30.11.04

prófdagur I

Jæja, þá er dagurinn runninn upp. Arnaud farinn í stóra bókasafnsprófið sitt. Hann er sem sagt að sækja um vinnu á bókasafni og til þess að fá vinnu hjá opinberum stofnunum í Frakklandi þarf að fara í gegnum stórt samræmt próf. Sama hversu lummó vinnan er. Arnaud vill fá vinnu á bókasafni hér í úthverfinu þar sem söfnin eru bara opin nokkra daga í viku svo hann sé með launaseðil (fyrir dagheimilispláss fyrir börnin) en geti samt unnið sína aðalvinnu sem eru skriftir. Vá, þetta var leiðinlegt. Að útskýra. Að skýra út.
Það er aldrei gaman að útskýra svona hversdagshluti. Skemmtilegra væri að þurfa að útskýra hvernig flugvél tekst á loft eða hvernig kafbátar geta komist á margra kílómetra dýpi og haldið réttum þrýstingi inni í sér. Eða hvernig straujárn virka. Eða piparkökur bakast. Hætt.
Arnaud fór út klukkan hálfátta í morgun og kemur heim hálfníu í kvöld. Ég er ein með börnin og skítakuldi úti. En það er nú samt sólarglæta annan daginn í röð sem er sálarlega afskaplega gott mál. Sólin er svo góð þó það sé kalt. Himininn er svo miklu betri án skýja. Það er reyndar stórt mengunarský yfir París, en þau hverfa alltaf þegar líður á daginn.
Á morgun fer Arnaud aftur í prófið og svo er hann búinn. Búinn. Svo tekur við margra mánaða bið eftir niðurstöðum. Úff. Best að hugsa ekki um það. Á morgun getur maður byrjað að opna dagatalið. Best að fara út í búð og athuga hvort þeir eigi ekki dagatöl. Ekki nammidagatal, súkkulaðið í þeim er alltaf eins og það sé búið til úr gömlum kúk. Kaupi bara eitthvað kitch myndadagatal og stóra dós af makkintosi. Mamma mín var svo frábær kona, og ER (ljótt að tala um lifandi fólk í þátíð, nema maður sé að tala um eitthvað ljótt: hann VAR letingi...), sem sagt, mamma er svo frábær kona að hún bjó til rosalega flott dagatal úr fíltefni og svo héngu makkintos molar í því. Árin fóru illa með það og mamma er hendikona svo ég get ekki fengið afnot af þessu dásamlega dagatali. En kannski fyrir næstu jól geri ég eitthvað flott. Betri hugmynd: Lauma því að mömmu að það sé nú alveg sérlega ömmulegt að búa til dagatal fyrir barnabörnin...
Makkintos heitir kvalítí strít í Frakklandi. Skrýtnir þessir Frakkar.

Lifið í friði. Lifi mannréttindin. Burt með ofríki kapítalismans.

29.11.04

tímanna tákn

Ég er að æfa börnin mín fyrir jólaballið nk. sunnudag. Ég syng því hér hástöfum alls konar jólalög öllum nágrönnum mínum til mikillar gleði og ánægju, býst ég við.
Það er kannski tákn um það hversu mikil nútímakona ég er, að ég söng alltaf að ég bryti saman þvottinn á föstudögum, en ekki að ég straujaði hann, eins og ég sá að upprunalegi textinn vill á söngblaðinu hjá væntanlegum undirleikara jólaballsins.
Ég strauja aldrei neitt. Ég bara tek þvottinn af snúrunum og helst í einu snöggu handtaki sem tekst því ég hef þróað afar sérstaka tækni við að hengja þvottinn upp með tilliti til þess að auðvelt sé að kippa honum niður aftur þurrum, svo brýt ég hann saman lauslega og hendi inn í skápa, ef hann liggur ekki bara í bunkum á borðstofuborðinu þar til hann fer aftur utan á heimilisfólkið.
Straujar einhver í dag? Jú, ein vinkona mín straujar því henni finnst það gaman. En hún er mjög skrýtin og finnst t.d. gaman að ganga á fjöll líka...

Ein saga sem mér dettur í hug í sambandi við þvott. Lítill gutti var í heimsókn með mömmu sinni hjá vinkonu hennar. Í næsta garði var kona að hengja upp þvott. Sá stutti bendir og segir: "abbababb kona að hengja upp þvott". Þetta vakti furðu viðstaddra, og kom í ljós að á hans heimili er það faðirinn sem sér um þvottadeildina. Skemmtileg saga sem sýnir að karla- og kvennastörf er afstætt fyrirbrigði.

Lifið í friði á aðventunni. Megi sem flestir lifa hana af.

27.11.04

vandlæting

Hafið þið tekið eftir því að fólk er almennt mjög snöggt að "taka mann út", að ákveða hvernig týpa maður er, og setja mann í einhvern flokk sem er unnin eftir einhverju kerfi sem við búum okkur til?
Allt í kringum okkur hefur áhrif á þetta kerfi og þessa flokka. Glanstímarit sem ég hef löngum skammast yfir, sjónvarpið sem ég hef löngum skammast yfir og gamlir fordómar og kreddur eru líklega sterkustu grunnarnir í þessu flokkakerfi okkar. Við berjumst svo misharkalega við að leyfa hjartanu, innsæinu og almennri þolinmæði að koma við sögu og bremsa flokkunina dálítið af. Þannig gefum við fólki yfirleitt tækifæri til að leyfa okkur að kynnast því nánar og sjá að það er ekki eins einfalt og útlit var fyrir í upphafi kynna.
Þegar ég var á Íslandi í síðasta mánuði, varð ég mikið vör við þetta í sambandi við málakunnáttu dóttur minnar. Hún er tveggja og hálfs árs og talar heilmikið. Ég tala við hana á íslensku, en hún svarar manni alltaf á frönsku. Fólk sem var að hitta okkur var undantekningarlaust með sömu viðbrögðin. Einhver ákveðin tóntegund sem þýddi "ég er nú dálítið hneyksluð en samt afskaplega skilningsrík manneskja og vorkenni þér dálítið að vera svona vitlaus" og setningin var sögð frekar hægt um leið og hallað var undir flatt: Já, talarðu ekki við hana á íslensku? Þegar ég reyndi af veikum mætti að verja mig og halda því fram að hún skildi íslenskuna, trúði fólk mér tæplega.
Eftir þrjár vikur á skerinu breytti dóttir mín allt í einu um taktík og fór að tala íslenskuna eins og ekkert væri. Eftir það var lífið auðveldara fyrir okkur og sérlega þótti fólki það framúrskarandi gott að hún var með ótrúlega flottan orðaforða. Síðan talar hún áfram íslenskuna við mig, og svissar yfir í frönskuna með pabba sínum eins og ekkert sé, og er m.a.s. búin að þýða orðið "petite culotte" sem "litlar buxur" og vill frekar nota það en íslenska orðið nærbuxur sem henni finnst ekki gáfulegt orð. [Hún var sko bara að byrja að nota nærbuxur í síðustu viku, er að hætta með bleiju.]
Það er í raun alveg undarlegt að fólk skyldi ekki bara spyrja mann eðlilega með sinni eðlilegu tóntegund hvort hún væri líka að læra íslensku. Bara ákveða strax að ég væri nú frekar svona glötuð að ætla ekki að gefa henni þessa fínu gjöf sem aukatungumál er. Auðvitað gefum við íslenskir foreldrar í útlöndum flest börnum okkar þessa gjöf. Fyrir fimmtán árum eða svo var það ekki eins algengt, því þá gerði fólk sér kannski ekki eins góða grein fyrir hvað það er mikill styrkur í tvítyngi. Það var líka kannski meira um að fólk sleit alveg tengslin við Ísland.
Ég reyni yfirleitt að gefa fólki færi á að kynna mig fyrir sér og kynnast því áður en ég hugsa "hippi", "uppi", "proffi", "róni" eða eitthvað viðlíka. Auðvitað er einhvert fyrsta álit á manneskjunni, en ég vara mig yfirleitt á því.
Einnig reyni ég að muna að ef fólk hegðar sér illa, er leiðinlegt og frekt, er það oftast vegna þess að því líður illa. Reyni að ímynda mér að vonda kerlingin sem hrinti mér í strætó var kannski að koma úr kistulagningu mannsins síns eða eitthvað álíka óhuggulegt, og þá er auðveldara að fyrirgefa slæma hegðun.
Ég reyni að segja fólki ekki of mikið hvað það á að gera og hvernig það á að haga sér. Auðvitað hugsar maður sitt, en ég reyni samt að leyfa fólki að vera eins og það er, og muna að kannski er það jafnhissa á mér og minni hegðun.
Er ekki einmitt málið að maður veit alltaf best hvernig hinir eiga að haga sér og minnst hvernig maður á að hafa stjórn á eigin lífi?

Lifið í friði.

23.11.04

non je ne regrette rien

Allir þekkja Edith Piaf. Það hélt ég a.m.k. þar til að systir mín fræddi mig á því að stjúpdóttir hennar, 19 ára bráðvelgefin stúlka sem er að læra frönsku, kom af fjöllum og vissi ekkert um þessa konu eða hvað hún hefði gert. [Sem minnir mig á frásögn vinar af því að hann var að vinna með Stefáni Hilmarszzs (set þetta svona þar sem ég man ekki alveg hvernig hann vill hafa þetta) og um leið var hann að vinna með menntskælingum og fór að segja þeim frá undirbúningnum að Sól og Mána. Þá kom í ljós að mennskælingarnir vissu ekki hver Stebbi er! Maður fær nýja hrukku undir augun þegar maður kemst að svonalöguðu.] En stjúpdóttirin er í MR og þegar ég var í MR fengum við að hlusta á Edith Piaf í frönskutímum. Hvert er þessi heimur eiginlega að fara?
Eitt af frægustu lögum Edith Piaf er lagið um að hún sjái ekki eftir neinu. Hún sé búin að sópa öllu leiðinlegu í burtu og byrji ávallt á núlli á ný.
Edith Piaf átti mömmu sem vildi ekki eiga hana og skipti sér lítið sem ekkert af henni þangað til að hún fór að betla af henni peninga þegar Piaf var orðin heimsfræg. Edith Piaf gaf mömmu sinni peninga, en gat ekki gefið henni neitt annað, og sagði yfirleitt að hún ætti ekki mömmu. Hún lét flytja lík föður síns og dóttur sinnar í Père Lachaise þar sem hún ætlaði sjálf að hvílast. En hún lét ekki flytja mömmu sína þangað, þannig að hún hvílir í opinbera kirkjugarðinum í Thiers, í 43. reit, 10. línu, 1. gröf.
Samkvæmt Danièle Bonel, sem sá lengi um Piaf og skrifaði bókina um hana sem ég var að lesa, þjáðist Piaf að öllum líkindum alla sína ævi fyrir þetta. Hún hefur t.d. það fyrir sér, að Edith Piaf bað Danièle einu sinni um að lesa fyrir sig bréfin sem hún (Danièle) hafði fengið frá móður sinni í gegnum tíðina. Svo andvarpaði Piaf og sagðist sjálf ekki eiga móður. Auðvitað sá Edith Piaf eftir því að hafa verið svona óheppin með mömmu.
Um daginn fór spurningalisti um bloggsíður ýmsar. Svona dæmigerður naflaskoðunarlisti sem mér fannst mjög skemmtilegt að lesa hjá öðrum, þó ég nennti samt aldrei að svara honum sjálf. Þar var ein spurningin um það hverju fólk sæi eftir. Það brást ekki að fólkið sem ég las, svaraði ENGU. Ég er kannski einum of einföld, en ég bara trúi þessu ekki. Ég trúi því ekki að fólk sjái ekki eftir neinu.
Ég er ekki týpan sem liggur og veltir sér upp úr fortíðinni. Ég er ekki mikil sjálfsvorkunnartýpa, held ég. Kannski dramadrottning stundum, en ég er ekki haldin fortíðarþrá og er ekki að plaga mig á röngum ákvarðanatökum eða rangri hegðun í gegnum tíðina. Það þýðir samt ekki að ég sjái ekki eftir neinu.
Hlutir sem ég sé eftir:
Þegar ég kallaði feitu stúlkuna feitu stúlkuna í barnaafmælinu sem ég þekkti engan í. Hitti svo stúlkuna í boði mörgum mörgum árum seinna og sá það á henni að hún mundi eftir mér. Þá hafði ég tækifæri til að biðjast afsökunar á því að hafa sært hana svona, en gerði það ekki. Tvöföld eftirsjá.
Að hafa hætt að læra á píanó. Pabbi sagði mér að ég myndi sjá eftir því, en ég hlustaði ekki á hann.
Að hafa hangið lengi í mislukkuðum samböndum við einhverja töffara sem ég hafði ekkert með að gera. En ég lærði svo sem ýmislegt og bý að þessari reynslu. Naga mig SAMT stundum í handarbökin yfir öllum tímanum sem fór í þá vitleysu.
Þetta eru þrjú dæmi og ég gæti líklega haldið lengi áfram. Ég hugsa ekki daglega um neitt þeirra og var smá stund að muna þau meðan ég var að skrifa.
Ég held að eitt af nútímavandamálunum sé ekki að fólk er að velta sér upp úr liðnum atburðum, heldur einmitt að fólk gleymir að byggja á fortíðinni og mistökunum. Það á ekki að sópa þeim undir teppi, það á að muna þau og læra af þeim.
Fólk er alltaf að keppast við að horfa inn í framtíðina: Hvernig sérðu þig eftir tíu ár? Um leið erum við með nagandi efasemdir um að þessi blessaða pláneta sem við keppumst við að misþyrma, verði enn til eftir tíu ár. Þetta er fullkomin leið til að láta sér líða illa.
Það er best að leyfa sér að vera til úr léttþeyttri blöndu af núinu og fortíðinni, held ég. Stúdera sögu þjóðanna, sögu heimsins, sögu trúarbragða og konunga, sögu Afríku og Asíu og um leið íhuga reglulega sína eigin sögu og muna allan tímann eftir að njóta líðandi stundar eins og mögulegt er.
Kannski er þetta bölvuð vitleysa í mér, en ég er mikið búin að vera að pæla í þessu undanfarið og ég endurtek að alveg eins og ekki er til fordómalaust fólk, GETUR EKKI verið til fólk sem sér ekki eftir neinu.
Lifið í friði.

20.11.04

til hvers er blogg?

Ég er ekkert alveg viss um að ég ætli að halda áfram að blogga. Mér finnst í rauninni engin ástæða til að láta í mér hvína á þessum vettvangi þegar ég fæ engin viðbrögð nema þegar ég tek einhver lummó persónuleikapróf eða tala um gloss.
Þegar ég tala um hluti sem skipta mig máli, virðist það ekki vera svaravert.
Ég var rétt í þessu að skoða slóðina http://fallujapictures.blogspot.com/ og ég vil bara vara ykkur við því að þarna er engum hlíft. Ef þið hafið ekki áhuga á því að gera ykkur fyllilega grein fyrir því sem er að gerast í Írak, skulið þið sleppa því að líta á þessa síðu.
Ef þið hafið áhuga á því að láta íslensk yfirvöld vita hvernig ykkur líður, er Gvendarbrunnur/ með lausnina á því.
Mér líður hörmulega núna. Friður er hlutur sem við öll, við öll sem búum þessa jörð, ættum að hafa tækifæri til að lifa við. Íslendingar skrifa undir ódæðisverkin í Írak. Íslendingar eru að verða meiri rasistar með tímanum skv. grein í Morgunblaðinu frá síðustu helgi. Íslendingar eru friðsamt og hjartahlýtt fólk, en við látum allt of mikið yfir okkur ganga, látum allt of mikið mata okkur á því hvað við eigum að hugsa. Ég er sannfærð um að hvert íslenskt hjarta tæki að sér flóttamann ef hann berði að dyrum. Ég er sannfærð um að við viljum hleypa fólki sem getur ekki lifað í sínu landi, inn í okkar ríka og góða land. Ég er sannfærð um að fólk er ekki fífl, fólk er gott, en fíflin sem heilaþvo okkur daglega, eru of sterk í augnablikinu. Ég er sannfærð um að það muni breytast innan skamms.
Ég er sannfærð um að við getum, með hugarfari og hjartakærleik, komið á friði í heiminum.
Lifið í friði.

18.11.04

hana nú!

... sagði hænan og lagðist á bakið.

Tók þetta kviss, þó ég hefði lofað sjálfri mér að gera aldrei slíkt aftur eftir meðferðina á edda.is þar sem ég var plebbi og undirmálsmaður. Ég er sem sagt Nýja Jórvík! Sem ég hef aldrei komið til, en alltaf langað.

Take the quiz: "Which American City Are You?"

New York
You're competative, you like to take it straight to the fight. You gotta have it all or die trying.

Lifið í friði.

17.11.04

lesið þetta

Sverrir Jakobsson skrifaði þetta og Gvendarbrunnur benti mér á hann. Lesið þetta endilega.

Lifið í friði.

er vafi?

Er einhver í vafa um að ástandið sé hræðilegt í Írak og að heimurinn sé engu betri eftir fall Saddam Hussein eins og Chirac bendir á?
Er það ekki nokkuð ljóst að börnin mín eiga eftir að skella sér á nýjustu "Íraksmyndina", alveg eins og ég skellti mér svo oft á Víet Nam stríðsmyndir í bíó á unglingsárunum?
Myndirnar munu sýna tryllta hermenn, tryllta vegna þess að það er ekkert annað hægt en að verða trylltur í svona aðstæðum, ráðast á tryllta "villimenn" (nú verður "hrísgrjónaætum" skipt út fyrir "sandnegra"). Það verður barið, drepið og nauðgað. Sáttmálar brotnir, en auðvitað ameríski fáninn dreginn að húni í lokin og allir fyllast þjóðernisstolti þó að blóðbragðið í munninum skyggi örlítið á. Það er ekki hægt að búa til eggjaköku án þess að brjóta egg.
Hlakkið þið til?
Eru Íslendingar almennt stoltir af því að skrifa undir þetta blóðbað? Var ekki betra að vera hlutlausa ríkið, herlausir friðarsinnar sem létu aðra í friði og voru því líka látin í friði?
Gera Íslendingar sér almennt grein fyrir því hversu auðvelt og þægilegt skotmark þeir eru? Og jafnvel spennandi, því það er ljótt að ráðast á minni máttar og myndi því vekja áhuga í heimsfréttunum, alveg eins og það að ráðast á barnaskóla vekur áhuga og óhug. Hryðjuverk miða að því. Hryðjuverk eru framin til að vekja óhug af fólki sem lifir í óhugnaði sjálft og sér enga leið út úr því. Lifir í óhugnaði sem okkur feitu og freku vestrænu dekurrófum er alveg sama um og gerum ekkert til þess að stöðva. Við Íslendingar gerum ekkert til þess að stöðva óhugnaðinn, heldur erum við einmitt SKRIFUÐ FYRIR ÞESSUM ÓDÆÐUM. Sama hversu GÓÐHJÖRTUÐ við erum. Við höfum SAMÚÐINA, ójá, en við bara GETUM HVORTEÐER EKKI GERT NEITT. Sjónvarpið, auglýsingar og markaðsómenni, pólitíkusar, allir hjálpast að við að halda okkur áfram í þessum dvala uppfull af ranghugmyndum um að við ráðum ekki neinu í þessum heimi. Vera kannski pínulítið þunglynd af samviskubiti stundum, en yppa samt alltaf bara öxlum og andvarpa: "ég myndi gera eitthvað ef ég bara gæti". Klisjur eins og að hægri og vinstri sé sama húmbúkkið og því ónauðsynlegt að kjósa, að stríð sé manninum eðlilegt og náttúrulegt og nauðsynlegt eru stórhættulegar og deyfa okkur niður. Hættum að trúa þessum lygum.
Gerið þið ykkur grein fyrir því að Clinton var það sem næst kom því að hafa kvenforseta í Hvíta Húsinu? Hann átti sterka konu með bein í nefinu sem sagði honum oft til. Þetta gátu herforingjar og peningavaldið ekki þolað, það hefði virkilega staðið þeim fyrir þrifum að hafa mann með konu eins og Clinton í embættinu þegar tækifærið með Írak gafst. Því réðust þeir að honum og hröktu hann úr embætti. Það var engin tilviljun að Monica var vopnið. Það vopn beindist nefninlega líka gegn Hilary. Og Kerry á líka sterka konu og því var ljóst að hann næði ekki kjöri. Karlaveldið í Bandaríkjunum mun ekki gefast upp svo auðveldlega. Fyrr munu þeir kjósa svartan mann en konu í forsetastól. Því get ég lofað ykkur.
Það er ekki að ástæðulausu sem herir eru myndaðir af körlum. Konur hugsa nefninlega of mikið. Þær eiga mjög erfitt með að hlýða beinum skipunum umyrðalaust. Ómögulegir hermenn.
Það þarf fleiri konur í ábyrgðastöður í heiminum. Og færri hermenn.
Ég rausaði í gær en var samt í góðu skapi. Í dag er ég reið.

Lifið í friði.

16.11.04

hylki

Las fínan pistil hjá Pullu, sem ég bætti í tenglasafnið rétt í þessu. Hún talar um ríka fólkið aleitt í hylkjunum sínum. Það leiddi huga minn að frétt á mbl.is um daginn um að Seðlabankinn segir að eftir nokkur ár muni fólk eiga minna en ekkert í íbúðum sínum út af nýju lánakerfi. Þetta þótti mér afar ógnvænleg frétt. Ég skil ekki hvernig fólk getur leyft sér og getur langað til að lifa svona um efni fram eins og það gerir. Ég skil ekki íbúðaverð á Íslandi. Ég skil ekki hvers vegna fólk hættir ekki bara að kaupa og hvers vegna er verið að byggja svona mikið. [Sagan hans Arnaldar Indriðasonar sem ég las um daginn og get ekki munað hvað heitir, bíðiði, hvað heitir hún aftur... já, Dauðarósir er með bráðskemmtilega kenningu sem passar vel inn í minn samsæraheim, um það hvers vegna allir búa í Reykjavík í dag. Áreiðalega ekki alveg út í loftið þessi kenning sem ég ætla ekki að tíunda hér, mæli heldur með lestri bókarinnar.] Ég skil ekki hvers vegna fólk tekur lán fyrir jeppum sem eru dýrir í rekstri og erfitt að keyra og leggja. Skil ekki hvers vegna fólk er ekki í rónni nema eiga besta sófasettið, flottustu græjurnar og stærsta sjónvarpið.
Jú, líklega er þetta bara vegna þess að við erum fórnarlömb eilífs áreitis auglýsinga og kvikmynda frá Hollívúdd. Óþolandi hvernig við erum sífellt með auglýsingar fyrir augum og í eyrum. Hvar sem er og hvenær sem er. Erfitt að loka sig frá þeim, án þess að loka sig frá öllum umheiminum líka.
Óþolandi að vita til þess að við erum eins og rottur í búri á rannsóknarstofu fyrir þessum mönnum sem búa til auglýsingar og finna sífellt nýjan og nýjan vettvang, nýtt og nýtt pláss til að troða auglýsingum í. Nýjasta á Íslandi er þessi litli sakleysislegi og litskrúðugi límmiði á Mogganum. Var nóg til þess að mig langaði til að setja Moggann sömu leið og aðra auglýsingapésa: beint í endurvinnslupokann. Heyrði í einhverju ómenni sem fann þetta upp vera með fagurgala um það hvað hann væri spenntur yfir þessu í einhverjum útvarpsþætti. Óþolandi. Skjótum þetta lið sem getur ekki látið eðlilegt fólk í friði og vill gera okkur öll að þrælum bankanna. Sem við erum langflest orðin. Þrælar sem þykjumst eiga þak yfir höfuðið og flotta bíla að keyra í, meðan raunverulegir eigendur eru bankarnir og eigendur bankanna. Við lítilmagnarnir erum bara maurar. Ömurlegur helvítis fokking kapítalistaheimur.

Ég er í góðu skapi í dag. MMmmm vona að það sjáist vel. Hér þyrfti að koma broskarl, en eins og dyggir áhangendur vita, er ég algerlega á móti broskörlum. Brosi út að eyrum hérna við tölvuna mína.

Hló mig máttlausa að orðum Dobbeljú forseta okkar allra, við fráfall Arafats sem ég las í laugardagsmogganum sem barst mér í morgun. Hann er milljón þessi maður. Milljón.

Varðandi bókaflóðið, er ég með eina tillögu til Lesbókar: Hvernig væri að skrifa heldur greinar og taka viðtöl út af bókunum frá í fyrra, sem maður gæti verið búinn að lesa? Ég forðast í lengstu lög að lesa um bækur og bíómyndir sem ég á eftir að sjá, það gefur manni yfirleitt gersamlega rangar forsendur til að nálgast verkin. Maður nennir auðvitað ekki að geyma Lesbækurnar og les því aldrei þessi gáfulegu viðtöl við höfundana.
Maður er reyndar ekki heldur búinn að lesa neitt rosalega mikið frá í fyrra. Kannski er engin glansandi góð lausn á þessu. Mér finnst reyndar mjög gaman að lesa fyrirsagnirnar og síðustu setningarnar í gagnrýninni. Og enn meira gaman að skoða myndir af höfundunum. Myndin af Sindra Frey er t.d. alveg stórfín þó ég sé hrifnust af litlu kápumyndunum í passamyndastíl. Þar sem ekki er verið að rembast við neina listrænu, bara hrein portrett og oft alveg stórkostlega vel heppnuð.
Rosalega er nú samt margt óspennandi í þessu flóði. Ha? Maður er nú bara stundum í áfalli og þyrfti að fá hjálp, svo undarlega hljómar sumt sem verið er að gefa út. Dæmi: Konur sem hugsa of mikið. Segi ekki orð um þetta rit meir, gæti komið út sem verðugt dæmi fyrir bókina.
Lifið í friði.

14.11.04

Kári afmælisbarn

Elsku litli kúturinn minn á afmæli í dag. Ár síðan hann kom út. Ár síðan ég fnæsti og hvæsti og var stungin þrisvar eða fjórum sinnum í bakið áður en mænudeyfingin tókst. Ár síðan ég var næstum búin að myrða manneskju í fyrsta sinn. Ár síðan ég varð tveggja barna móðir sem er helmingi meira mál en að vera eins barns móðir. ÁR. Hefur liðið svo hratt og samt svo margt gerst... bla bla bla. Nenni ekki að bulla um þetta neitt nánar, er á fullu að reyna að ýta öllu ryki undir skápa og bókahillur þar sem föðurfjölskyldan ætlar að koma í kaffi og kökur sem ég er búin að vera að baka undanfarna tvo daga. Frekar svona mislukkaðar, seigur marengs og hálfeymdarleg súkkulaðikaka og ekkert skraut, bara notað afmæliskerti. En maður fær svo mikinn plús frá Frökkunum fyrir að gera hlutina sjálfur. Þessar búrgeisakonur í fjölskyldunni fara nú bara út í bakarí og panta veitingarnar. Svo verður auðvitað hinn skotheldi ostabakki frá besta ostasala í heiminum. Þetta verður allt í lagi. En gvuuð minn góður rykið hérna. Hér er þrifið af prófessíonal manneskju á hverjum miðvikudegi, en þegar maður fer að taka almennilega til og reyna að troða alls konar dóti inn í skápa koma líka þessir ullarhnoðrar í ljós alls staðar. Og vetrarsólin er miskunnarlaus og lýsir upp rykið eins og um einhverja dívu á sviði væri að ræða. Best að rjúka.
Lifið í friði.
p.s. Surtsey er 31 árs í dag.

13.11.04

að vera eða ekki að vera með gloss

Ég er kona. Ég er mjög ánægð með það, og er femínisti. Sem þýðir það sama og að vera jafnréttissinni. Ég hata ekki karlmenn, ég vil ekki láta breyta tungumálinu (sjá grein í Lesbók fyrir viku), ég vil alls alls ekki útrýma körlum af jörðinni. Þeir eru til margra hluta nýtilegir.
Hins vegar er ég svolítið með þessari "jákvæðu mismunun" til að leiðrétta verulega skertan hlut kvenna í hærri stigum þjóðfélagsins. Það stríðir að vísu dálítið gegn réttlætisvitund minni, en það VERÐUR að fá fleiri konur í stjórnarstöður og líklega er eina leiðin til þess að ná upp eðlilegu jafnvægi, að mismuna þeim núna í smá tíma.
Ég held að það að vera kona, alveg eins og það að vera karl, hljóti að vera náttúrulegt. Þess vegna skil ég ekki allar þessar greinar, öll þessi tímarit, allar þessar bækur, sem fjalla um það hvernig maður á að vera kona. Ég skil það alls ekki. Ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á þessum blöðum, þó ég gluggi stundum í þau af forvitni eða til að drepa tímann á biðstofum. Eiginlega finnst mér öll þessi glanstímarit sem fjalla um tísku og trend alveg gersamlega fyrir neðan mína virðingu. Ég þoli mjög illa að láta segja mér hvernig ég á að mála mig og klæða mig.
T.d. fer eitt alveg hrikalega í taugarnar á mér akkúrat núna. Gloss. Hvar ætlar þessi eigtís drullutíska að enda? Gloss! Ljótt. Á mér a.m.k. Og svo vefst það ægilega fyrir mér að um daginn sá ég brot af morgunþættinum á Stöð 2 og þar var sagt að allar konur yrðu núna að eiga einn fagurrauðan varalit í snyrtibuddunni. Nú? Ég er að sjá upp um alla veggi og í öllum búðum og blöðum að það eina sem blífur núna er gloss. Má maður þá eiga varalit? Þennan hárauða? Bara hann? Verð ég að henda þessum appelsínurústrauða sem ég fann eftir áratuga leit núna í sumar eða vor?
Í fyrsta sinn síðan ég fór að nota varaliti spari, get ég sett einn lit á varirnar. Þarf ekki lengur að blanda tvo til þrjá. Og þá kemur tískulöggan og segir mér að nú sé það gloss. Ég setti á mig gloss um daginn, fékk hjá vinkonu minni þar sem við vorum úti á lífinu og ég auðvitað hafði gleymt varalitnum heima og maður bara verður að bæta á áður en maður fær sér nýjan kampavínskokkteil. Mér fannst ég hrikalega hallærisleg með gloss. Passar mér álíka vel og að ég setti gerfiaugnahár og skærbleikan kinnalit í línu niður kinnbeinin. Líður eins og Pamelu Anderson og það finnst mér ekki gott.
Ef ég yrði svona meikdollutýpa, færi ég alveg yfir í Ninu Hagen. Sá hana í sjónvarpinu í gær í þessum frábæra þætti um þýska popptónlist fyrir og eftir múrinn. Hún er svo flott! Ég meina það, ég væri til í að breytast í meikdollu, ef ég gæti verið fullkomlega örugg um að ég yrði jafn flott og hún.
En þangað til ætla ég að halda mig við matta fína varalitinn minn. Sem á eftir að endast í 6-7 ár, jafnvel lengur, miðað við endingartíma annarra varalita minna.
Ég er kona. Ég er ánægð með að vera kona. En djöfull eruð þið nú samt heppnir með sumt þarna tippalingarnir ykkar! Og ekki bara þetta mánaðarlega!

Lifið í friði.

11.11.04

enn ein gúrkan

eða er þetta banani?
Skiptir þetta blessuð börnin nokkru máli? Hafa þau misst eitthvað úr? Má ég virkilega ekki búa í kofa úti á landi ef ég vil?

Edith Piaf

Hún skipti um karlmenn eins og nærbuxur. Og var stolt af því.

Pabbi hennar kyssti hana tvisvar sinnum, eftir því sem hún mundi sjálf. Fyrst þegar hún var níu ára gömul og fór upp á svið í kvikmyndahúsi til að syngja eins og um hafði verið samið þó hún væri með háan hita og sárlasin. Þá var hún í sínu sjö ára langa ferðalagi sem götulistamaður með pabba sínum.
Næst kyssti hann hana eftir að hún hafði átt litlu stúlkuna sína, Marcelle. Marcelle dó úr heilahimnubólgi tveggja ára gömul og Edith lagðist undir mann á hótelherbergi til að eiga fyrir kistu. Eina skiptið sem hún seldi sig.

Nóg um hana í bili.

Þegar ég bað ykkur um að hugsa til Arafat í morgun, vissi ég ekki að hann væri dáinn. Skrýtið. Það voru þrír rabbínar meðal þeirra sem vöktu yfir honum síðustu dagana. Þrír rabbínar sem eru algerlega á móti Ísraelsríki og sýndu samhug með Palestínu á þennan hátt. Það er fullt fullt af gyðingum sem eru á móti Ísrael. Fullt. Gleymum því aldrei.

Lifið í friði.

Lína Langsokkur

Ég hlusta á Línu Langsokk syngja um apann sinn og hvað það er gaman að vera til um það bil 400 sinnum á dag. Viðurkenni að þetta er skárra en ef hún væri farin að hlusta á Nælon eða Kryddpíurnar, en gvvvuð hvað maður verður allt í einu þreyttur þegar lagið byrjar í tuttugasta og tólfta sinn.

Sendi bréf til Æslander í þjónustudeild og þakkaði fluffunum og sagði að þær væru rósir í hnappagat flugfélagsins. Fékk þakkarsvar til baka sem kemur frá deild sem heitir "complaints". Ef ég skil rétt, þýðir það kvartanir. Ætli þeir fái of fá hrós til að vera með "compliment department"? Hm...

Annars er það helst í fréttum að skyndilega er Blogger.com kominn á frönsku. Nú fæ ég "créer" í staðinn fyrir "create" o.s.frv. Maður stöðvar ekki framfarirnar.

Hugsum öll fallega til Yasser Arafats og fégráðugu konunnar hans og örvæntingarfullu þjóðarinnar hans.

LIFUM Í FRIÐI!

9.11.04

yfirgengilega pirrandi

AAARRRGGGGHHH! (næ ég Gretti ekki vel?)
Ég þoli ekki bloggara sem eru ekki með haloscan kommentaskjóður. Ég er hundrað sinnum búin að segja Emblu að ég get ekki skilið eftir komment hjá henni og nú var pönkamman svala með stórgóðan pistil og Embla með stórgott svar og mitt svar við því verður bara að birtast hér: Jú, tvennt er verra: 1. Blá og marin kona með sílíkon brjóst í g-streng og pinnahælum. 2. DAUÐ kona með sílíkon brjóst í g-streng og pinnahælum.

Og uppglenningurinn mætti líka fá sér haloscan, n'est-ce pas? Bara fara inn á haloscan.com og láta leiða sig í gegnum þetta alveg eins og þegar maður opnar bloggsíðuna sína.

Ég er andvaka og klukkan er þrjúfimmtán og Kári hefur vaknað klukkan fimmþrjátíu undanfarið og reikniði nú. Reyndar fer nú pabbinn yfirleitt fram með hann, en maður vaknar samt, mamman alltaf með andvara á sér og það allt...

Annars var ég ekki búin að vorkenna mér opinberlega eftir að hafa skroppið í forgarð vítis á föstudaginn. Fór í flugvél ein með börnin tvö með gubbupest í fullum gangi og drengurinn líka gubbandi. Hann gubbaði beint á mig tvisvar, ég fyllti nokkra svona pappírspoka sem hafa alltaf fengið mig til að glotta hingað til. Lofa því að glotta aldrei aftur og ætla SKO að senda hrósbréf til starfsmannastjóra Æslander, flugfreyjurnar voru yndislegar og gerðu allt sem þær gátu til að auðvelda mér ferðina. Þar sem vélin var full og margir í voða góðum gír að fá sér meira og meira að drekka, þurftu þær að vera þolinmóðar bargellur og brosa blítt að ódauðlega brandaranum: "má ég kannski borga með jólakorti?" á milli þess sem þær hjúkruðu dauðveikri og líklega smitandi móðurinni með kjökrandi börnin og tóku þunga vel fyllta bréfpokana í burtu án nokkurra svipbrigða. Niðurlæging mín var mikil, mig langaði voðalega að geta horfið ofan í holu þar sem enginn gæti séð mig.

En þetta er búið, kláraðist m.a.s. í tíma fyrir gott útstáelsi með tilheyrandi drykkju á laugardagskvöldinu. Maður er svo harður og vanur, bæði í uppköstum og drykkju að smá harðsperrur í maganum gátu ekki stöðvað mig frá því að hitta fólk sem átti leið um bæinn bara þessa helgi.

Yndislegt að vera kominn aftur til Parísar. Langt frá Bush og Davíð og Birni og Þórólfi. Mér finnst að Ingibjörg Sólrún eigi ekki að taka við borgarstjóranum aftur, mér finnst hún eigi að flytja til Parísar. Og þið hin líka. Komiði!
Ekki hægt að vera þarna á Íslandi króknandi úr kulda, drukknandi í olíupolli með kjúklingaskítseyði í hermannahetjuleik á forsíðum allra blaðanna eins og þau væru öll orðin DV (blöðin sko). Komiði hingað!
Og ef þið eruð í vafa, lesið þá Uppglenninginn, hér er hægt að skoða löggur og barnunga hermenn og sjá umferðarslys og gaman gaman!!!

Farin inn í rúm að lesa Edith Piaf ævisöguna sem ég reyndi að sofna yfir áðan en tókst ekki. Horfði á þrjá þætti úr þriðju seríu af 24, kannski það skýri spennuna í mér. Djís, það sem hann lendir ekki í hann Bauer ma'r.

Lifið í friði.

2.11.04

námskeið í bloggun

Nú er ég með kennara við hlið mér (lille bror) sem er að uppfræða mig um undarlegan ritvöll netheimsins ógurlega. Og ég er búin að gera lista með tenglum yfir í aðra góða bloggara og annað skemmtilegt efni á netinu eins og t.d. Baggalútur sem mér finnst hreint aldeilis skemmtilegt og fræðandi. Næst förum við í það hvernig ég set inn myndir.

spennandi

Hádegisfréttir í dag voru svo spennandi að maturinn meltist heldur illa og ég er komin með brjóstsviða.
Gos í Grímsvötnum, fundur borgarráðsfulltrúa og borgarstjóra kl. 13, fer'ann eða verður'ann?, forsetakosningarnar okkar allra (kosningavöku sjónvarpað á stöð2 í alla nótt!!!) og líklega náði okkar ofvirki lögregluher einu grammi af hassi eða amfetamíni einhvers staðar í einhverju krummaskuðinu í nótt, ég held a.m.k. að sú hafi verið raunin á hverri nóttu síðan ég kom heim. Það gerir næstum 30 grömm, ekki gleyma því að margt smátt gerir eitt stórt.
Annars bið ég dygga lesendur mína forláts á þögn minni undanfarið. Hef oft verið að blogga í huganum, en ekki hefur enn verið fundin upp vélin sem mun koma hugsunum okkar milliliðalaust inn á netið. Ekki heldur vélin sem kemur draumum okkar beint á harða diskinn. Hlakka til þegar það verður.
Hef ekkert að segja því allt sem mig langar að gera er að kvarta, en nenni því samt ekki. Fór að djamma um helgina og "slysaðist" til að fá mér sterkan drykk á bar nokkrum hér í bæ. Eftir það varð allt frekar skýjað, svona svipað og hlíðar Esjunnar minnar í dag. Hitti næstum engan og týndi smátt og smátt öllum sem ég var með og kom mér sem betur fer heim temmilega snemma.
Vitiði hvað? Ég hef aldrei gengið upp Esjuna. Aðeins upp í hlíðar hennar hinum megin frá, frá Meðalfellsvatni, en aldrei komist upp á toppinn og aldrei gengið upp Reykjavíkurmegin. Hvílík endemisvitleysa! Hef heldur aldrei komið til Vestmannaeyja. Og svona mætti kannski lengi telja. Sé mest eftir því að hafa ekki skotist í heimsókn til Lóu og Sigga eins og planið var, og þá væri ég kannski gosteppt þar núna! Það hefði verið kúl.
Jæja, ég ætla að hætta núna, enda hvorki haus né sporður á þessu bulli.
Lifið í friði.