23.11.04

non je ne regrette rien

Allir þekkja Edith Piaf. Það hélt ég a.m.k. þar til að systir mín fræddi mig á því að stjúpdóttir hennar, 19 ára bráðvelgefin stúlka sem er að læra frönsku, kom af fjöllum og vissi ekkert um þessa konu eða hvað hún hefði gert. [Sem minnir mig á frásögn vinar af því að hann var að vinna með Stefáni Hilmarszzs (set þetta svona þar sem ég man ekki alveg hvernig hann vill hafa þetta) og um leið var hann að vinna með menntskælingum og fór að segja þeim frá undirbúningnum að Sól og Mána. Þá kom í ljós að mennskælingarnir vissu ekki hver Stebbi er! Maður fær nýja hrukku undir augun þegar maður kemst að svonalöguðu.] En stjúpdóttirin er í MR og þegar ég var í MR fengum við að hlusta á Edith Piaf í frönskutímum. Hvert er þessi heimur eiginlega að fara?
Eitt af frægustu lögum Edith Piaf er lagið um að hún sjái ekki eftir neinu. Hún sé búin að sópa öllu leiðinlegu í burtu og byrji ávallt á núlli á ný.
Edith Piaf átti mömmu sem vildi ekki eiga hana og skipti sér lítið sem ekkert af henni þangað til að hún fór að betla af henni peninga þegar Piaf var orðin heimsfræg. Edith Piaf gaf mömmu sinni peninga, en gat ekki gefið henni neitt annað, og sagði yfirleitt að hún ætti ekki mömmu. Hún lét flytja lík föður síns og dóttur sinnar í Père Lachaise þar sem hún ætlaði sjálf að hvílast. En hún lét ekki flytja mömmu sína þangað, þannig að hún hvílir í opinbera kirkjugarðinum í Thiers, í 43. reit, 10. línu, 1. gröf.
Samkvæmt Danièle Bonel, sem sá lengi um Piaf og skrifaði bókina um hana sem ég var að lesa, þjáðist Piaf að öllum líkindum alla sína ævi fyrir þetta. Hún hefur t.d. það fyrir sér, að Edith Piaf bað Danièle einu sinni um að lesa fyrir sig bréfin sem hún (Danièle) hafði fengið frá móður sinni í gegnum tíðina. Svo andvarpaði Piaf og sagðist sjálf ekki eiga móður. Auðvitað sá Edith Piaf eftir því að hafa verið svona óheppin með mömmu.
Um daginn fór spurningalisti um bloggsíður ýmsar. Svona dæmigerður naflaskoðunarlisti sem mér fannst mjög skemmtilegt að lesa hjá öðrum, þó ég nennti samt aldrei að svara honum sjálf. Þar var ein spurningin um það hverju fólk sæi eftir. Það brást ekki að fólkið sem ég las, svaraði ENGU. Ég er kannski einum of einföld, en ég bara trúi þessu ekki. Ég trúi því ekki að fólk sjái ekki eftir neinu.
Ég er ekki týpan sem liggur og veltir sér upp úr fortíðinni. Ég er ekki mikil sjálfsvorkunnartýpa, held ég. Kannski dramadrottning stundum, en ég er ekki haldin fortíðarþrá og er ekki að plaga mig á röngum ákvarðanatökum eða rangri hegðun í gegnum tíðina. Það þýðir samt ekki að ég sjái ekki eftir neinu.
Hlutir sem ég sé eftir:
Þegar ég kallaði feitu stúlkuna feitu stúlkuna í barnaafmælinu sem ég þekkti engan í. Hitti svo stúlkuna í boði mörgum mörgum árum seinna og sá það á henni að hún mundi eftir mér. Þá hafði ég tækifæri til að biðjast afsökunar á því að hafa sært hana svona, en gerði það ekki. Tvöföld eftirsjá.
Að hafa hætt að læra á píanó. Pabbi sagði mér að ég myndi sjá eftir því, en ég hlustaði ekki á hann.
Að hafa hangið lengi í mislukkuðum samböndum við einhverja töffara sem ég hafði ekkert með að gera. En ég lærði svo sem ýmislegt og bý að þessari reynslu. Naga mig SAMT stundum í handarbökin yfir öllum tímanum sem fór í þá vitleysu.
Þetta eru þrjú dæmi og ég gæti líklega haldið lengi áfram. Ég hugsa ekki daglega um neitt þeirra og var smá stund að muna þau meðan ég var að skrifa.
Ég held að eitt af nútímavandamálunum sé ekki að fólk er að velta sér upp úr liðnum atburðum, heldur einmitt að fólk gleymir að byggja á fortíðinni og mistökunum. Það á ekki að sópa þeim undir teppi, það á að muna þau og læra af þeim.
Fólk er alltaf að keppast við að horfa inn í framtíðina: Hvernig sérðu þig eftir tíu ár? Um leið erum við með nagandi efasemdir um að þessi blessaða pláneta sem við keppumst við að misþyrma, verði enn til eftir tíu ár. Þetta er fullkomin leið til að láta sér líða illa.
Það er best að leyfa sér að vera til úr léttþeyttri blöndu af núinu og fortíðinni, held ég. Stúdera sögu þjóðanna, sögu heimsins, sögu trúarbragða og konunga, sögu Afríku og Asíu og um leið íhuga reglulega sína eigin sögu og muna allan tímann eftir að njóta líðandi stundar eins og mögulegt er.
Kannski er þetta bölvuð vitleysa í mér, en ég er mikið búin að vera að pæla í þessu undanfarið og ég endurtek að alveg eins og ekki er til fordómalaust fólk, GETUR EKKI verið til fólk sem sér ekki eftir neinu.
Lifið í friði.