20.11.04

til hvers er blogg?

Ég er ekkert alveg viss um að ég ætli að halda áfram að blogga. Mér finnst í rauninni engin ástæða til að láta í mér hvína á þessum vettvangi þegar ég fæ engin viðbrögð nema þegar ég tek einhver lummó persónuleikapróf eða tala um gloss.
Þegar ég tala um hluti sem skipta mig máli, virðist það ekki vera svaravert.
Ég var rétt í þessu að skoða slóðina http://fallujapictures.blogspot.com/ og ég vil bara vara ykkur við því að þarna er engum hlíft. Ef þið hafið ekki áhuga á því að gera ykkur fyllilega grein fyrir því sem er að gerast í Írak, skulið þið sleppa því að líta á þessa síðu.
Ef þið hafið áhuga á því að láta íslensk yfirvöld vita hvernig ykkur líður, er Gvendarbrunnur/ með lausnina á því.
Mér líður hörmulega núna. Friður er hlutur sem við öll, við öll sem búum þessa jörð, ættum að hafa tækifæri til að lifa við. Íslendingar skrifa undir ódæðisverkin í Írak. Íslendingar eru að verða meiri rasistar með tímanum skv. grein í Morgunblaðinu frá síðustu helgi. Íslendingar eru friðsamt og hjartahlýtt fólk, en við látum allt of mikið yfir okkur ganga, látum allt of mikið mata okkur á því hvað við eigum að hugsa. Ég er sannfærð um að hvert íslenskt hjarta tæki að sér flóttamann ef hann berði að dyrum. Ég er sannfærð um að við viljum hleypa fólki sem getur ekki lifað í sínu landi, inn í okkar ríka og góða land. Ég er sannfærð um að fólk er ekki fífl, fólk er gott, en fíflin sem heilaþvo okkur daglega, eru of sterk í augnablikinu. Ég er sannfærð um að það muni breytast innan skamms.
Ég er sannfærð um að við getum, með hugarfari og hjartakærleik, komið á friði í heiminum.
Lifið í friði.