23.3.05

Jugnot og Bruce almáttugur

Nú hef ég séð tvær bíómyndir sem náðu mikilli athygli og hylli almennings þegar þær voru sýndar í bíó.
Fyrst var það myndin um kórinn, Les choristes sem er einmitt sýnd í bíó á Íslandi þessa dagana. Hugljúf og hjartnæm. Fallegur kórsöngur. Og svo búið.
Ég nenni varla að fara út í smáatriði, en ég er mjög hissa á því hvað þessi mynd gekk vel og skil betur hvað "intelló" liðið hér í Frakklandi þurfti mikið að spá í það. Heilu umræðuþættirnir í sjónvarpinu gengu út á að greina í öreindir hvers vegna allir Frakkar drifu sig að sjá þessa mynd í bíó um leið og aðsókn í bíó er dræm (fór þó reyndar upp á síðasta ári í fyrsta sinn í áratugi).
Mér finnst allt í lagi að horfa við og við á svona vellumyndir, en það fór í taugarnar á mér hvað allt í handritinu er áreynslulaust og fyrirsjáanlegt. T.d. hefði verið hægt að gera betur með ást kennarans á móðurinni. Atriðið þar sem hún segir honum að hún sé komin með kærasta er alger hörmung. Maður vissi strax frá upphafi hvað var í gangi og samt draga þeir þetta á langinn og svipbrigði Gérard Jugnot hefðu betur sómt sér í teiknimynd eða barnamynd. Pínlegt atriði.
En myndin er samt fín sem þessi vellumynd sem hún er og átti alltaf að vera og ánægjulegt hvað hún gekk vel. Skemmtilegt að svona mynd gangi betur en þessar eilífu ofbeldis- og spennumyndir sem eru oftast best sóttu myndir ársins.

Í gærkvöld horfði ég svo á Bruce almighty. Ég horfði á myndina til enda þar sem ég hafði heyrt svo marga segja að hún væri svo skemmtileg.
Ég hef oft haft gaman að Jim Carrey, er ekki ein af þeim sem er með ofnæmi fyrir honum, en eftir hryllinginn í gær veit ég ekki hvort ég á eftir að þora að horfa á aðra mynd með þessum "leikara". Öskur og grettur. Myndin er full af óþolandi móralískum boðskap sem er laumulega troðið inn á börnin (myndin er greinilega ætluð börnum) í einhvers konar grín-dulargervi. Viðbjóður.
Senan þar sem systirin kemur til að sækja dót fyrir Jennifer Aniston fékk hár mín til að rísa: "En veistu hvað Grace gerir á kvöldin? Hún biður til guðs." Ég gubba. Þessi mynd fær fullt hús gubbufata hjá mér.

Annars er allt í sómanum hér. Skattskýrslur enn óútfylltar. Engin vinna þessa vikuna, en farið að glæðast í pöntunum. Sé fram á hlýtt og gott sumar, veðrið er dásamlegt og sólin skín.
Síðan mín er öll að koma til og hér kemur tengill á hana fyrir þá sem hafa áhuga:

href="http://www.parisardaman.com"parisardaman.com

Öll gagnrýni velkomin. Síðan er ekki fullbúin og það vantar t.d. gestabók til að fólk geti komið með sínar ferðasögur öðrum til gagns. En þetta ætti að duga í bili til að kveikja í ykkur að koma í heimsókn. Svona ef ykkur langar annað en í kaffi til Ljúfu á Þorlákshöfn.

Lifið í friði.