heimþrá
Ég man eftir páskum í gamla daga þegar maður var á skíðum upp á hvern einasta dag og kom svo sólbrúnn í skólann eftir fríið að allir héldu að maður hefði verið í útlöndum.Ég er í einhverju nostalgíukasti hérna. Er alein heima og nýt þagnarinnar svo vel að ég set ekki einu sinni tónlist á fóninn. En ég er með bragð af lambakjöti í munninum og sé páskaegg í hillingum. Langar að hafa mömmu mína og pabba og alla hina líka. Langar ekki til að vera ein hér og alltaf sama baslið, engin hátíðarstemning eða almennt frí eins og heima. Bara þriggja daga helgi framundan. En kallinn minn er að vinna á annan í páskum svo við förum ekki neitt hvort eð er.
Reyndar býður hann mér á tónleika með Higelin á morgun. Hann er franskur brjálæðingur og verður vonandi gaman að sjá hann í eldgömlu leikhúsi í 18. hverfi. Og börnin verða hjá ömmu og afa svo við fáum líka að "sofa út" á laugardag þó við séum víst skikkuð í hádegismat til þeirra. Ekki það að við getum ekki lengur sofið út, maður vaknar upp úr átta hversu seint sem maður fór að sofa. Þetta hlýtur að lagast með aldrinum - á börnunum, er það ekki?
Emilíana er að syngja einhvers staðar hér í París í kvöld, sendiráðið sendi út tilkynningu um það í gær. Hefðu nú mátt hafa meiri fyrirvara.
Ég er með heimþrá.
Stökk húð af grilluðu lambalæri. MMMmmm. Ég finn lyktina í alvöru talað.
Best að koma mér í byggingavöruverslunina til að ná í gólfin í dúkkuhúsið sem ég er að smíða upp úr gamalli kommóðu.
Lifið í friði.
<< Home