30.5.05

ein ný

Bætti við nýjum tengli á blogglistann, þetta er hún Unnur sem kallar sig internetmömmu. Hún er skemmtileg, skrýtin og fótbrotin. Kannski skemmtileg af því hún er skrýtin? Og þá skrýtin af því hún er fótbrotin? Alla vega, hún er þarna.

Lifið í friði.

Evrópa og stjórnarskrá hennar

Ég ætla að svara síðustu athugasemd Meó með nýrri færslu, það er svo margt sem ég þarf að koma að þó að ekki megi gleyma að ég fylgdist afskaplega lítið með kosningabaráttunni og umræðum þar sem ég er eiginlega hætt að horfa á sjónvarp. Ég horfði þó spennt og stillt á hádegisfréttirnar núna og er því með nokkra punkta fyrir þá sem hafa áhuga.

Fyrst er hægt að líta á skiptingu atkvæða:
Borgir sögðu JÁ
Sveitin segir NEI
Vinstri flokkar sögðu NEI þó að Sósíalistar (sem er eiginlega blanda af Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum ef ég fer út í að þýða og staðfæra) hafi boðað JÁ. Í þeim flokki fór þetta 50-50, kannski aðeins meira JÁ. Allir aðrir vinstri flokkar (Grænir og kommúnistar) sögðu strax NEI og kusu eftir því.
Hægri flokkarnir hefðbundnu sögðu JÁ eins og þeim var sagt að gera og öfga hægri flokkarnir þrír sögðu NEI eins og þeim var sagt að gera.

Af þessu má draga nokkrar ályktanir:
Chirac og stjórnin hans töpuðu. En Chirac heldur þó fylgi flokksmanna sinna öfugt við Sósíalista sem töpuðu á báðum vígstöðvum og þurfa enn frekar að stokka upp hjá sér og finna sér góða Ingibjörgu Sólrúnu til að taka flokkinn í gegn. Chirac átti Raffarin (ömurlegan forsætisráðherra) í rassvasa og mun sparka honum og þykjast þar með vera búinn að taka til. Hlutur sem hann átti að gera fyrir löngu síðan því stjórnin hefur beðið afhroð í sveitastjórnarkosningum og Evrópukosningum meðan Raffarin hefur "ríkt". Aðaltitringurinn er að vita hvort hann gerir Sarkozy að forsætisráðherra. Sarkó er efni í heilan pistil sem ég er þó ekki viss um að hann eigi inni hjá mér.

Verkafólk og bændur, hinar vinnandi stéttir, sigruðu. Ég var langhræddust um að lítil þáttaka yrði í dreifbýlinu og að þannig myndi JÁið sigra en örvænting og reiði er orðin of stór hluti af daglegu lífi fólksins í landinu, fólk er búið að fá nóg og dreif sig á kjörstað til að sýna það. Borgarbúar eru mun fjær greinilegum afleiðingum heimsvæðingar Markaðsins og líður mun betur og treystir því flokkstjórum til að segja sér hvað á að kjósa. Hér á ég við að heimsvæðingin felur í sér flutning verksmiðja til landa með ódýrara vinnuafl. Borgarbúinn græðir á lægra vöruverði og er skítsama um að helmingur þjóðarinnar er atvinnulaus eða sér fram á að verða það mjög fljótlega. Í stjórnarskránni voru undarlega skýjuð ákvæði um að mega greiða láglaunafólki samkvæmt taxta þeirra eigin landa þó þeir ynnu í ríkari löndum, þ.e.a.s. að franskt fyrirtæki gæti ráðið pólskan pípulagningamann á pólskum taxta. En þetta var þó mjög umdeilt eins og margt í þessari stjórnarskrá sem líkist Biblíunni að því leyti til að hver og einn getur túlkað hana að vild. Sem í sjálfu sér hefði dugað eitt og sér til að fella hana, fólk var ekki tilbúið til að skrifa undir óskiljanlegan samning.

Það er enn ástæða til að vera skíthræddur við öfga hægri flokkana. Hvað myndi gerast ef þeir sameinuðust á ný? Alveg eins og vinstri flokkarnir, er það einkenni öfga hægri flokka að eiga í illdeilum innbyrðis og það hefur bjargað Frakklandi frá því að þeir nái of langt. En þeir eru viðbjóðslega sterkir núna og það er hreint með ólíkindum að svona flokkar nái slíku fylgi í Frakklandi á meðan svona flokkar eru varla til í öðrum Evrópuríkjum. Þ.e.a.s. að alls staðar er illgresi en það nær ekki að blómstra jafn sterkt í öðrum stórríkjum. (Danmörk er sem betur fer lítið land.) Nú ganga þeir um breiðir í baki og brosandi og segjast hlakka til að takast á við Chirac 2007. Frekar óhuggulegt og virkilega VIRKILEGA nauðsynlegt að Sósíalistar taki sig saman í andlitinu og finni lausnir á vandamálum sínum.

Vandamál Sósíalistanna er fyrst og fremst að þeir eru orðnir frjálshyggjumenn og sýna það best með því að boða JÁ við þessari stjórnarskrá. Þ.e.a.s. stjórn Sósíalistaflokksins er orðin frjálshyggjuskítapakk. Flokksfélagar sýna skýrt í verki að þeir vilja ekki taka mark á stjórn flokksins lengur. Þeir eiga fullt af góðu fólki sem hægt er að treysta betur en François Hollande sem ríður nú þar rækjum (sem er skemmtileg afbökun á að ráða ríkjum).

Niðurstaða alls þessa er líklega helst sú að fólk er orðið langþreytt á ofuráherslu á Markaðinn og frjálshyggjuna. Það þarf að fara að huga að öðrum og mikilvægari málefnum. Frakkar eru hræddir, það er verið að breyta öllu, eftirlaunakerfinu, sjúkratryggingakerfinu, spítalar eru yfirfullir og erfitt að fá góða heilbrigðisþjónustu sem verður dýrari með hverju árinu, fólki líður virkilega illa. Og ráðamenn einblína stöðugt á Markaðinn, framleiðslu og eftirspurn, hagræðingu og skattabreytingar. Þetta eru stef og tilbrigði sem fólk er orðið hundleitt á.
Er ekki kominn tími til að setjast niður og huga að Mannneskjunni sjálfri? Er velferð okkar falin í því að eiga bankareikning en enga heilsu til að kaupa drasl frá Kína? Viljum við ekki frekar vita af því að yfirmönnum okkar er umhugað um heilsu okkar og vellíðan, burtséð frá peningadrasli? Eitt af ákvæðunum í stjórnarskránni gekk út á að ef borgarstyrjöld brýst út í einu landanna skal fyrst huga að því að vernda MARKAÐI hinna aðildarríkjanna! Ekki múkk um líf og limi vesalings fórnarlambanna. Peningar peningar peningar. Út á það gekk þessi samningur og Frakkar ákváðu með glæsibrag að skrifa ekki undir. Finnið eitthvað annað!

Ímyndaðu þér heiminn án landamæra. Án himins og jarðar. Án vítis og paradísar.
Þú mátt kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein.
Einn daginn muntu ganga í lið með mér og heimurinn verður einn.
Kannski var John Lennon Nostradamus?
Eða Ég?

Lifið í friði.

29.5.05

skamm skamm

Ég skammast mín alveg hrikalega fyrir síðustu færslur. Hvílíkt lélegar. Og hrikalegt að hafa fallið í þá freistni að taka þetta próf. Hvað ætli maðurinn minn segi? Ég þyrfti náttúrulega ekki að segja honum frá þessu því hann les ekki tungumálið mitt, en reynsla mín er sú að alltaf þegar ég ákveð að segja honum ekki eitthvað, segi ég honum það um leið og ég sé hann. Sem verður í fyrramálið ef ég næ að sofa í nótt. Vesalingurinn er fastur á kosningaskrifstofu að telja atkvæði. Já já já, nei nei nei... þetta hlýtur að vera erfið vinna. Ná ná ná, jei, jei, jei... Reyndar er hann ekki beint að telja, held ég. Hann vann á skrifstofunni í allan dag og er svo að fylla út í talningartöflur eða eitthvað svoleiðis. Og auðvitað er hlaðborð og rauðvín svo hann á nú ekkert alveg eins bágt og margir gætu haldið.
Nú er ég farin að teygja lopann því það er að líða að úrslitunum. Sex mínútur. Ætla að heyra útkomuna og henda mér svo í rúmið og sofna.
Það var mjög góð þáttaka í kosningunum. Ég bjóst nú ekki við því og er bjartsýnni á að útkoman verði sú sem ég vil að hún verði.
Horfði á FBI Portés disparues, sem er FBI mannhvarfadeildarþáttaröð sem er sýnd heima og ég hef séð bloggað um en get ómögulega munað hvað heitir á enskíslennsku. Enda skiptir það engu máli. Datt ofan í þessa þætti síðasta sumar og nú ætla þeir að fara að sýna þá aftur. Líta greinilega á þetta sem sumarefni sem er minna flott en að vera vetrarefni sjónvarpsefnislega séð. Ég sé þættina vitanlega með frönsku tali svo ég missi kannski af heilmiklu en þeir eru nú oft naskir með þessar þáttaraðir, vanda sig og þetta er ekki eins erfitt eins og að horfa á talsettar kvikmyndir.
Spennan er að magnast í sjónvarpinu. Ætli það hafi verið svona stemning á heimilunum á Íslandi eftir að Selma lauk sér af? Allir öskrandi og hlæjandi og hoppandi og sannfærðir um sigur. Er það ekki einmitt málið að maður verður að vera sannfærður um sigur til að gaman sé að svona keppnum eins og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og kosningu um evrópska kapítalíska stjórnarskrá.
NEI. Frakkar sögðu nei. Alveg eins og ég. Ég vann. Hoppa þó hvorki né hlæ. En ég lít á þetta sem enn eitt merki um að kapítalisminn er á niðurleið. Fólk er farið að afneita honum og vill finna aðrar lausnir. Bravó Frakkland! Áfram Holland eftir tvo, þrjá daga. Verst að búið er að semja þetta ólæsilega stórvirki og hefur eflaust kostað nógu mikið til að bjarga eins og einu Afríkuríki frá meiri niðurlægingu og ofsóknum.
En það má víst aldrei hugsa svona.
Það má heldur ekki pissa bak við hurð.

Lifið í friði.

hef oft velt þessu fyrir mér

Ég bið lesendur afsökunar, gat ekki haldið í mér að athuga. Hef reyndar alltaf vitað að ég væri blanda af Monicu og Phoebe, en hélt að ég væri meiri Phoebe. Ég býst við að margir sem þekkja mig slái sér á lær þegar þeir lesa það sem stendur með, að ég sé neat freak er líklega eitthvað sem á engan veginn við mig, held ég... eða hvað?
Hef einmitt oft pælt í muninum á manni og hvernig manni finnst maður vera. Hann er stór... munurinn sá...

You scored as Monica. The neat freak who would do anything for her friends. You're Monica, not always that popular but everyone loves you now.

Monica

60%

Phoebe

55%

Ross

55%

Rachel

40%

Chandler

25%

Joey

20%

Which Friend are you?
created with QuizFarm.com

grein um optimistann

Það er bæði hollt og gott að monta sig af vinum sínum. Því geri ég það hér með. Eins og vanalega er það fyrirsögnin sem er tengillinn, eina leiðin fyrir mig til að gera tengla í pistlunum.

Annars er maður bara að ná sér eftir að seinni gesturinn fór í morgun. Nú er kominn tími á að taka barnaherbergið í endurskoðun. Þarf að fara í gegnum alla þessa dótakassa og hillur og gefa eitthvað af þessu dóti. Helst myndi ég vilja sjá allt fara nema bækurnar og legókubbana. Og barbídúkkuna og hinar dúkkurnar. Og púsluspilin. Og rugguhestinn... þetta verður erfitt verkefni enda er ég ekki góð í að henda út, frekar svona alltaf að berjast við safnarann í mér.

Veðrið hefur verið hiti og hiti og í dag átti að rigna en hann hékk þurr og ofurþungur. Springur líklega einhvern tímann í kvöld eða nótt með þrumum og eldingum.

Hef ekkert heyrt af útskrift versló í gær sem átti víst að taka 4 klukkutíma.

Hef nákvæmlega ekki neitt að skrifa um. Man að ég var eitthvað voða mikið að pæla í sturtu í gær og hugsaði að ég yrði að blogga um þetta en ég get ekki með nokkru móti munað hvað það var.

Lifið í friði.

26.5.05

ný og betri síða

Heimasíða leiðsögumannsins Kristínar Jónsdóttur hefur tekið miklum breytingum. Fyrirsögnin er hlekkur.
Fastar ferðir byrja föstudaginn 3. júní. Hlakka mikið mikið til. Hef fengið nokkra hópa í vor og voru þeir hver öðrum betri og skemmtilegri. Það er gaman að vera að sýna aldagamla kirkju og byrja óforvarendis að ræða vantrú Þórbergs og efasemdir Laxness.
Og ekki lítið gaman að finna afabarn mannsins sem átti harmonikkustaðinn sem Íslendingur rambaði inn á 1957 og fann svo aftur 1988 og sami harmonikkuleikarinn tók á móti glöðum Íslendingnum sem dró efasemdarfullan hóp á eftir sér. Með hjálp farsímatækninnar var farið eftir leiðbeiningum frá Húsavík. Staðurinn er þarna enn þó að harmonikkuleikarinn sé farinn. Þannig er lífið. Skrýtið og skemmtilegt.

Hér er sumarið komið með trukki og dýfu. 30 stig í dag og allir sveittir og latir. Best að leggjast upp í sófa með "Sögu Frakklands fyrir hálfvita" eða hvað sem þessi flokkur bóka heitir á íslensku... hm... líklega ekki gefið út á íslensku. Hvað heitir þetta aftur á ensku?

Lifið í friði.

25.5.05

Það er dálítið ruglingsleg útkoma úr tillögum að örlagaþrungnum mómentum í íslenskri textagerð. Kommentin birtast undir tveimur pistlum sem er vissulega dálítið sjálfri mér að kenna. Ef ég væri ofurskipulögð gerði ég samantekt. En ég er það ekki.
Mér finnst hins vegar gefa auga leið að Bo er góður bæði til að dilla sér við og til að gubba við. Einnig finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að við ákveðum hér og nú að senda Þursana í næstu Eurovision. Á lopapeysum og gúmmískóm. Sigurrós gæti séð um bakraddirnar.

Að öllu gamni slepptu finnst mér það fáránlegur misskilningur hjá RÚV að halda ekki forkeppni. Þyrfti það að kosta voðalega mikið? Ég held að allir Íslendingar sætu límdir yfir slíkri sjónvarps- og fjölskylduvænni skemmtun og að allir myndu taka þátt í að kjósa í gegnum sms. Sem er leiðin sem franskar stöðvar nota til að greiða niður skemmtikeppnir í sjónvarpinu hér.

Ég er að breyta síðunni minni töluvert, þ.e.a.s. Verslingurinn sem er búinn í prófum er að vinna fyrir mig í því. Það er dálítið apalegt að vera svona tölvufatlafól en ég er þó búin að kaupa bók. Kannski lagast það einhvern tímann en kannski verð ég fyrst að hætta að fá laugardagsmoggann sem togar alltaf meira í mig en sjálfmenntandi bækurnar sem ég stafla í kringum mig.
Er að lesa eina um stjórnsýsluna í París og ef ég nenni segi ég ykkur einn góðan veðurdag frá því. Höfundur er a.m.k. ekki sammála Agli Helga um að 244 á fermetra sé af hinu góða og vill stækka landsvæði borgarinnar. Hm. Vandlifað í þessum heimi. Stórar borgir. Tómar borgir. Skýjaborgir.

Lifið í friði.

22.5.05

sunnudagsmorgunn

Börnin úti í garði með pabbanum sem fer svo í vinnuna á eftir.
Ég með hundrað bækur um París að lesa, sit og fletti síðasta laugardagsmogga. Þ.e.a.s. frá 14. maí. Þar er hugleiðing Sigurbjargar Þrastardóttur í Lesbókinni um þáttinn með Opruh. Lesist.
Ég hef alltaf haldið því fram að Oprah sé, eins og því miður flest sjónvarpsefni, fölsk og þröngsýn. Staðalmyndir og einfaldanir á veröldinni geta verið hættulegar því þær hlúa að fordómum. Oprah er voðalega mikið að sýna hvað hún er klár og hún er sannarlega skemmtileg en þátturinn hennar er fullur af takmörkunum út af auglýsingahléum og tímaskorti og því brenglast allt umfjöllunarefni hennar. Brenglaður heimur sem okkur er sýndur í sjónvarpinu.
Mjög áhugavert að lesa hjá Sigurbjörgu um það hvernig hún talaði um arabískar konur og þorir að halda því fram að á Vesturlöndum séu konur svo heppnar að vera aldrei barðar. Afar óraunsætt og óábyrgt af jafn áhrifamikilli konu og Opruh. Hún á að undirstrika aftur og aftur að konur eru lamdar og konur deyja og hvetja fórnarlömbin til að koma fram og hætta að fela sig í skömminni. Að láta alla klappa fyrir því hvað vestrænar konur eru heppnar ýtir undir skömmustutilfinninguna.

Í Mogganum las ég einnig um aftöku á fjöldamorðingja í Bandaríkjunum. Ég er alltaf jafn hissa þegar ég les um aftöku. Ég get ekki skilið, get ekki höndlað það að enn sé verið að taka fólk af lífi fyrir glæpi í vestrænum heimi. Það getur ekki verið. Eða hvað? Verðir réttlætisins og baráttumenn lýðræðis hvað? Sveiattan.

Ég lýsi eftir örlagaþrungnum stundum í íslenskri textagerð. Sjá pistil á undan.

Lifið í friði.

21.5.05

Skólaball

Ég held að ekkert, EKKERT, í íslenskri popptónlistarsögu toppi örlagaþrungið mómentið þegar Bjöggi Halldórs syngur þessa setningu:

Þau mig stungu af.

Lifið í friði.

drúbbí drúbbí dú

Mér leiðist ógurlega sjaldan en núna leiðist mér ógurlega mikið. Reyndar heyri ég í drengnum mínum í þessum orðum rituðum svo líklega hætti ég að hafa tíma til að láta mér leiðast innan skamms.
Ég fór að bloggflakka og lenti á Heiðu sem spurði um Gloria. Fann heimasíðu ítalska folans Umberto Tozzi sem söng þetta dásamlega lag. umbertotozzi.com
Þar er gefið tóndæmi að laginu. Örugglega hægt að finna það einhvers staðar í heilu lagi. En Umberto á fleiri þekkt lög. Tékkið á honum ef ykkur leiðist þó það lækni leiðann bara rétt meðan það stendur yfir. Stundum verður maður óþyrmilega var við takmarkanir netsins frábæra. Það hefði til dæmis verið miklu skemmtilegra ef Umberto hefði stokkið upp úr holu í gólfi mínu og dansað við mig meðan hann söng lögin sín eitt á eftir öðru. Ég held ég gæti þá enn verið í vímu.
Lífið er tómar takmarkanir. Og vonbrigði.
Nei, nei, ekki taka mark á mér. Marktaka mig. Taka mig. Alvarlega. Ég er ekki á barmi örvæntingar eða þunglyndis. Bókmenntalegar ýkjur allt saman hjá mér. Lofa því.
En síminn mætti hringja stundum. Og hvar er blessaður tölvupósturinn sem ég bíð eftir? Ótrúlega algengt að fá ekki svör við tölvupóstum. Ég svara um hæl þegar ég mögulega get ef bréfið óskar svars. Eða bréfritari þið skiljið mig...
En nú er Kári farinn að hvæsa og best að sinna honum. Var að frétta að ein vinkona mín sagði að bloggið mitt yki ekki áhuga barnlausra kvenna á að breyta því ástandi. Hm. Vonandi finnst fólki ég ekki vanrækja litlu rækjurnar. Og vanmeta þá gleði sem fylgir þeim. En ég þoli bara ekki þá væmni sem fylgir því að dásama börnin og barneignirnar. Og svo er ég ekki með neina stofnun til að hjálpa mér með þau og þá er þetta ekki alltaf tóm gleði. Ekki misskilja mig stelpur.
Búum til betri börn.
Gerumst nú metnaðargjörn.
Ota skal tota, hættum að nota skothelda getnaðarvörn.

Mér finnst að Selma ætti að syngja lag eftir Sverri Stormsker í næstu undankeppni og kannski vera í fötum úr Victoria's Secret. Og snerta sig. Æ, nú missti ég mig. Fyrirgefiði. Er ég oft að biðjast afsökunar hér á þessari síðu? Það er nefninlega frekar svona ótækt í mannlegum samskiptum er það ekki? Að vera sífellt að afsaka sig. Fyrirgefiði, nú skal ég hætta að segja fyrirgefiði. Æ, fyrirgefiði ég sagði það aftur...

Lifið í friði.

20.5.05

við eigum samt alltaf Björk

og hún verður ekki tekin frá okkur.

Islande ön púan.

Hér í Frakklandi hef ég ekki heyrt eitt orð um Júróvisjón. Ekki múkk. Bara séð rabbað um þetta á annarra íslenskra manna bloggsíðum. Aldrei heyrt lagið hennar Selmu sem var sigurstranglegt, dæmigert, formúla, frábært og ooo hún er bara svo sæt að það dugir.
Aðallega var mér og okkur hér búið að skiljast að það væri sigurstranglegt. Sigurstranglegast. Hvað ættum við að gera ef við ynnum? Strengja tjald yfir Þingvelli stakk ein góð vinkona mín sem hafði tröllatrú á Selmu, upp á. Hún var einmitt með mér í gær og ætluðum við að horfa á Selmu. En Selma var ekki sýnd. Þessi undankeppni er á dagskrá franska sjónvarpsins í kvöld klukkan korter gengin í tvö. Því var fylgst með á sms: Hún var frábær. Komst ekki áfram. Ha? Ertekki að plata? Neibb. Ahbú.

Við frönsku Íslendingarnir áttum bágt með okkur þegar vinkonan sat buguð af harmi við borðið. Og við ímyndum okkur að vinna verði felld niður í dag og að Íslendingar liggi fyrir með dregið fyrir alla glugga. Það er alltaf erfitt fyrir unglinga að fá á baukinn og var ekki búið að greina það að þjóðarsálin væri unglingur? Fýla í dag.
Eins gott að Íslendingar eru fljótir að gleyma. Þeir geta alveg rifjað upp öll 17. sætin og allt það í einhverjum gríntón og gersamlega búnir að gleyma sigurvímunni sem þjóðin kom sér í fyrir keppnirnar og vonbrigðunum sem fylgdu fallinu.

Við erum ekki einu sinni memm. Dottin út. Eins og í handboltanum, fótboltanum og á skíðunum. Við vitum hvað það er að detta út. Dettum í það á laugardagin og horfum EKKI á Júróvisjón.

Lifið í friði.

p.s. Er eitthvað varið í lagið?

18.5.05

jæja

Jæja, þá er ég komin aftur. Mér finnst sárt hversu fáir hafa gengið á eftir mér með að halda áfram. Þetta er vikuhlé og hefur ekki gerst síðan ég byrjaði. Held ég. En raunin er sú að ég er að misnota bloggvini mína og sinni þeim eingöngu þegar ég þarf sjálf á að halda. Þess á milli get ég lifað góðu lífi án þess að leiða hugann að tölvunni, hvað þá að bloggurum og öðru sliku. Fyrirgefið mér, en ég ákvað að vera hreinskilin. Takið þessu eða... farið...

Ég er enn á ný niðurbeygð kona eftir erfiða kveðjustund. Mamma fór aftur heim í dag. Nýbúin að kveðja vinina á Fjóni, og svo kemur vinkona á föstudag og svo mun ég verða að kveðja hana viku síðar. Maður er hættur að hlakka til að fá fólk því það er svo erfitt að kveðja. Minnir mig á ágætu kveðjusetninguna: Komið fljótt aftur, það er svo gaman þegar þið farið! Á ég þá að segja við vinina og fjölskylduna að nei, ég geti því miður ekki tekið við þeim í heimsókn því það er svo leiðinlegt þegar þau fara? Þetta er það sem ammríkanar kalla svo glæsilega: NO WIN SITUATION.
Mín vörn hefur yfirleitt verið að hafa kveðjustundir stuttar og stundum svindla ég og kveð ekki neitt. Einu sinni fór ég frá Íslandi án þess að segja bless við nokkurn mann og sendi svo kort úr Leifsstöð. Þá var maður duglegur enn að skrifa kort og bréf og sleikja frímerki. Ætli kynslóðin sem nú er að verða fullorðin hafi nokkrun tímann sleikt frímerki? Fyrir utan kannski þá örfáu sem eiga svona ofurduglegar mæður sem senda enn út jólakort.

Nú er komið fram yfir miðjan maí svo túristavertíðin fer að komast í fullan gang. Verð með hóp á föstudaginn og ætla að byrja með fastar ferðir í byrjun júní. Netsíðan er að taka gerbreytingum en er ennþá inni á geymslusvæði. Læt ykkur vita þegar hún verður tilbúin sem verður eftir að stúdentsprófum lýkur í Verslunarskólanum. Ótrúlegt að eitthvað tengt Versló skuli nú koma mér við allt í einu. Aldrei hefði ég trúað því. Fer um mann.

Ég er bara að blaðra og þvaðra út í loftið. Hef ég eitthvað gáfulegt að segja? Á ég að ræða um Evrópukosninguna? Ég myndi segja nei ef Frakkar spyrðu mig. En þeir spyrja mig ekki svo ég slepp. Langar samt að benda á skemmtilega hliðstæðu í sögunni: Þegar Frakkar fengu að tjá sig um Maastricht leit málið illa út, skoðanakannanir bentu til þess að Frakkar myndu segja nei. Þá var Mitterand lagður inn á sjúkrahús og skorinn upp við gallsteinum eða einhverju slíku. Frakkar sögðu já, þó mjótt hefði verið á munum. Nú lítur málið frekar illa út, Frakkar eru á báðum áttum, stundum aðeins já og stundum aðeins nei. Um daginn var Raffarin lagður inn á sjúkrahús og fór í litla aðgerð.
Nokkrum dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Maastricht kom í ljós að Mitterand hafði aldrei farið í neina aðgerð. Þetta var útpæld lygi til að hann fengi samúð þjóðarinnar. Nú er spennandi að sjá hvort Raffarin hafi farið á spítala eða verið falinn í sumarbústað í Meunadarnesie í nokkra daga til að afla ríkisstjórninni smá samúð.

Og lýkur nú þessu blaðri í bili.

Lifið í friði.

11.5.05

prufa

prufa

10.5.05

ditten og datten

Ég var loksins loksins að setja tengil á myndasíðu Uppglennings. Hann hefur verið að taka myndir af borginni minni í vetur og mæli ég með því að þið heimsækið síðuna hans. Dálítið naskur pilturinn.

Svo þarf ég áfram að pirra mig á listaumræðu hér á vefnum: Ég SKIL ekki hvers vegna bókmenntaáhugafólk vill hafa bókmenntaþætti í sjónvarpinu. Hvað í fjandanum hefur umræða um bók að gera í sjónvarpið? Þar eiga sjónlistirnar heima og bókmenntirnar blómstra, og fá að blómstra, í útvarpinu. Er það ekki annars? Eða er alltaf verið að fjalla um myndlist í útvarpinu líka? Það er reyndar alveg magnað (og hluti af því sem Einar uppglenningur (ég er ekki með hann á heilanum, þetta er alger tilviljun) benti á í kommentum við grein Gvendabrunns um listir að Íslendingar kunna ekki að horfa á list) að þeim finnst allt í lagi að megnið af íslensku sjónvarpsefni myndi sóma sér jafn vel í úbartinu. Engin krafa er gerð um sjónrænt gildi sjónvarpsefnis. Þarna sitja bara einhverjir karlar í jakkafötum sem fara þeim illa og ræða um pólitík eða annað skemmtilegt og allir eru bara sáttir við að svona fari íslensk dagskrárgerð að mestu leyti fram. Húmbúkk. Oh, hvað það er gott að eiga bloggsíðu til að pirra sig á þegar maður er svona aleinn heima með börnin.

Síðast en ekki sist eigið þið að lesa grein eftir Egil Helgason. Hann ber saman skipulag borgarinnar minnar sem er svo frábær og Reykjavíkur sem er svo ömurleg. Hana getið þið til dæmis fundið í gegnum uppglenningstengilinn minn í blogglistanum. Já, ókei, ég er með uppglenning á heilanum í dag. Eða er ofsótt af honum. Annað hvort. Eða hvorugt. Eða ykkur kemur það ekki við.

En það var meira: Ég fór ekki á Mugison í gær. Komst ekki því amman vildi ekki passa. Var að passa í tvo daga meðan ég fór og fannst nóg komið í bili. Kallinn var að vinna. Hef ekkert heyrt um tónleikana því enginn talar aldrei við mig. Halló! Er einhver þarna?

Og meira: Ég ætla að fara á opnun á sýningu Nínu Gauta í kvöld. Með börnin þar sem kallinn er að vinna og ég er í fýlu út í ömmuna og ætla ekki að spyrja aftur, fyrr en eftir nokkra daga.

Og eitt enn og nú er það það síðasta: Einu sinni fór ég í bíó á Íslandi og Egill Helgason var þar með konunni sinni. Magnað?

Lifið í friði.

9.5.05

tilbage

Það er gott og gaman að ferðast, en alltaf líka gott að koma heim. Ég gæti ekki verið nomade, verið sígauni á sífelldu ferðalagi. Það hljómar alltaf rómó og ég er ein af þeim sem segi næstum hvar sem ég kem: eigum við ekki að flytja hingað? og byrja strax að skoða fasteignir og hvar skólinn er og matvörubúðin. En með því sannast að ég sé mig alltaf fyrir mér með rót, þarf fasta punkta, dótið mitt, lyktina mína. Mér finnst hótel mjög skemmtilegt fyrirbrigði en verð alltaf leið á þeim eftir nokkra daga. Ég er ekki heimska heimaalda barnið því ég bý ekki í mínu heimalandi ef svo má orða það, heimalandið mitt er Ísland þó vissulega sé ég heima hjá mér í Frans.
Gaman að bulla út í loftið. Fékk smá panikkast þegar ég opnaði síðuna, vissi að ég hef sossum ekkert markvert að segja núna. Þreytt og kvefuð. Gluggaveður úti. Beint fyrir utan gluggann minn.
Danmörk er dásamlegt land. Fjónn er góð eyja. Danir eru blíðir og góðir. Optimisten, musik, spille og vandpibekaffe vex og dafnar.
Maðurinn minn sagði mér í gær að hann vilji ekki flytja norður á bóginn. Hann mun kannski einn góðan veðurdag flytja til Íslands ef ég fæ hysteríukast og finnst ég verða að fara þangað eins og ég hef séð gerast hjá svo mörgum sem voru svo heppnir að fæðast þar og fara svo. Eitthvað sem mér finnst AFAR ólíklegt í dag en hvað morgundagurinn ber í skauti sér veit enginn. En maðurinn minn segir að EF við förum að rífa rætur okkar úr þeim ljúfa potti sem við erum með þær í núna, verði það til að fara suður. Suður. Aldrei fór ég suður.
Hann fær alveg hljómgrunn hjá mér. Mig langar suður. Ég er sólarbarn og kuldaskræfa. Ég vil geta borðað úti undir berum himni og helst sofið þannig líka ef mig langar. Ég vil ekki þurfa að vera í þykkum fötum og mörgum. Léttur kjóll og sandalar er minn uppáhaldsbúningur.

Einhver maður sem ber útlenskt nafn sagði að best væri að selja einum fjárfesti Landsímann því það "eykur áhuga kaupenda og hámarkar verðið". Vá, ég þurfti að fara og fletta þessu upp þrisvar til að ná þessu niður hérna. Mér líður eins og tungumálið mitt sé stundum kínverska. Svona setningar eru a.m.k. kínverska fyrir mér. Hámarkar verðið. Verði þeim að því. Ég á minn síma. Hann er þráðlaus og fínn til síns brúks. Ég fór að ráði sölumannsins og keypti ódýrt módel því þau væru öll drasl sem endast í mesta lagi í þrjú ár, sama hvaða verð er á þeim. Ég á síma. Ligga ligga lá. Og hann er ekki til sölu. Og nú ætla ég að nota hann og hringja í nýbakaða móður sem á heima heima hjá sér og mér og heyra hvort hún fái svefn og annað.

Lifið í friði.

3.5.05

húsmæðraorlof

Ég er að fara í frí og ligga ligga lá.
Leiðin liggur til Fjóns, eins og síðast nema að nú fer ég ein í flugvél.
Ég ætla að láta heila mig og læra að gera mósaík. Svo ætla ég að borða grænmeti og annað góðgæti, fæ mér áreiðanlega eina rauða í brauði og drekk mikið af grænu tei sem er allra meina bót eins og sannaðist í dag þegar heilsan var léleg vegna góðrar kvöldstundar í gær sem teygðist aðeins of lengi úr. Það er erfitt að hitta fólk svona bara eitt kvöld og vita ekkert hvenær maður sér það næst. En það var svo sannarlega þreytunnar í dag virði að eyða kvöldinu með skartgripagerðarkonunni.
En ég vona að andinn komi yfir mig aftur í fríinu, hann er ekki hér núna og hefur ekki verið undanfarna daga. Einnig vona ég að ég sakni barna og kalls, er komin með samviskubit yfir því hvað ég hlakka til að fara frá þeim.

Lifið í friði.

2.5.05

geisp

AAAAAGGGGHHHH. Svona geispar dama í París þegar hún les greinar og hugleiðingar um sölu Símans. Hún er vissulega á móti því að Síminn verði seldur hæstbjóðanda, hélt einhvern veginn að það myndi aldrei gerast þó hún væri ein af mörgum sem urðu óþyrmilega varir við einkavæðinguna á sínum tíma, þá óbreyttur skrifstofumaður hjá þessari ágætu stofnun.

Mér leiðist allt þetta þras alveg ógurlega mikið og finnst miklu betra að ímynda mér bara heiminn án þess.

Heimur án valdatafls í kringum peninga.

Peninga. Eninga meninga. Súkkatí múkkatí. Eitthvað fyrir alla.

Mér er alveg sama hvort þið trúið því eða ekki að peningarnir munu fara.

Ég veit, og það er nóg fyrir mig. Ég veit.

Lifið í friði.