kosningavor
Það er ekki bara á Íslandi sem kosningar fara fram í vor. Hér eru bæði forseta- og þingkosningar framundan og baráttan í fullum gangi. Mig langar ekki neitt til að skrifa um hana, ástandið hér er ömurlegt og frambjóðendur virðast helst keppast við að taka hluti upp eftir hver öðrum.Mitt uppáhald var vitanlega Ségolène Royal. Ég segi vitanlega því ég er nefninlega með þennan fæðingargalla að halda ósjálfrátt með konum þegar konur keppa við karla. Hér í Frakklandi er tilhugsunin um konu í forsetastól einfaldlega of sjarmerandi tilhugsun til að geta annað en haldið með Ségolène eða Ségo eins og hún er nú kölluð hérna. (Eins og ég skrifaði Morgunblaðinu fyrir einhverju síðan er vaninn að nota fornöfn kvenna meðan karlar eru alltaf ávarpaðir með eftirnafninu, ég benti þeim á þetta eftir að hafa lesið um Clinton þetta og Clinton hitt í smá stund áður en ég áttaði mig á því að verið var að fjalla um Hillary. Mér finnst ágæt regla að nota fornöfn kvennanna, oft er eftirnafnið notað með en það er eiginlega hálfgerð virðing falin í að fornafnið sé notað eitt og sér, smá stjörnufílingur í því, og lýkur nú þessu innskoti). En vandamálið er að ég held ekkert alveg með öllu sem Ségo segir. Til dæmis ber ég mun minni virðingu fyrir Tony Blair en hún. Og það er þessi frjálslyndisstimpill sem hún hefur fengið á sig sem hefur gert vinstrafólki erfiðara fyrir að ákveða sig hvort þau eigi að kjósa hana eða ekki. Spunameistarar hinna flokkanna gerðu sér vel grein fyrir forskotinu sem hún hafði með því að vera kona. Þeir vita, eins og ég, að ég er ekki sú eina sem langar það eitt að sjá konu í ljósri dragt standa með hálsfestina góðu við Elysée-höllina og vinka okkur. Gvuð mín góð hvað ég var glöð þegar Frú Vigdís vinkaði okkur forðum af svölunum á Aragötunni.
Ég er því í smá krísu með Ségo. En ég held samt eiginlega með henni ennþá, þessi löngun í konu í valdastöðu er svo sterk. Ég er samt að mörgu leyti sammála Rafauganu sem skýtur niður þennan hugsunarhátt og vitanlega væri best af öllu, langbest af öllu að geta ímyndað sér stóra feita svarta konu í afrískum kjól með hálsfestina við Elysée-höllina. Ætli þess sé langt að bíða?
Frambjóðandinn sem hefur í raun tekið við af Ségo síðustu daga í tvennunni Sarkó-Ségo sem ávallt var notuð í upphafi sem hin eini raunhæfi möguleiki í annarri umferðinni, er miðjugaurinn Bayrou. Hann lætur nú mynda sig í gríð og erg með trefil í frakka à la Mitterand, hugsi á svip. Og þessar myndir gera það að verkum að maður hugsar jafnvel með sér að kannski sé hann bara allt í lagi kostur. Að minnsta kosti þúsund sinnum betri en Sarkozy eða, ó nei, ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda: Le Pen!
En í gær sá ég hann svo tala í sjónvarpinu. Hann hefur stúderað andstæðing sinn, Sarkó, og notar sömu handahreyfingar, sömu orð, sömu frasa, sömu aðferðir við að sedúsera á djöfullegan máta. Ég vil hann ekki og sagði við manninn minn að hjónabandi okkar yrði jafnvel lokið, kysi hann Bayrou. Auðvitað meinti ég það ekki, læt ekki þessar strengjabrúður stjórnmálanna komast upp á milli okkar en eitthvað varð ég að segja og þetta var eina hótunin sem mér datt í hug.
Kosningar eru leiðinlegt fyrirbrigði og að mínu viti endurspegla úrslitin í engu afgerandi vilja þjóðanna. Lýðræðið er trunta með tóman grautarhaus.
Lifið í friði.
<< Home