15.3.05

þröngsýni lífsýni

Um daginn var ég á gangi úti í bæ. Ég mætti karli með hund. Hreinræktaðan stóran og sterklegan (hundurinn, ekki karlinn) af einhverju fínu kyni sem mér gæti varla verið meira sama um. Í huga minn laust: Hann (karlinn, ekki hundurinn) er örugglega hommi. Skrýtið. Ólíkt mér. Ég veit ekki hvaðan þetta kom eða hvers vegna einmitt þarna, en þetta sýnir manni að þrátt fyrir endalausar tilraunir til að vera opin og fordómalaus þá bulla þeir og sjóða þarna einhvers staðar innan í manni.

Ég ætlaði að skrifa þetta blogg svona:
Þegar ég sé karl með hund hugsa ég: Hommi.
Þegar ég sé konu í gulum sokkum hugsa ég: Austur-Evrópa.
Þegar ég sé eitt hugsa ég: Það.

Og láta svo þar við sitja. En svo byrjaði lyklaborðið að taka völdin eins og hjá alvöru rithöfundum og úr þessu varð játning mín á eigin fordómum. Djöflunum sem ég þarf sífellt að berjast við. Kannski er það betra. Hitt hefði verið ögrun og kaldhæðni en hefði þó að vissu leyti verið afneitun á því að ég væri sjálf svona fordómafull og þröngsýn. Ég hefði verið að þykjast vera sjálf svo fullkomin og um leið svo meðvituð um hvað aðrir eru ófullkomnir í þröngsýni sinni og fordómum.
Gott á mig.

Stundum hef ég á tilfinningunni að blogg sé tóm lygi. En kannski er það ekki rétt. Kannski er bloggið hinn fullkomni spegill á lífið því þar blandast saman hæfilegur skammtur af lygi eða leikaraskap og opinskárri hreinskilni. Maður tekur sig alvarlega og hefur skoðanir en getur um leið stundum grínast með þetta allt saman og hlegið að sjálfum sér. Eins og í lífinu.

Það er ótrúlegt hvað ég átti erfitt með að leyfa orðinu opinskár að standa. Tímaritamenningin hefur gersamlega eyðilagt þetta fína orð.

Lifið í friði.