26.5.05

ný og betri síða

Heimasíða leiðsögumannsins Kristínar Jónsdóttur hefur tekið miklum breytingum. Fyrirsögnin er hlekkur.
Fastar ferðir byrja föstudaginn 3. júní. Hlakka mikið mikið til. Hef fengið nokkra hópa í vor og voru þeir hver öðrum betri og skemmtilegri. Það er gaman að vera að sýna aldagamla kirkju og byrja óforvarendis að ræða vantrú Þórbergs og efasemdir Laxness.
Og ekki lítið gaman að finna afabarn mannsins sem átti harmonikkustaðinn sem Íslendingur rambaði inn á 1957 og fann svo aftur 1988 og sami harmonikkuleikarinn tók á móti glöðum Íslendingnum sem dró efasemdarfullan hóp á eftir sér. Með hjálp farsímatækninnar var farið eftir leiðbeiningum frá Húsavík. Staðurinn er þarna enn þó að harmonikkuleikarinn sé farinn. Þannig er lífið. Skrýtið og skemmtilegt.

Hér er sumarið komið með trukki og dýfu. 30 stig í dag og allir sveittir og latir. Best að leggjast upp í sófa með "Sögu Frakklands fyrir hálfvita" eða hvað sem þessi flokkur bóka heitir á íslensku... hm... líklega ekki gefið út á íslensku. Hvað heitir þetta aftur á ensku?

Lifið í friði.