að vera eða ekki að vera með gloss
Ég er kona. Ég er mjög ánægð með það, og er femínisti. Sem þýðir það sama og að vera jafnréttissinni. Ég hata ekki karlmenn, ég vil ekki láta breyta tungumálinu (sjá grein í Lesbók fyrir viku), ég vil alls alls ekki útrýma körlum af jörðinni. Þeir eru til margra hluta nýtilegir.Hins vegar er ég svolítið með þessari "jákvæðu mismunun" til að leiðrétta verulega skertan hlut kvenna í hærri stigum þjóðfélagsins. Það stríðir að vísu dálítið gegn réttlætisvitund minni, en það VERÐUR að fá fleiri konur í stjórnarstöður og líklega er eina leiðin til þess að ná upp eðlilegu jafnvægi, að mismuna þeim núna í smá tíma.
Ég held að það að vera kona, alveg eins og það að vera karl, hljóti að vera náttúrulegt. Þess vegna skil ég ekki allar þessar greinar, öll þessi tímarit, allar þessar bækur, sem fjalla um það hvernig maður á að vera kona. Ég skil það alls ekki. Ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á þessum blöðum, þó ég gluggi stundum í þau af forvitni eða til að drepa tímann á biðstofum. Eiginlega finnst mér öll þessi glanstímarit sem fjalla um tísku og trend alveg gersamlega fyrir neðan mína virðingu. Ég þoli mjög illa að láta segja mér hvernig ég á að mála mig og klæða mig.
T.d. fer eitt alveg hrikalega í taugarnar á mér akkúrat núna. Gloss. Hvar ætlar þessi eigtís drullutíska að enda? Gloss! Ljótt. Á mér a.m.k. Og svo vefst það ægilega fyrir mér að um daginn sá ég brot af morgunþættinum á Stöð 2 og þar var sagt að allar konur yrðu núna að eiga einn fagurrauðan varalit í snyrtibuddunni. Nú? Ég er að sjá upp um alla veggi og í öllum búðum og blöðum að það eina sem blífur núna er gloss. Má maður þá eiga varalit? Þennan hárauða? Bara hann? Verð ég að henda þessum appelsínurústrauða sem ég fann eftir áratuga leit núna í sumar eða vor?
Í fyrsta sinn síðan ég fór að nota varaliti spari, get ég sett einn lit á varirnar. Þarf ekki lengur að blanda tvo til þrjá. Og þá kemur tískulöggan og segir mér að nú sé það gloss. Ég setti á mig gloss um daginn, fékk hjá vinkonu minni þar sem við vorum úti á lífinu og ég auðvitað hafði gleymt varalitnum heima og maður bara verður að bæta á áður en maður fær sér nýjan kampavínskokkteil. Mér fannst ég hrikalega hallærisleg með gloss. Passar mér álíka vel og að ég setti gerfiaugnahár og skærbleikan kinnalit í línu niður kinnbeinin. Líður eins og Pamelu Anderson og það finnst mér ekki gott.
Ef ég yrði svona meikdollutýpa, færi ég alveg yfir í Ninu Hagen. Sá hana í sjónvarpinu í gær í þessum frábæra þætti um þýska popptónlist fyrir og eftir múrinn. Hún er svo flott! Ég meina það, ég væri til í að breytast í meikdollu, ef ég gæti verið fullkomlega örugg um að ég yrði jafn flott og hún.
En þangað til ætla ég að halda mig við matta fína varalitinn minn. Sem á eftir að endast í 6-7 ár, jafnvel lengur, miðað við endingartíma annarra varalita minna.
Ég er kona. Ég er ánægð með að vera kona. En djöfull eruð þið nú samt heppnir með sumt þarna tippalingarnir ykkar! Og ekki bara þetta mánaðarlega!
Lifið í friði.
<< Home