hafi slest yfir manninn og börnin sem sátu stillt við borðið og allir sögðu sigri hrósandi loksins, loksins, loksins getum við keypt nýtt stell frá Glit.

Ég man vel eftir nokkrum öðrum íslenskum auglýsingum:

Hitatchi, já þú vinnur fyrir því
Hitatchi, já þú sparar fyrir því
og það mun endast endast endast...

Ég man eftir söngvaranum, mjög frægur söngvari enn í dag, einn af mínum uppáhalds, spurt er: Hver er maðurinn?
Svo man ég sérlega vel eftir stelpunum sem sungu bakraddirnar, aðallega af því að Jóna frænka var ein af þeim.

Svo man ég náttúrulega:

Við viljum Vilco, við viljum Vilco!
Bylting?
Já, Vilcobylting.
Aðallega vegna þess að Ása frænka lék mömmuna sem var svo stolt af byltingu barna sinna.

Einnig man ég eftir hinni ögrandi mjólkurferðarauglýsingu, ertu með í mjólkurferð? Já, viltu dansa mjólkurdaaaaaans?
Þar var líka eitthvað af frænkunum, voru það ekki tvíburarnir í það skiptið?

Sjónvarpið í þá daga var nú betra og skemmtilegra og draumkenndara en það er í dag. Finnst mér gömlu kerlingunni. Auglýsingar í dag eru mun agressívari og dónalegri. Það er allt á niðurleið í þessum ömurlega heimi. (og enn og aftur minni ég á að ég nota aldrei broskarla svo þið verðið sjálf að ákveða hvort ég er uppþornaður pessímisti með fortíðarþrá eða alveg brjálæðislega fyndin og ung í anda, nema hvorugt sé).

Lifið í friði.

Efnisorð: