11.11.04

Edith Piaf

Hún skipti um karlmenn eins og nærbuxur. Og var stolt af því.

Pabbi hennar kyssti hana tvisvar sinnum, eftir því sem hún mundi sjálf. Fyrst þegar hún var níu ára gömul og fór upp á svið í kvikmyndahúsi til að syngja eins og um hafði verið samið þó hún væri með háan hita og sárlasin. Þá var hún í sínu sjö ára langa ferðalagi sem götulistamaður með pabba sínum.
Næst kyssti hann hana eftir að hún hafði átt litlu stúlkuna sína, Marcelle. Marcelle dó úr heilahimnubólgi tveggja ára gömul og Edith lagðist undir mann á hótelherbergi til að eiga fyrir kistu. Eina skiptið sem hún seldi sig.

Nóg um hana í bili.

Þegar ég bað ykkur um að hugsa til Arafat í morgun, vissi ég ekki að hann væri dáinn. Skrýtið. Það voru þrír rabbínar meðal þeirra sem vöktu yfir honum síðustu dagana. Þrír rabbínar sem eru algerlega á móti Ísraelsríki og sýndu samhug með Palestínu á þennan hátt. Það er fullt fullt af gyðingum sem eru á móti Ísrael. Fullt. Gleymum því aldrei.

Lifið í friði.