hylki
Las fínan pistil hjá Pullu, sem ég bætti í tenglasafnið rétt í þessu. Hún talar um ríka fólkið aleitt í hylkjunum sínum. Það leiddi huga minn að frétt á mbl.is um daginn um að Seðlabankinn segir að eftir nokkur ár muni fólk eiga minna en ekkert í íbúðum sínum út af nýju lánakerfi. Þetta þótti mér afar ógnvænleg frétt. Ég skil ekki hvernig fólk getur leyft sér og getur langað til að lifa svona um efni fram eins og það gerir. Ég skil ekki íbúðaverð á Íslandi. Ég skil ekki hvers vegna fólk hættir ekki bara að kaupa og hvers vegna er verið að byggja svona mikið. [Sagan hans Arnaldar Indriðasonar sem ég las um daginn og get ekki munað hvað heitir, bíðiði, hvað heitir hún aftur... já, Dauðarósir er með bráðskemmtilega kenningu sem passar vel inn í minn samsæraheim, um það hvers vegna allir búa í Reykjavík í dag. Áreiðalega ekki alveg út í loftið þessi kenning sem ég ætla ekki að tíunda hér, mæli heldur með lestri bókarinnar.] Ég skil ekki hvers vegna fólk tekur lán fyrir jeppum sem eru dýrir í rekstri og erfitt að keyra og leggja. Skil ekki hvers vegna fólk er ekki í rónni nema eiga besta sófasettið, flottustu græjurnar og stærsta sjónvarpið.Jú, líklega er þetta bara vegna þess að við erum fórnarlömb eilífs áreitis auglýsinga og kvikmynda frá Hollívúdd. Óþolandi hvernig við erum sífellt með auglýsingar fyrir augum og í eyrum. Hvar sem er og hvenær sem er. Erfitt að loka sig frá þeim, án þess að loka sig frá öllum umheiminum líka.
Óþolandi að vita til þess að við erum eins og rottur í búri á rannsóknarstofu fyrir þessum mönnum sem búa til auglýsingar og finna sífellt nýjan og nýjan vettvang, nýtt og nýtt pláss til að troða auglýsingum í. Nýjasta á Íslandi er þessi litli sakleysislegi og litskrúðugi límmiði á Mogganum. Var nóg til þess að mig langaði til að setja Moggann sömu leið og aðra auglýsingapésa: beint í endurvinnslupokann. Heyrði í einhverju ómenni sem fann þetta upp vera með fagurgala um það hvað hann væri spenntur yfir þessu í einhverjum útvarpsþætti. Óþolandi. Skjótum þetta lið sem getur ekki látið eðlilegt fólk í friði og vill gera okkur öll að þrælum bankanna. Sem við erum langflest orðin. Þrælar sem þykjumst eiga þak yfir höfuðið og flotta bíla að keyra í, meðan raunverulegir eigendur eru bankarnir og eigendur bankanna. Við lítilmagnarnir erum bara maurar. Ömurlegur helvítis fokking kapítalistaheimur.
Ég er í góðu skapi í dag. MMmmm vona að það sjáist vel. Hér þyrfti að koma broskarl, en eins og dyggir áhangendur vita, er ég algerlega á móti broskörlum. Brosi út að eyrum hérna við tölvuna mína.
Hló mig máttlausa að orðum Dobbeljú forseta okkar allra, við fráfall Arafats sem ég las í laugardagsmogganum sem barst mér í morgun. Hann er milljón þessi maður. Milljón.
Varðandi bókaflóðið, er ég með eina tillögu til Lesbókar: Hvernig væri að skrifa heldur greinar og taka viðtöl út af bókunum frá í fyrra, sem maður gæti verið búinn að lesa? Ég forðast í lengstu lög að lesa um bækur og bíómyndir sem ég á eftir að sjá, það gefur manni yfirleitt gersamlega rangar forsendur til að nálgast verkin. Maður nennir auðvitað ekki að geyma Lesbækurnar og les því aldrei þessi gáfulegu viðtöl við höfundana.
Maður er reyndar ekki heldur búinn að lesa neitt rosalega mikið frá í fyrra. Kannski er engin glansandi góð lausn á þessu. Mér finnst reyndar mjög gaman að lesa fyrirsagnirnar og síðustu setningarnar í gagnrýninni. Og enn meira gaman að skoða myndir af höfundunum. Myndin af Sindra Frey er t.d. alveg stórfín þó ég sé hrifnust af litlu kápumyndunum í passamyndastíl. Þar sem ekki er verið að rembast við neina listrænu, bara hrein portrett og oft alveg stórkostlega vel heppnuð.
Rosalega er nú samt margt óspennandi í þessu flóði. Ha? Maður er nú bara stundum í áfalli og þyrfti að fá hjálp, svo undarlega hljómar sumt sem verið er að gefa út. Dæmi: Konur sem hugsa of mikið. Segi ekki orð um þetta rit meir, gæti komið út sem verðugt dæmi fyrir bókina.
Lifið í friði.
<< Home