9.5.05

tilbage

Það er gott og gaman að ferðast, en alltaf líka gott að koma heim. Ég gæti ekki verið nomade, verið sígauni á sífelldu ferðalagi. Það hljómar alltaf rómó og ég er ein af þeim sem segi næstum hvar sem ég kem: eigum við ekki að flytja hingað? og byrja strax að skoða fasteignir og hvar skólinn er og matvörubúðin. En með því sannast að ég sé mig alltaf fyrir mér með rót, þarf fasta punkta, dótið mitt, lyktina mína. Mér finnst hótel mjög skemmtilegt fyrirbrigði en verð alltaf leið á þeim eftir nokkra daga. Ég er ekki heimska heimaalda barnið því ég bý ekki í mínu heimalandi ef svo má orða það, heimalandið mitt er Ísland þó vissulega sé ég heima hjá mér í Frans.
Gaman að bulla út í loftið. Fékk smá panikkast þegar ég opnaði síðuna, vissi að ég hef sossum ekkert markvert að segja núna. Þreytt og kvefuð. Gluggaveður úti. Beint fyrir utan gluggann minn.
Danmörk er dásamlegt land. Fjónn er góð eyja. Danir eru blíðir og góðir. Optimisten, musik, spille og vandpibekaffe vex og dafnar.
Maðurinn minn sagði mér í gær að hann vilji ekki flytja norður á bóginn. Hann mun kannski einn góðan veðurdag flytja til Íslands ef ég fæ hysteríukast og finnst ég verða að fara þangað eins og ég hef séð gerast hjá svo mörgum sem voru svo heppnir að fæðast þar og fara svo. Eitthvað sem mér finnst AFAR ólíklegt í dag en hvað morgundagurinn ber í skauti sér veit enginn. En maðurinn minn segir að EF við förum að rífa rætur okkar úr þeim ljúfa potti sem við erum með þær í núna, verði það til að fara suður. Suður. Aldrei fór ég suður.
Hann fær alveg hljómgrunn hjá mér. Mig langar suður. Ég er sólarbarn og kuldaskræfa. Ég vil geta borðað úti undir berum himni og helst sofið þannig líka ef mig langar. Ég vil ekki þurfa að vera í þykkum fötum og mörgum. Léttur kjóll og sandalar er minn uppáhaldsbúningur.

Einhver maður sem ber útlenskt nafn sagði að best væri að selja einum fjárfesti Landsímann því það "eykur áhuga kaupenda og hámarkar verðið". Vá, ég þurfti að fara og fletta þessu upp þrisvar til að ná þessu niður hérna. Mér líður eins og tungumálið mitt sé stundum kínverska. Svona setningar eru a.m.k. kínverska fyrir mér. Hámarkar verðið. Verði þeim að því. Ég á minn síma. Hann er þráðlaus og fínn til síns brúks. Ég fór að ráði sölumannsins og keypti ódýrt módel því þau væru öll drasl sem endast í mesta lagi í þrjú ár, sama hvaða verð er á þeim. Ég á síma. Ligga ligga lá. Og hann er ekki til sölu. Og nú ætla ég að nota hann og hringja í nýbakaða móður sem á heima heima hjá sér og mér og heyra hvort hún fái svefn og annað.

Lifið í friði.