31.3.05

tryllt

Það er svo tryllt að gera hjá mér einmitt þessa dagana að bak og axlir eru orðin eins og steinar. Þarf að komast til osteópatans míns ekki seinna en strax. Verst að minnst er launað af þessu.
Ég tók að mér að mála íbúðina sem bróðir mannsins míns var að kaupa. Hann sagði að það þyrfti bara að mála og hugsaði ekki út í að á veggjunum væru fjögur lög af veggfóðri og að veggirnir undir eru hráir og ómúraðir. Sums staðar sér í trégrind hússins, sums staðar í múrsteina með bilum á milli. Ég þarf að fara í iðnskólann og taka múrarann áður en ég lýk þessu! Er búin að skrapa og skrapa og mínar fínu hendur eru hrjúfar og þreyttar. Þess á milli verð ég þriggja barna móðir næstu daga þar sem fjölskylda barnapíu vinkonu minnar lenti í bílslysi og liggur öll í kóma svo barnapían er farin um óákveðinn tíma til Kamerún (já, það er samhengi í þessu en ég nenni ekki að útskýra það, annað hvort dugar þetta eða þið getið bara hætt að lesa og farið á aðra síðu, ha, reynið að finna einhverja virka bloggara þessa dagana eftir að Einar gaf því dauðadóm), svo það verður engin hvíld dagana sem ég fer ekki að taka veggfóður.
Það er með ólíkindum þetta veggfóðuræði sem Frakkarnir eru núna fyrst að losa sig undan. Veggfóður er líklega ógeðfelldasta fyrirbæri sem fundið hefur verið upp í húsaskreytingum. Jú, sum veggfóður geta verið skemmtileg og falleg og auðvitað er gott að fela hrákasmíði húsanna bak við plastið en... Svo er Veggfóður líka léleg bíómynd.
Það er og ótrúlegt hvernig fólk skilar af sér íbúðum hérna. Eldhúsið var svo skítugt að þegar ég reif fyrrverandi hvíta með rauðum rúðustrikum og fjólubleikum vínberjaklösum í rúðum á víð og dreif af veggnum var ég næstum því búin að kasta upp, fitulagið var mun þykkara en veggfóðrið sjálft og ég ætla ekki að reyna að lýsa innstungunum á bak við eða vinnuljósinu á veggnum. Mér varð svo um þegar ég tók í það að ég öskraði upp yfir mig. Lucien hélt ég hefði séð mús. Ótrúlegast er nú samt að þrátt fyrir skít og drullu er ekki ein einasta padda þarna. Hvaða eitri hafa þau spúað yfir eftir að hafa tæmt?
Ekki halda að ég sé með eitur á heilanum, en ég virka svona í þemum. Þema þessa dagana er eitur. Eitur í poka. Eitur í kassa. Eitur í tösku. Eitur í flösku! Klukk! Náði þér!

Lifið í friði.