23.3.07

Dominique Voynet

Fyrirsögnin er tengill í mynd og smá umfjöllun á frönsku um konuna sem ég vildi óska að væri á leið í 2. umferð í forsetakosningunum. Hún er heiðarleg, hógvær, alvöru vinstrisinni og leggur mesta áherslu á umhverfisvernd þó hún sé jafnframt vel að sér í öðrum mikilvægum málum eins og t.d. atvinnuleysi. Það að hún hefur eitthvað að segja í öðrum málaflokkum hefur verið notað gegn henni, þykir sýna að hún sé ekki alvöru umhverfisverndarsinni, hreint ótrúleg aðferð til að rægja hana, sérstaklega ef hugsað er til þess að stöðugt er verið að reyna að klekkja á Ségolène Royal með því að spyrja hana fáránlegra spurninga eins og hversu marga kafbáta á Frakkland og hamra svo á því að hún viti ekki nóg um allt. Það er ekkert grín að vera þátttakandi í kosningabaráttunni en þetta vissu báðar konurnar áður en þær buðu sig fram enda hvorug miklir nýgræðingar í stjórnmálum. Verst að þær skuli ekki starfa saman.

Ég horfði smá á sjónvarpið í gær og lærði m.a. þetta: Það eru 12 frambjóðendur í forsetann, 4 hægrimenn (Bayrou er hægrimaður, það er engin spurning í mínum huga), 7 vinstrimenn (þar af 3 trotskíistar!) og svo Le Pen. Ég hika við að setja Le Pen með hægrimönnunum, finnst hann reyndar mýkri en viðurstyggðin hann Sarkozy en hann er samt einhvern veginn utan við þessa einföldu skiptingu í hægri og vinstri.
Ég hef ekki getað haft mig upp í að segja ykkur almennilega frá landhreinsuninni sem á sér nú þegar stað og minnir um margt á hreinsun nasistanna á síðustu öld. Nýlega fengu starfsmenn grunnskólanna bréf um að þau ættu að afhenda lögreglu öll pappírslaus börn, komi til þeirrar beiðni. Þetta er alveg sambærilegt við reglurnar sem andspyrnumenn brutu í hernáminu. Joseph Migneret, skólastjóri barnaskóla í Mýrinni (gyðingahverfið) í París lét t.d. lífið í útrýmingarbúðum vegna þess að hann óhlýðnaðist fyrirmælum og kom nokkrum gyðingabörnum undan. Hvað á fólk að gera í dag? Er hetjudáð möguleiki? Er hægt að vera stríðshetja á svokölluðum "friðar"tímum?

Lifið í friði.