18.5.05

jæja

Jæja, þá er ég komin aftur. Mér finnst sárt hversu fáir hafa gengið á eftir mér með að halda áfram. Þetta er vikuhlé og hefur ekki gerst síðan ég byrjaði. Held ég. En raunin er sú að ég er að misnota bloggvini mína og sinni þeim eingöngu þegar ég þarf sjálf á að halda. Þess á milli get ég lifað góðu lífi án þess að leiða hugann að tölvunni, hvað þá að bloggurum og öðru sliku. Fyrirgefið mér, en ég ákvað að vera hreinskilin. Takið þessu eða... farið...

Ég er enn á ný niðurbeygð kona eftir erfiða kveðjustund. Mamma fór aftur heim í dag. Nýbúin að kveðja vinina á Fjóni, og svo kemur vinkona á föstudag og svo mun ég verða að kveðja hana viku síðar. Maður er hættur að hlakka til að fá fólk því það er svo erfitt að kveðja. Minnir mig á ágætu kveðjusetninguna: Komið fljótt aftur, það er svo gaman þegar þið farið! Á ég þá að segja við vinina og fjölskylduna að nei, ég geti því miður ekki tekið við þeim í heimsókn því það er svo leiðinlegt þegar þau fara? Þetta er það sem ammríkanar kalla svo glæsilega: NO WIN SITUATION.
Mín vörn hefur yfirleitt verið að hafa kveðjustundir stuttar og stundum svindla ég og kveð ekki neitt. Einu sinni fór ég frá Íslandi án þess að segja bless við nokkurn mann og sendi svo kort úr Leifsstöð. Þá var maður duglegur enn að skrifa kort og bréf og sleikja frímerki. Ætli kynslóðin sem nú er að verða fullorðin hafi nokkrun tímann sleikt frímerki? Fyrir utan kannski þá örfáu sem eiga svona ofurduglegar mæður sem senda enn út jólakort.

Nú er komið fram yfir miðjan maí svo túristavertíðin fer að komast í fullan gang. Verð með hóp á föstudaginn og ætla að byrja með fastar ferðir í byrjun júní. Netsíðan er að taka gerbreytingum en er ennþá inni á geymslusvæði. Læt ykkur vita þegar hún verður tilbúin sem verður eftir að stúdentsprófum lýkur í Verslunarskólanum. Ótrúlegt að eitthvað tengt Versló skuli nú koma mér við allt í einu. Aldrei hefði ég trúað því. Fer um mann.

Ég er bara að blaðra og þvaðra út í loftið. Hef ég eitthvað gáfulegt að segja? Á ég að ræða um Evrópukosninguna? Ég myndi segja nei ef Frakkar spyrðu mig. En þeir spyrja mig ekki svo ég slepp. Langar samt að benda á skemmtilega hliðstæðu í sögunni: Þegar Frakkar fengu að tjá sig um Maastricht leit málið illa út, skoðanakannanir bentu til þess að Frakkar myndu segja nei. Þá var Mitterand lagður inn á sjúkrahús og skorinn upp við gallsteinum eða einhverju slíku. Frakkar sögðu já, þó mjótt hefði verið á munum. Nú lítur málið frekar illa út, Frakkar eru á báðum áttum, stundum aðeins já og stundum aðeins nei. Um daginn var Raffarin lagður inn á sjúkrahús og fór í litla aðgerð.
Nokkrum dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Maastricht kom í ljós að Mitterand hafði aldrei farið í neina aðgerð. Þetta var útpæld lygi til að hann fengi samúð þjóðarinnar. Nú er spennandi að sjá hvort Raffarin hafi farið á spítala eða verið falinn í sumarbústað í Meunadarnesie í nokkra daga til að afla ríkisstjórninni smá samúð.

Og lýkur nú þessu blaðri í bili.

Lifið í friði.