laun og gjöld
Jæja, enn og aftur er það skattskýrslan. Í þetta sinn þarf ég að gera tvær skýrslur því ég gifti mig á síðasta ári. Tvöföld ánægja. Reyndar gerði ég tvær skýrslur í mörg ár, eina á Íslandi og eina í Frakklandi. Ég átti nefninlega íbúð á Íslandi og var því skyldug til að gera skýrslu um það þar. Svo fékk ég laun frá íslensku fyrirtæki en fyrir vinnu sem ég vann á franskri grund og varð því að gera skýrslu um það hér. Mér leiðist ógurlega allt þetta ríkisbatterí. En ég er samt afar sátt við að hluti af skattfé fer í að hjálpa þeim sem minna mega sín. Það er eiginlega eina ástæðan fyrir því að ég fyrirgef skattkerfinu að vera til. Allt hitt er mér eiginlega sama um þó að auðvitað finnist mér nauðsynlegt að gera götur og halda uppi almenningssamgöngum og að ruslið mitt sé hirt og svoleiðis. Verst þykir mér að hluti skattfjár fari í að greiða fólki eins og Davíð og Jaques laun. Körlum sem svífast einskis til að traðka á minni máttar og nota sér völdin í eigin þágu og vina sinna.En þetta ætlaði ég ekki að ræða hér. Enn einu sinni tók lyklaborðið völdin. Er ég að verða alvöru rithöfundur?
Það er til hlutur hér í Frakklandi sem heitir RMI, revenu minimum d'insertion. Einhvers konar fátækralaun til fólks sem hefur engar tekjur og fær engar bætur. Ég er ekki alveg klár á því hvernig fólk skráir sig, en veit að maður verður að vera orðinn 25 ára til að mega fá þetta. Þetta er einhver smá summa sem var reiknuð sem lágmarkið sem þarf til að lifa af. Er reyndar mjög erfitt, en hjálpar samt kannski mörgum til að geta haldið sér frá götunni. Sem er einmitt markmiðið, eins og orðið insertion gefur til kynna. (Þýðir aðlögun eða innsetning).
Nú hafa nokkur hjálparsamtök tekið sig saman og eru að útbúa kröfugerð um að koma á öðrum sjóði, sem þeir vilja kalla RMA, revenu maximal acceptable. Viðunandi hámarkslaun. Markmiðið er að reiknað verði þak á öll laun, að enginn í þjóðfélaginu eigi að þurfa meira en það og að ef hann fær meira, eigi sá mismunur að renna beint í þennan sjóð sem yrði svo skipt milli líknarfélaganna. Þetta er hrein snilldarhugmynd og vona ég að hún nái fram að ganga. Ég efast stórlega um það því það er svo skrýtið í þessum nútímaheimi okkar að þeir sem taka ákvarðanirnar eru einmitt þeir sem mest mega sín. Og þeim er alveg sama um hina.
Ég held m.a.s. að þeir sem standa að þessari hugmynd viti að hún verður kæfð í fæðingu. En auðvitað á þetta eftir að skapa umræður sem gætu vakið til umhugsunar og þegar næst að vekja fólk til umhugsunar er kannski von á breytingum.
Það er ekki eðlilegt að sumir fái laun sem samsvara tekjum heillar þjóðar. Það er ekki eðlilegt að sumir vinni sér til óbóta og nái varla endum saman þó þeir búi þröngt og lifi naumt. Þessi heimur er ekki eðlilegur og kominn tími til að vakna úr dvalanum og gera eitthvað til að breyta honum.
Ég hef aldrei greitt háa skatta enda alltaf verið með frekar lág laun. Ég hef þó greitt skatta og man alveg stinginn í maganum þegar maður fékk 80.000 útborgað fyrir fulla vinnu og 150 yfirvinnutíma ofan á það. Ég man þó ekki eftir að hafa kvartað eða að nokkur sála hafi vorkennt mér. Eina fólkið sem ég heyri barma sér yfir sköttum er fólkið sem vinnur sér mest inn. Hálaunaðir söngvarar og leikarar koma hér fram í viðtölum og kvarta yfr skattkerfinu sem hirðir helminginn af einhverjum milljónum evra sem þeir hala inn á ári. Ég finn aldrei til vorkunnar, nema ef vera skyldi að ég vorkenndi þeim fyrir heimsku sína. Að halda það að við hin getum fundið til samkenndar með þeim ber raunveruleikafirringu þeirra vitni.
Kannski verður talað um ofurvald peninganna í þátíð eftir nokkur ár. Ég trúi því að kaptítalíska kerfið sem við lifum við í dag eigi eftir að hrynja og ég trúi því að ef ég á ekki eftir að lifa það sjálf, þá eigi a.m.k. börnin mín eftir að lifa það. Ég held í þá von. Kapítalíska kerfið er niðurlægjandi fyrir manninn. Klisjuna um frumskógarlögmálið má taka og troða upp í óæðri endann á forríkum jöfrunum sem stjórna heiminum í dag. Á þeim sem ákveða að þarna eigi að brjótast út stríð og að þessi minnihlutahópur eigi að ná völdum því að stjórinn þeirra sé kerfinu hliðhollur. Ákveða saman að nú sé best að hækka öll iðgjöld trygginga eða lyf. Finna sífellt upp á nýjum leiðum til að kúga litla manninn.
Þessu hlýtur að linna. Þið megið kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein. Ég vona að dag einn bætist þú í hópinn og að heimurinn verði sem einn.
Lifið í friði.
<< Home