17.11.04

er vafi?

Er einhver í vafa um að ástandið sé hræðilegt í Írak og að heimurinn sé engu betri eftir fall Saddam Hussein eins og Chirac bendir á?
Er það ekki nokkuð ljóst að börnin mín eiga eftir að skella sér á nýjustu "Íraksmyndina", alveg eins og ég skellti mér svo oft á Víet Nam stríðsmyndir í bíó á unglingsárunum?
Myndirnar munu sýna tryllta hermenn, tryllta vegna þess að það er ekkert annað hægt en að verða trylltur í svona aðstæðum, ráðast á tryllta "villimenn" (nú verður "hrísgrjónaætum" skipt út fyrir "sandnegra"). Það verður barið, drepið og nauðgað. Sáttmálar brotnir, en auðvitað ameríski fáninn dreginn að húni í lokin og allir fyllast þjóðernisstolti þó að blóðbragðið í munninum skyggi örlítið á. Það er ekki hægt að búa til eggjaköku án þess að brjóta egg.
Hlakkið þið til?
Eru Íslendingar almennt stoltir af því að skrifa undir þetta blóðbað? Var ekki betra að vera hlutlausa ríkið, herlausir friðarsinnar sem létu aðra í friði og voru því líka látin í friði?
Gera Íslendingar sér almennt grein fyrir því hversu auðvelt og þægilegt skotmark þeir eru? Og jafnvel spennandi, því það er ljótt að ráðast á minni máttar og myndi því vekja áhuga í heimsfréttunum, alveg eins og það að ráðast á barnaskóla vekur áhuga og óhug. Hryðjuverk miða að því. Hryðjuverk eru framin til að vekja óhug af fólki sem lifir í óhugnaði sjálft og sér enga leið út úr því. Lifir í óhugnaði sem okkur feitu og freku vestrænu dekurrófum er alveg sama um og gerum ekkert til þess að stöðva. Við Íslendingar gerum ekkert til þess að stöðva óhugnaðinn, heldur erum við einmitt SKRIFUÐ FYRIR ÞESSUM ÓDÆÐUM. Sama hversu GÓÐHJÖRTUÐ við erum. Við höfum SAMÚÐINA, ójá, en við bara GETUM HVORTEÐER EKKI GERT NEITT. Sjónvarpið, auglýsingar og markaðsómenni, pólitíkusar, allir hjálpast að við að halda okkur áfram í þessum dvala uppfull af ranghugmyndum um að við ráðum ekki neinu í þessum heimi. Vera kannski pínulítið þunglynd af samviskubiti stundum, en yppa samt alltaf bara öxlum og andvarpa: "ég myndi gera eitthvað ef ég bara gæti". Klisjur eins og að hægri og vinstri sé sama húmbúkkið og því ónauðsynlegt að kjósa, að stríð sé manninum eðlilegt og náttúrulegt og nauðsynlegt eru stórhættulegar og deyfa okkur niður. Hættum að trúa þessum lygum.
Gerið þið ykkur grein fyrir því að Clinton var það sem næst kom því að hafa kvenforseta í Hvíta Húsinu? Hann átti sterka konu með bein í nefinu sem sagði honum oft til. Þetta gátu herforingjar og peningavaldið ekki þolað, það hefði virkilega staðið þeim fyrir þrifum að hafa mann með konu eins og Clinton í embættinu þegar tækifærið með Írak gafst. Því réðust þeir að honum og hröktu hann úr embætti. Það var engin tilviljun að Monica var vopnið. Það vopn beindist nefninlega líka gegn Hilary. Og Kerry á líka sterka konu og því var ljóst að hann næði ekki kjöri. Karlaveldið í Bandaríkjunum mun ekki gefast upp svo auðveldlega. Fyrr munu þeir kjósa svartan mann en konu í forsetastól. Því get ég lofað ykkur.
Það er ekki að ástæðulausu sem herir eru myndaðir af körlum. Konur hugsa nefninlega of mikið. Þær eiga mjög erfitt með að hlýða beinum skipunum umyrðalaust. Ómögulegir hermenn.
Það þarf fleiri konur í ábyrgðastöður í heiminum. Og færri hermenn.
Ég rausaði í gær en var samt í góðu skapi. Í dag er ég reið.

Lifið í friði.