spennandi
Hádegisfréttir í dag voru svo spennandi að maturinn meltist heldur illa og ég er komin með brjóstsviða.Gos í Grímsvötnum, fundur borgarráðsfulltrúa og borgarstjóra kl. 13, fer'ann eða verður'ann?, forsetakosningarnar okkar allra (kosningavöku sjónvarpað á stöð2 í alla nótt!!!) og líklega náði okkar ofvirki lögregluher einu grammi af hassi eða amfetamíni einhvers staðar í einhverju krummaskuðinu í nótt, ég held a.m.k. að sú hafi verið raunin á hverri nóttu síðan ég kom heim. Það gerir næstum 30 grömm, ekki gleyma því að margt smátt gerir eitt stórt.
Annars bið ég dygga lesendur mína forláts á þögn minni undanfarið. Hef oft verið að blogga í huganum, en ekki hefur enn verið fundin upp vélin sem mun koma hugsunum okkar milliliðalaust inn á netið. Ekki heldur vélin sem kemur draumum okkar beint á harða diskinn. Hlakka til þegar það verður.
Hef ekkert að segja því allt sem mig langar að gera er að kvarta, en nenni því samt ekki. Fór að djamma um helgina og "slysaðist" til að fá mér sterkan drykk á bar nokkrum hér í bæ. Eftir það varð allt frekar skýjað, svona svipað og hlíðar Esjunnar minnar í dag. Hitti næstum engan og týndi smátt og smátt öllum sem ég var með og kom mér sem betur fer heim temmilega snemma.
Vitiði hvað? Ég hef aldrei gengið upp Esjuna. Aðeins upp í hlíðar hennar hinum megin frá, frá Meðalfellsvatni, en aldrei komist upp á toppinn og aldrei gengið upp Reykjavíkurmegin. Hvílík endemisvitleysa! Hef heldur aldrei komið til Vestmannaeyja. Og svona mætti kannski lengi telja. Sé mest eftir því að hafa ekki skotist í heimsókn til Lóu og Sigga eins og planið var, og þá væri ég kannski gosteppt þar núna! Það hefði verið kúl.
Jæja, ég ætla að hætta núna, enda hvorki haus né sporður á þessu bulli.
Lifið í friði.
<< Home