27.11.04

vandlæting

Hafið þið tekið eftir því að fólk er almennt mjög snöggt að "taka mann út", að ákveða hvernig týpa maður er, og setja mann í einhvern flokk sem er unnin eftir einhverju kerfi sem við búum okkur til?
Allt í kringum okkur hefur áhrif á þetta kerfi og þessa flokka. Glanstímarit sem ég hef löngum skammast yfir, sjónvarpið sem ég hef löngum skammast yfir og gamlir fordómar og kreddur eru líklega sterkustu grunnarnir í þessu flokkakerfi okkar. Við berjumst svo misharkalega við að leyfa hjartanu, innsæinu og almennri þolinmæði að koma við sögu og bremsa flokkunina dálítið af. Þannig gefum við fólki yfirleitt tækifæri til að leyfa okkur að kynnast því nánar og sjá að það er ekki eins einfalt og útlit var fyrir í upphafi kynna.
Þegar ég var á Íslandi í síðasta mánuði, varð ég mikið vör við þetta í sambandi við málakunnáttu dóttur minnar. Hún er tveggja og hálfs árs og talar heilmikið. Ég tala við hana á íslensku, en hún svarar manni alltaf á frönsku. Fólk sem var að hitta okkur var undantekningarlaust með sömu viðbrögðin. Einhver ákveðin tóntegund sem þýddi "ég er nú dálítið hneyksluð en samt afskaplega skilningsrík manneskja og vorkenni þér dálítið að vera svona vitlaus" og setningin var sögð frekar hægt um leið og hallað var undir flatt: Já, talarðu ekki við hana á íslensku? Þegar ég reyndi af veikum mætti að verja mig og halda því fram að hún skildi íslenskuna, trúði fólk mér tæplega.
Eftir þrjár vikur á skerinu breytti dóttir mín allt í einu um taktík og fór að tala íslenskuna eins og ekkert væri. Eftir það var lífið auðveldara fyrir okkur og sérlega þótti fólki það framúrskarandi gott að hún var með ótrúlega flottan orðaforða. Síðan talar hún áfram íslenskuna við mig, og svissar yfir í frönskuna með pabba sínum eins og ekkert sé, og er m.a.s. búin að þýða orðið "petite culotte" sem "litlar buxur" og vill frekar nota það en íslenska orðið nærbuxur sem henni finnst ekki gáfulegt orð. [Hún var sko bara að byrja að nota nærbuxur í síðustu viku, er að hætta með bleiju.]
Það er í raun alveg undarlegt að fólk skyldi ekki bara spyrja mann eðlilega með sinni eðlilegu tóntegund hvort hún væri líka að læra íslensku. Bara ákveða strax að ég væri nú frekar svona glötuð að ætla ekki að gefa henni þessa fínu gjöf sem aukatungumál er. Auðvitað gefum við íslenskir foreldrar í útlöndum flest börnum okkar þessa gjöf. Fyrir fimmtán árum eða svo var það ekki eins algengt, því þá gerði fólk sér kannski ekki eins góða grein fyrir hvað það er mikill styrkur í tvítyngi. Það var líka kannski meira um að fólk sleit alveg tengslin við Ísland.
Ég reyni yfirleitt að gefa fólki færi á að kynna mig fyrir sér og kynnast því áður en ég hugsa "hippi", "uppi", "proffi", "róni" eða eitthvað viðlíka. Auðvitað er einhvert fyrsta álit á manneskjunni, en ég vara mig yfirleitt á því.
Einnig reyni ég að muna að ef fólk hegðar sér illa, er leiðinlegt og frekt, er það oftast vegna þess að því líður illa. Reyni að ímynda mér að vonda kerlingin sem hrinti mér í strætó var kannski að koma úr kistulagningu mannsins síns eða eitthvað álíka óhuggulegt, og þá er auðveldara að fyrirgefa slæma hegðun.
Ég reyni að segja fólki ekki of mikið hvað það á að gera og hvernig það á að haga sér. Auðvitað hugsar maður sitt, en ég reyni samt að leyfa fólki að vera eins og það er, og muna að kannski er það jafnhissa á mér og minni hegðun.
Er ekki einmitt málið að maður veit alltaf best hvernig hinir eiga að haga sér og minnst hvernig maður á að hafa stjórn á eigin lífi?

Lifið í friði.