29.5.05

skamm skamm

Ég skammast mín alveg hrikalega fyrir síðustu færslur. Hvílíkt lélegar. Og hrikalegt að hafa fallið í þá freistni að taka þetta próf. Hvað ætli maðurinn minn segi? Ég þyrfti náttúrulega ekki að segja honum frá þessu því hann les ekki tungumálið mitt, en reynsla mín er sú að alltaf þegar ég ákveð að segja honum ekki eitthvað, segi ég honum það um leið og ég sé hann. Sem verður í fyrramálið ef ég næ að sofa í nótt. Vesalingurinn er fastur á kosningaskrifstofu að telja atkvæði. Já já já, nei nei nei... þetta hlýtur að vera erfið vinna. Ná ná ná, jei, jei, jei... Reyndar er hann ekki beint að telja, held ég. Hann vann á skrifstofunni í allan dag og er svo að fylla út í talningartöflur eða eitthvað svoleiðis. Og auðvitað er hlaðborð og rauðvín svo hann á nú ekkert alveg eins bágt og margir gætu haldið.
Nú er ég farin að teygja lopann því það er að líða að úrslitunum. Sex mínútur. Ætla að heyra útkomuna og henda mér svo í rúmið og sofna.
Það var mjög góð þáttaka í kosningunum. Ég bjóst nú ekki við því og er bjartsýnni á að útkoman verði sú sem ég vil að hún verði.
Horfði á FBI Portés disparues, sem er FBI mannhvarfadeildarþáttaröð sem er sýnd heima og ég hef séð bloggað um en get ómögulega munað hvað heitir á enskíslennsku. Enda skiptir það engu máli. Datt ofan í þessa þætti síðasta sumar og nú ætla þeir að fara að sýna þá aftur. Líta greinilega á þetta sem sumarefni sem er minna flott en að vera vetrarefni sjónvarpsefnislega séð. Ég sé þættina vitanlega með frönsku tali svo ég missi kannski af heilmiklu en þeir eru nú oft naskir með þessar þáttaraðir, vanda sig og þetta er ekki eins erfitt eins og að horfa á talsettar kvikmyndir.
Spennan er að magnast í sjónvarpinu. Ætli það hafi verið svona stemning á heimilunum á Íslandi eftir að Selma lauk sér af? Allir öskrandi og hlæjandi og hoppandi og sannfærðir um sigur. Er það ekki einmitt málið að maður verður að vera sannfærður um sigur til að gaman sé að svona keppnum eins og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og kosningu um evrópska kapítalíska stjórnarskrá.
NEI. Frakkar sögðu nei. Alveg eins og ég. Ég vann. Hoppa þó hvorki né hlæ. En ég lít á þetta sem enn eitt merki um að kapítalisminn er á niðurleið. Fólk er farið að afneita honum og vill finna aðrar lausnir. Bravó Frakkland! Áfram Holland eftir tvo, þrjá daga. Verst að búið er að semja þetta ólæsilega stórvirki og hefur eflaust kostað nógu mikið til að bjarga eins og einu Afríkuríki frá meiri niðurlægingu og ofsóknum.
En það má víst aldrei hugsa svona.
Það má heldur ekki pissa bak við hurð.

Lifið í friði.