16.3.05

er hægt að líkja saman?

Ég er búin að lesa ýmislegt um Fischer á bloggsíðum og nú las ég hjartnæmt bréf frá Helga taflmanni í Morgunblaði sem lá hér ólesið frá því í síðustu viku. Ég tók bakföll af hlátri og spyr nú:

Er eitthvað líkt með Fischer og Keikó?

Mér sýnist þetta vera nákvæmlega sama húmbúkkið og vitleysan í kringum það kvikindi. Spái því að á endanum verði Fischer fluttur heim í búri hangandi út úr rándýrri herþyrlu og settur í kví í Hrísey og deyi svo áður en við getum farið að græða almennilega á honum.

Hvað gæti svo tekið við? Hvaða yfirgefna grey ætli bíði þess að bilaða þjóðin í Norðri taki sig til og fái ofuráhuga á því og vandamálum þess?

Lifið í friði.

p.s. Ég er búin að komast að þessu með gulu sokkana mína. Þegar ég var ca 12 ára gaf mamma mér gula peysu og gula sokka með götum á til skrauts sem mér fannst alveg rooosalega flottir. Ég fór í nýju fötin mín alsæl og gekk út og hitti þar vinkonu mína sem var búin að draga fram hjólabretti sem hafði fundist við tiltekt í bílskúrnum. Ég steig upp á brettið, rann til og datt í götuna og reif nýju sokkana mína. Eftir það þurfti ég að vera áfram í gulu peysunni minni en átti aldrei sokka í stíl. Í bælingunni breyttist sorgin í andúð á gulum sokkum og sannfæringu um að allir í gulum sokkum væru smekklausir. Þar sem austur-evrópskar pæjur eru annálaðar smekkleysur datt mér þessi fordómatenging í hug í gær. Án þess að muna eftir mínum sokkum, minningin um þá kom ekki til mín fyrr en nú í morgun, meðan ég var að vakna.