31.3.05

tryllt

Það er svo tryllt að gera hjá mér einmitt þessa dagana að bak og axlir eru orðin eins og steinar. Þarf að komast til osteópatans míns ekki seinna en strax. Verst að minnst er launað af þessu.
Ég tók að mér að mála íbúðina sem bróðir mannsins míns var að kaupa. Hann sagði að það þyrfti bara að mála og hugsaði ekki út í að á veggjunum væru fjögur lög af veggfóðri og að veggirnir undir eru hráir og ómúraðir. Sums staðar sér í trégrind hússins, sums staðar í múrsteina með bilum á milli. Ég þarf að fara í iðnskólann og taka múrarann áður en ég lýk þessu! Er búin að skrapa og skrapa og mínar fínu hendur eru hrjúfar og þreyttar. Þess á milli verð ég þriggja barna móðir næstu daga þar sem fjölskylda barnapíu vinkonu minnar lenti í bílslysi og liggur öll í kóma svo barnapían er farin um óákveðinn tíma til Kamerún (já, það er samhengi í þessu en ég nenni ekki að útskýra það, annað hvort dugar þetta eða þið getið bara hætt að lesa og farið á aðra síðu, ha, reynið að finna einhverja virka bloggara þessa dagana eftir að Einar gaf því dauðadóm), svo það verður engin hvíld dagana sem ég fer ekki að taka veggfóður.
Það er með ólíkindum þetta veggfóðuræði sem Frakkarnir eru núna fyrst að losa sig undan. Veggfóður er líklega ógeðfelldasta fyrirbæri sem fundið hefur verið upp í húsaskreytingum. Jú, sum veggfóður geta verið skemmtileg og falleg og auðvitað er gott að fela hrákasmíði húsanna bak við plastið en... Svo er Veggfóður líka léleg bíómynd.
Það er og ótrúlegt hvernig fólk skilar af sér íbúðum hérna. Eldhúsið var svo skítugt að þegar ég reif fyrrverandi hvíta með rauðum rúðustrikum og fjólubleikum vínberjaklösum í rúðum á víð og dreif af veggnum var ég næstum því búin að kasta upp, fitulagið var mun þykkara en veggfóðrið sjálft og ég ætla ekki að reyna að lýsa innstungunum á bak við eða vinnuljósinu á veggnum. Mér varð svo um þegar ég tók í það að ég öskraði upp yfir mig. Lucien hélt ég hefði séð mús. Ótrúlegast er nú samt að þrátt fyrir skít og drullu er ekki ein einasta padda þarna. Hvaða eitri hafa þau spúað yfir eftir að hafa tæmt?
Ekki halda að ég sé með eitur á heilanum, en ég virka svona í þemum. Þema þessa dagana er eitur. Eitur í poka. Eitur í kassa. Eitur í tösku. Eitur í flösku! Klukk! Náði þér!

Lifið í friði.

29.3.05

vítissódi

Ég man eftir því að vera send niður í Kron með miða frá mömmu þar sem stóð að ég ætti að fá afgreiddan vítissóda. Þá gat maður keypt sígarettur og logið að þær væru fyrir mömmu, en þurfti miða fyrir vítissóda sem var mikið notaður við hreingerningar á pípum og rörum húsa. Þá voru húsmæður meðvitaðar um að í pípum og rörum gætu leynst óhreinindi.
Ég er persónulega algerlega á móti notkun of sterkra hreinsiefna og myndi aldrei láta mig dreyma að hella vítissóda niður í rörin mín. Allt of meðvituð um að allt sem fer niður leiðslurnar mínar þarf að fara eitthvað annað og vil ekki valda of mikilli mengun þar.
En í dag er mér uppálagt að loka vel fyrir öll rör sem leiða út úr íbúðinni. Taka slöngur þvotta- og uppþvottavélar úr rörunum og loka þeim með klútum, fylla alla vaska og bað af vatni og halda lokuðu. Það á að þrífa þessi rör með einhverjum háþrýstibúnaði. Ég er frekar hissa og líka smá pirruð út í þetta. Vil helst fara og skipta mér af því hvað þeir eru að nota. Vil helst vita það. Og láta þá vita að ég er algerlega andsnúin notkun vítissóda eða annarra sterkra efna.
Þeim er líklega slétt sama. Og rörin verða hreinsuð hvað sem mínum grænvitundarkrísum líður.

Lifið í friði.

27.3.05

Sorgum drekkt

Mér hefur alveg þótt það við hæfi að liggja í bók um kirkjugarðinn Père Lachaise á þessari hátíð dauða og upprisu.

Hér á eftir fer þýdd umsögn um veitingahúsið AU RETOUR DU PERE LA CHAISE úr bókinni LE PETIT GUIDE DE CHARONNE frá 1841:

Stórir salir, þægileg þjónusta og góðar veitingar. Nafn staðarins vísar til þess siðar Parísarbúa að slá strax, með hjálp guðaveiga, á sársaukann sem missir náinna veldur. Þannig, eftir að hafa vökvað leiði eiginkonu, vinar eða ættingja með tárum, er hægt að drekkja sorgum sínum glaðlega í glasi af víni. Þó þessi leið til hugfróunar sýni kannski ekki beint þeim látnu þá virðingu sem þeir ættu skilda, er hún í fullkomnu samræmi við léttleika frönsku þjóðarsálarinnar.

Skál!

Lifið í friði.

25.3.05

Ísland í fréttum

Við vorum fyrsta fréttin í hálfátta-morgunfréttunum á Canal Plús. Það fannst mér gaman. Benedikt Höskuldsson flottur svona ljóshærður með Bjarkarhreim. Bobby glæsilegur Fjalla-Eyvindur og mikið er ég sammála honum um að Bush ætti að hanga í hæsta gálga.
Kannski er þetta ekki svo slæmt eftir allt saman.
En hver er skitsi? Bobby eða íslensk stjórnvöld sem styðja Bandaríkin og vilja herinn áfram til að passa okkur eins og bent var á í fréttinni hér, en eru um leið að ögra sömu Bandaríkjunum með þessu framtaki?

Lifið í friði.

24.3.05

heimþrá

Ég man eftir páskum í gamla daga þegar maður var á skíðum upp á hvern einasta dag og kom svo sólbrúnn í skólann eftir fríið að allir héldu að maður hefði verið í útlöndum.
Ég er í einhverju nostalgíukasti hérna. Er alein heima og nýt þagnarinnar svo vel að ég set ekki einu sinni tónlist á fóninn. En ég er með bragð af lambakjöti í munninum og sé páskaegg í hillingum. Langar að hafa mömmu mína og pabba og alla hina líka. Langar ekki til að vera ein hér og alltaf sama baslið, engin hátíðarstemning eða almennt frí eins og heima. Bara þriggja daga helgi framundan. En kallinn minn er að vinna á annan í páskum svo við förum ekki neitt hvort eð er.
Reyndar býður hann mér á tónleika með Higelin á morgun. Hann er franskur brjálæðingur og verður vonandi gaman að sjá hann í eldgömlu leikhúsi í 18. hverfi. Og börnin verða hjá ömmu og afa svo við fáum líka að "sofa út" á laugardag þó við séum víst skikkuð í hádegismat til þeirra. Ekki það að við getum ekki lengur sofið út, maður vaknar upp úr átta hversu seint sem maður fór að sofa. Þetta hlýtur að lagast með aldrinum - á börnunum, er það ekki?

Emilíana er að syngja einhvers staðar hér í París í kvöld, sendiráðið sendi út tilkynningu um það í gær. Hefðu nú mátt hafa meiri fyrirvara.

Ég er með heimþrá.
Stökk húð af grilluðu lambalæri. MMMmmm. Ég finn lyktina í alvöru talað.

Best að koma mér í byggingavöruverslunina til að ná í gólfin í dúkkuhúsið sem ég er að smíða upp úr gamalli kommóðu.

Lifið í friði.

Fréttir, auglýsingar og dagskrá

Fyrirsögnin er tengill á heimasíðuna mína þar sem finnst lýsing á gönguferðum mínum ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum um París.

Ég gekk þvert yfir borgina í gær. Get varla gengið þvert yfir íbúðina mína í dag. Nú verður maður bara að koma sér í gönguform og eina leiðin til þess er að ganga og ganga. Kannski ég syndi líka smá á næstunni.
Veðrið er dásamlegt, kringum tuttugu stig og sól. París er frábær borg á vorin. Og reyndar alla hina mánuðina líka, en samt best á vorin.
Hér er allt orðið grænt nema ávaxtatrén sem eru í fullum blóma.
Fór aftur í kirkjugarðinn, en þetta sinn kom ég ekki við hjá Edith Piaf. Ég gekk fáfarnari stíga og varð fyrir því að verða hálfhrædd. Hafði nefninlega lesið undarlegar lýsingar á fólki sem leitaði krydds í kynlífið í kirkjugarðinum. Skrifað af gægjukarli en næsta óöruggt með uppruna skriftanna. Er að lesa bók um Père Lachaise og einn kafli í bókinni er sem sagt um garðinn og erótík. Höfundur bókarinnar segist hafa gengið fram á mann sem sat og skrifaði í stílabók. Maðurinn hrökk við og hljóp í burtu en týndi glósunum sínum. Þær birtir höfundur bókarinnar. Ég hef hann sjálfan grunaðan og finnst þetta gruggug saga hjá honum. Get því miður ekki birt lýsingarnar hér, þær eru of. En sumir fá víst kikk út úr því að njótast og horfa á líkfylgdir í leiðinni.

Svo fór ég út úr kirkjugarðinum á nýjum stað og kom þá að náttúrugarði sem er með tjörn sem er full af froskum. Froskarnir eru í vorhug með öllu sem því fylgir og ég held ég hafi staðið og starað á froska í daðurleikjum í hálftíma. Eftir það gekk ég upp rue de Bagnolet. Get ekki betur séð en að hárgreiðslustofan sem var innréttuð 1968 og hafði ekki breytt neinu, ekki einu sinni auglýsingaspjöldunum, sé horfin. Hvílík synd. Það er ekki bara Reykjavík sem glutrar niður fínum upprunastöðum.
Hins vegar fann ég búð sem heitir The Art Store. Þeir selja plaköt af listaverkum sem eru prentuð á striga. Ótrúlega flott. Þetta er algerlega löglegt, inni í verðinu er höfundarréttur. Þeir geta ekki gert hvaða verk sem er, heldur verður að velja upp úr katalógum. Stærðin er líka föst eftir stærðinni í katalógunum. Pöntun tekur 5-6 vikur.
Ég talaði við eigandann og hann sagðist geta sent myndirnar til Íslands, annað hvort upprúllaðar eða vel innpakkaðar. Ég veit ekki hvort þessi tækni fæst gerð á Íslandi. Þetta er mjög svipað og að prenta myndir á tré, en samt aðrar græjur. Hann sagði mér að þetta væri algengt í Kanada og Bandaríkjunum en hann væri sá fyrsti til að bjóða þetta í Frakklandi.
Ég mun setja nánari upplýsingar um þetta inn á heimasíðuna mína, þar sem tenglamál eru í einhverjum ólestri á þessari bloggsíðu. Þar munu koma fram slóðir inn á katalógana og e-mail adressa búðarinnar.

The Art Store
117, rue de Bagnolet
75020 Paris
opið þri-lau kl. 11-13 og 14-19:30

Orðið gruggug er flott orð, gruggugur ennþá flottara, grugg grugg gruggedí grugg...

Lifið í friði og borðið guðslambið væna og egg frá Nóa og hugsið til mín.

23.3.05

Jugnot og Bruce almáttugur

Nú hef ég séð tvær bíómyndir sem náðu mikilli athygli og hylli almennings þegar þær voru sýndar í bíó.
Fyrst var það myndin um kórinn, Les choristes sem er einmitt sýnd í bíó á Íslandi þessa dagana. Hugljúf og hjartnæm. Fallegur kórsöngur. Og svo búið.
Ég nenni varla að fara út í smáatriði, en ég er mjög hissa á því hvað þessi mynd gekk vel og skil betur hvað "intelló" liðið hér í Frakklandi þurfti mikið að spá í það. Heilu umræðuþættirnir í sjónvarpinu gengu út á að greina í öreindir hvers vegna allir Frakkar drifu sig að sjá þessa mynd í bíó um leið og aðsókn í bíó er dræm (fór þó reyndar upp á síðasta ári í fyrsta sinn í áratugi).
Mér finnst allt í lagi að horfa við og við á svona vellumyndir, en það fór í taugarnar á mér hvað allt í handritinu er áreynslulaust og fyrirsjáanlegt. T.d. hefði verið hægt að gera betur með ást kennarans á móðurinni. Atriðið þar sem hún segir honum að hún sé komin með kærasta er alger hörmung. Maður vissi strax frá upphafi hvað var í gangi og samt draga þeir þetta á langinn og svipbrigði Gérard Jugnot hefðu betur sómt sér í teiknimynd eða barnamynd. Pínlegt atriði.
En myndin er samt fín sem þessi vellumynd sem hún er og átti alltaf að vera og ánægjulegt hvað hún gekk vel. Skemmtilegt að svona mynd gangi betur en þessar eilífu ofbeldis- og spennumyndir sem eru oftast best sóttu myndir ársins.

Í gærkvöld horfði ég svo á Bruce almighty. Ég horfði á myndina til enda þar sem ég hafði heyrt svo marga segja að hún væri svo skemmtileg.
Ég hef oft haft gaman að Jim Carrey, er ekki ein af þeim sem er með ofnæmi fyrir honum, en eftir hryllinginn í gær veit ég ekki hvort ég á eftir að þora að horfa á aðra mynd með þessum "leikara". Öskur og grettur. Myndin er full af óþolandi móralískum boðskap sem er laumulega troðið inn á börnin (myndin er greinilega ætluð börnum) í einhvers konar grín-dulargervi. Viðbjóður.
Senan þar sem systirin kemur til að sækja dót fyrir Jennifer Aniston fékk hár mín til að rísa: "En veistu hvað Grace gerir á kvöldin? Hún biður til guðs." Ég gubba. Þessi mynd fær fullt hús gubbufata hjá mér.

Annars er allt í sómanum hér. Skattskýrslur enn óútfylltar. Engin vinna þessa vikuna, en farið að glæðast í pöntunum. Sé fram á hlýtt og gott sumar, veðrið er dásamlegt og sólin skín.
Síðan mín er öll að koma til og hér kemur tengill á hana fyrir þá sem hafa áhuga:

href="http://www.parisardaman.com"parisardaman.com

Öll gagnrýni velkomin. Síðan er ekki fullbúin og það vantar t.d. gestabók til að fólk geti komið með sínar ferðasögur öðrum til gagns. En þetta ætti að duga í bili til að kveikja í ykkur að koma í heimsókn. Svona ef ykkur langar annað en í kaffi til Ljúfu á Þorlákshöfn.

Lifið í friði.

21.3.05

laun og gjöld

Jæja, enn og aftur er það skattskýrslan. Í þetta sinn þarf ég að gera tvær skýrslur því ég gifti mig á síðasta ári. Tvöföld ánægja. Reyndar gerði ég tvær skýrslur í mörg ár, eina á Íslandi og eina í Frakklandi. Ég átti nefninlega íbúð á Íslandi og var því skyldug til að gera skýrslu um það þar. Svo fékk ég laun frá íslensku fyrirtæki en fyrir vinnu sem ég vann á franskri grund og varð því að gera skýrslu um það hér. Mér leiðist ógurlega allt þetta ríkisbatterí. En ég er samt afar sátt við að hluti af skattfé fer í að hjálpa þeim sem minna mega sín. Það er eiginlega eina ástæðan fyrir því að ég fyrirgef skattkerfinu að vera til. Allt hitt er mér eiginlega sama um þó að auðvitað finnist mér nauðsynlegt að gera götur og halda uppi almenningssamgöngum og að ruslið mitt sé hirt og svoleiðis. Verst þykir mér að hluti skattfjár fari í að greiða fólki eins og Davíð og Jaques laun. Körlum sem svífast einskis til að traðka á minni máttar og nota sér völdin í eigin þágu og vina sinna.

En þetta ætlaði ég ekki að ræða hér. Enn einu sinni tók lyklaborðið völdin. Er ég að verða alvöru rithöfundur?
Það er til hlutur hér í Frakklandi sem heitir RMI, revenu minimum d'insertion. Einhvers konar fátækralaun til fólks sem hefur engar tekjur og fær engar bætur. Ég er ekki alveg klár á því hvernig fólk skráir sig, en veit að maður verður að vera orðinn 25 ára til að mega fá þetta. Þetta er einhver smá summa sem var reiknuð sem lágmarkið sem þarf til að lifa af. Er reyndar mjög erfitt, en hjálpar samt kannski mörgum til að geta haldið sér frá götunni. Sem er einmitt markmiðið, eins og orðið insertion gefur til kynna. (Þýðir aðlögun eða innsetning).

Nú hafa nokkur hjálparsamtök tekið sig saman og eru að útbúa kröfugerð um að koma á öðrum sjóði, sem þeir vilja kalla RMA, revenu maximal acceptable. Viðunandi hámarkslaun. Markmiðið er að reiknað verði þak á öll laun, að enginn í þjóðfélaginu eigi að þurfa meira en það og að ef hann fær meira, eigi sá mismunur að renna beint í þennan sjóð sem yrði svo skipt milli líknarfélaganna. Þetta er hrein snilldarhugmynd og vona ég að hún nái fram að ganga. Ég efast stórlega um það því það er svo skrýtið í þessum nútímaheimi okkar að þeir sem taka ákvarðanirnar eru einmitt þeir sem mest mega sín. Og þeim er alveg sama um hina.
Ég held m.a.s. að þeir sem standa að þessari hugmynd viti að hún verður kæfð í fæðingu. En auðvitað á þetta eftir að skapa umræður sem gætu vakið til umhugsunar og þegar næst að vekja fólk til umhugsunar er kannski von á breytingum.
Það er ekki eðlilegt að sumir fái laun sem samsvara tekjum heillar þjóðar. Það er ekki eðlilegt að sumir vinni sér til óbóta og nái varla endum saman þó þeir búi þröngt og lifi naumt. Þessi heimur er ekki eðlilegur og kominn tími til að vakna úr dvalanum og gera eitthvað til að breyta honum.

Ég hef aldrei greitt háa skatta enda alltaf verið með frekar lág laun. Ég hef þó greitt skatta og man alveg stinginn í maganum þegar maður fékk 80.000 útborgað fyrir fulla vinnu og 150 yfirvinnutíma ofan á það. Ég man þó ekki eftir að hafa kvartað eða að nokkur sála hafi vorkennt mér. Eina fólkið sem ég heyri barma sér yfir sköttum er fólkið sem vinnur sér mest inn. Hálaunaðir söngvarar og leikarar koma hér fram í viðtölum og kvarta yfr skattkerfinu sem hirðir helminginn af einhverjum milljónum evra sem þeir hala inn á ári. Ég finn aldrei til vorkunnar, nema ef vera skyldi að ég vorkenndi þeim fyrir heimsku sína. Að halda það að við hin getum fundið til samkenndar með þeim ber raunveruleikafirringu þeirra vitni.

Kannski verður talað um ofurvald peninganna í þátíð eftir nokkur ár. Ég trúi því að kaptítalíska kerfið sem við lifum við í dag eigi eftir að hrynja og ég trúi því að ef ég á ekki eftir að lifa það sjálf, þá eigi a.m.k. börnin mín eftir að lifa það. Ég held í þá von. Kapítalíska kerfið er niðurlægjandi fyrir manninn. Klisjuna um frumskógarlögmálið má taka og troða upp í óæðri endann á forríkum jöfrunum sem stjórna heiminum í dag. Á þeim sem ákveða að þarna eigi að brjótast út stríð og að þessi minnihlutahópur eigi að ná völdum því að stjórinn þeirra sé kerfinu hliðhollur. Ákveða saman að nú sé best að hækka öll iðgjöld trygginga eða lyf. Finna sífellt upp á nýjum leiðum til að kúga litla manninn.

Þessu hlýtur að linna. Þið megið kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein. Ég vona að dag einn bætist þú í hópinn og að heimurinn verði sem einn.

Lifið í friði.

16.3.05

er hægt að líkja saman?

Ég er búin að lesa ýmislegt um Fischer á bloggsíðum og nú las ég hjartnæmt bréf frá Helga taflmanni í Morgunblaði sem lá hér ólesið frá því í síðustu viku. Ég tók bakföll af hlátri og spyr nú:

Er eitthvað líkt með Fischer og Keikó?

Mér sýnist þetta vera nákvæmlega sama húmbúkkið og vitleysan í kringum það kvikindi. Spái því að á endanum verði Fischer fluttur heim í búri hangandi út úr rándýrri herþyrlu og settur í kví í Hrísey og deyi svo áður en við getum farið að græða almennilega á honum.

Hvað gæti svo tekið við? Hvaða yfirgefna grey ætli bíði þess að bilaða þjóðin í Norðri taki sig til og fái ofuráhuga á því og vandamálum þess?

Lifið í friði.

p.s. Ég er búin að komast að þessu með gulu sokkana mína. Þegar ég var ca 12 ára gaf mamma mér gula peysu og gula sokka með götum á til skrauts sem mér fannst alveg rooosalega flottir. Ég fór í nýju fötin mín alsæl og gekk út og hitti þar vinkonu mína sem var búin að draga fram hjólabretti sem hafði fundist við tiltekt í bílskúrnum. Ég steig upp á brettið, rann til og datt í götuna og reif nýju sokkana mína. Eftir það þurfti ég að vera áfram í gulu peysunni minni en átti aldrei sokka í stíl. Í bælingunni breyttist sorgin í andúð á gulum sokkum og sannfæringu um að allir í gulum sokkum væru smekklausir. Þar sem austur-evrópskar pæjur eru annálaðar smekkleysur datt mér þessi fordómatenging í hug í gær. Án þess að muna eftir mínum sokkum, minningin um þá kom ekki til mín fyrr en nú í morgun, meðan ég var að vakna.

15.3.05

þröngsýni lífsýni

Um daginn var ég á gangi úti í bæ. Ég mætti karli með hund. Hreinræktaðan stóran og sterklegan (hundurinn, ekki karlinn) af einhverju fínu kyni sem mér gæti varla verið meira sama um. Í huga minn laust: Hann (karlinn, ekki hundurinn) er örugglega hommi. Skrýtið. Ólíkt mér. Ég veit ekki hvaðan þetta kom eða hvers vegna einmitt þarna, en þetta sýnir manni að þrátt fyrir endalausar tilraunir til að vera opin og fordómalaus þá bulla þeir og sjóða þarna einhvers staðar innan í manni.

Ég ætlaði að skrifa þetta blogg svona:
Þegar ég sé karl með hund hugsa ég: Hommi.
Þegar ég sé konu í gulum sokkum hugsa ég: Austur-Evrópa.
Þegar ég sé eitt hugsa ég: Það.

Og láta svo þar við sitja. En svo byrjaði lyklaborðið að taka völdin eins og hjá alvöru rithöfundum og úr þessu varð játning mín á eigin fordómum. Djöflunum sem ég þarf sífellt að berjast við. Kannski er það betra. Hitt hefði verið ögrun og kaldhæðni en hefði þó að vissu leyti verið afneitun á því að ég væri sjálf svona fordómafull og þröngsýn. Ég hefði verið að þykjast vera sjálf svo fullkomin og um leið svo meðvituð um hvað aðrir eru ófullkomnir í þröngsýni sinni og fordómum.
Gott á mig.

Stundum hef ég á tilfinningunni að blogg sé tóm lygi. En kannski er það ekki rétt. Kannski er bloggið hinn fullkomni spegill á lífið því þar blandast saman hæfilegur skammtur af lygi eða leikaraskap og opinskárri hreinskilni. Maður tekur sig alvarlega og hefur skoðanir en getur um leið stundum grínast með þetta allt saman og hlegið að sjálfum sér. Eins og í lífinu.

Það er ótrúlegt hvað ég átti erfitt með að leyfa orðinu opinskár að standa. Tímaritamenningin hefur gersamlega eyðilagt þetta fína orð.

Lifið í friði.

14.3.05

íslensk á ný

Ég er orðin íslensk aftur þó ég hafi engan tíma til að blogga núna. Þessi tölvuheimur er svo undarlegur að ég á ekki orð yfir það. En skemmtilegur er hann og gaman að flakka um í honum þó maður sé oft dálítið týndur. Eins og að vafra um götur Parísar og uppgötva nýja staði og átta sig á því að oft er styttra að ganga en að taka lestirnar neðanjarðar. Gaman gaman.
En að börnin skuli ekki sofa: Ekki gaman.
Að ljúka við grein um París: Gaman.
Að eiga enga peninga: Reddast.
Að eiga frábæran kall og skemmtilega vini (þó margir þeirra séu allt of langt í burtu): Gaman.
Mest er því gaman og fæst ekki gaman.
Hætti núna.

Lifið í friði.

10.3.05

Eftir samtal vid ponkommuna i morgunsarid vard thorfin til ad blogga sterkari soknudinum eftir islensku lyklabordi.
Fyrir tha sem hafa radlagt mer er nidurstadan su ad eg neydist til ad kaupa tiuna fra Islandi til ad fa lyklabordid a islensku sem er naudsynlegt fyrir mig. Eg er fegin ad thessi tia var fengin ad lani til prufu. Thad er verra ad eg tyndi nidur ollum skjolum, og postholfinu minu med ollum netfongum.
Thvi bid eg alla sem vilja vera i postsambandi vid mig um ad senda mer post svo eg geti baett theim aftur a listann.
Mer finnst tian annars mjog skemmtilega notendavaen og hlakka til ad geta nytt mer alla kostina fljott og orugglega.
Thad er margt ad skrifa um, hryllilegar frettir fra Irak um skjotandi hermenn og endalaus mord a saklausum borgurum sem komu i ljos thegar their reyndu ad tortima italska bladamanninum a dogunum. Vid skulum ekki gleyma thvi ad thetta undarlega strid sem ma vist ekki kalla strid heldur heitir fridargaesla og a vist ad hjalpa Irokum ad verda menningarleg eins og vid hin, er had med samthykki islenskra yfirvalda og thvi einnig kjosenda thessara somu yfirvalda.
Vid skulum ekki gleyma allri sorginni og hormungunum sem fylgja thvi ad missa fjolskyldumedlim. Daglegt braud i Irak i dag.
I gaer sat eg a bidstofu og las Marie Claire. Eitt af thessum kvennablodum sem vinnur markvisst ad thvi ad brjota konur nidur til ad selja theim meiri snyrtivorur og dyrari silkikluta um leid og bladid thykist vera "alvarlegt" med thvi ad birta greinar um folk sem thjaist til ad vekja lesendur til umhugsunar. Vitanlega er thetta allt saman utpaelt og aldrei er bent a hluti sem gaetu faelt auglysendur fra bladinu. Ekki frekar en i odrum fjolmidlum i heiminum i dag.
I bladinu sem eg las i gaer var grein um drengi fra Angola, tvo braedur sem komu ologlegir til Frakklands fyrir nokkrum arum eftir ad opinber yfirvold i Angola hofdu myrt alla fjolskyldu theirra (foreldrana og fjora braedur) vegna thess ad pabbinn var i rongum flokki. I Angola tidkast thad ad myrda alla fjolskylduna, til ad utryma genum med rangar politiskar skodanir. Thessir drengir bjorgudust vegna thess ad sa eldri var uti i fotbolta med vinum sinum thegar herinn ruddist inn og sa yngri fell i yfirlid og var talinn daudur af hermonnunum.
Braedurnir komu til Frakklands fyrir tilstilli vinar fodur theirra, allslausir. Their fengu inni hja samtokum sem adstoda flottamenn og yngri drengurinn komst i skola. Hann er tolf ara fyrirmyndarnemandi nu fjorum arum seinna. Brodur hans, sem var kominn af skolaskyldu, hefur hins vegar ekki tekist ad fa flottamannalandvistarleyfi og faer thvi hvergi vinnu. Hann er tvitugur og nu a ad reka hann ur landi. Reka burt einu manneskjuna sem sa yngri a eftir i lifinu. Skolinn hans er kominn i malid og allir foreldrar barnanna hafa tekid hondum saman um ad fa yfirvold til ad leyfa honum ad vera afram. Tho er enginn afryjunarrettur thegar buid er ad visa folki ur landi svo malid mun verda flokid. I hopi foreldra eru m.a. logfraedingur sem mun saekja malid fyrir braedurna fritt og atvinnurekandi sem hefur thegar lofad unga manninum vinnu. Malid er ekki hofn, en samkvaemt Marie-Claire voru godar horfur a thvi ad hann fengi landvistarleyfi.
Thad eru thusundir folks i svipudum malum her i Frakklandi sem fa ekki svona ovaenta og sterka hjalp. Tho vinna hundrudir Frakka i ymis konar samtokum sem berjast fyrir retti flottamanna. Og Frakkland er eitt af skastu vestraenu rikjunum thegar kemur ad mottoku flottamanna. Hvar stendur Island? Kemur neyd folks i fjarlaegum londum okkur vid? Kemur Irak okkur vid?

Lifid i fridi.

3.3.05

þessi síða er frábær (fyrirsögnin er tengill)

Íslenskara verður það vart. Þetta er fólk sem kann að lifa lífinu og leyfir m.a.s. öðrum að njóta þess með þeim. Enginn barlómur á þessum bæ.

Lifið í friði.

hver er best?

Þá er ég endanlega orðin sannfærð um að ég geti allt. Þetta hefur verið að brjótast um í kollinum á mér í einhvern tíma, mér finnast mér vera allir vegir færir og þegar einhver segir nei við mig þá hugsa ég bara eins og litla gula hænan: Þá geri ég það bara sjálf.

Í gær var birtur listi yfir þá sem komast áfram í munnlegt próf/viðtal út af vinnu sem bókasafnverðir hér á Ile de France (e.k. Gullbringu- og Kjósarsýsla sem nær yfir úthverfi Parísar). Maðurinn minn þreytti prófið í nóvember eins og dyggir lesendur muna.
Hann vann vel fyrir það, las allt sem sett var fyrir. Hann er klár og mjög vel ritfær. Honum fannst honum ganga mjög vel. Hann er ekki á listanum. Bless. Kemst ekki áfram. Og engin skýring. Er bara ekki á nafnalistanum.
Fyrst var ég grátklökk og síðan reið og nú segi ég bara: Fjandinn hafi það, við stofnum bara bókasafn, miklu stærra og flottara en þessi sveitasöfn hérna sem eru opin nokkra morgna í viku og loka á sumrin og ekki einu sinni kaffistofa í þeim! Stofnum alvöru pönk/anarkista/hápólitískt hæli fyrir hugsandi fólk. Þarf að melta þessa hugmynd mína, líklega fer hún bara ofan í skúffuna með öllum hinum draumunum sem ég mun aldrei láta rætast, en þetta er engu að síður afar góð hugmynd, að mínu mati.

Í morgun fór ég að leita að korti af París til að nota í greinina sem ég er að skrifa um mig (sic) í tímarit nokkurt. Kortið sem ég fann birtist blikkandi og það leiddi mig til þess að fara að athuga hvernig ég gæti bætt minni við Internet Explorer eins og tölvan segir mér reglulega að gera og það leiddi mig út í að hlaða niður nýrri útgáfu af Internet Explorer fyrir Mac Os 9. Og nú get ég t.d. lesið hana Ljúfu eins og prósa, en ekki eins og undarleg nútímaljóð með einu orði í línu. Er ég ekki klár? Er mín ekki best? Mér finnst það.

Ég hef enn ekki komist í að uppfæra Mac Os X, þar sem eigandinn og fjölskylda hans liggja í veikindum og ég hef staðið í flutningum með vinum okkar Bryn og co. Nóg að gera. Get samt ekki beðið eftir að prófa að gera þetta. Þó ég geti nú ekki neitað því að ég kvíði tilhugsuninni um tölvuleysi mikið, því auðvitað gæti eitthvað farið úrskeiðis. En þar sem ég er best, verður þetta ekkert mál, er það nokkuð?

Lifið í friði.

2.3.05

ís og áfengi

Ég vissi ekki að ís-ið í París væri sama ís-ið og í Íslandi.
Ég er alveg komin með nóg af þessum snjó sem hefur kyngt niður í allan dag. Börnin eru róleg núna þar sem ég læt vatn renna í vaskinum og þau leika þar með uppbrettar ermar og plastglös. Verst hvað ég er á móti því að láta vatn renna. Enn ein ástæða til að skipta um vask, tappinn heldur ekki vatni.

Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum, en áfengi safnast upp á heimilinu og barinn er búinn að springa utan af sér allt skápapláss núna eftir að við tókum við heimilislausum flöskum úr flutningum Bryn og co. Maður er orðinn svo hrikalega lélegur í drykkjunni að það hálfa væri nóg. Sérstaklega er maður snarhættur að drekka þetta sterka, þolir það varla lengur. Já, það er af sem áður var. Það þurfti enga þurrkun í voginum, bara eignast börn sem vakna snemma og þurfa athygli. Og þroskast kannski?

Lifið í friði.