30.5.05

Evrópa og stjórnarskrá hennar

Ég ætla að svara síðustu athugasemd Meó með nýrri færslu, það er svo margt sem ég þarf að koma að þó að ekki megi gleyma að ég fylgdist afskaplega lítið með kosningabaráttunni og umræðum þar sem ég er eiginlega hætt að horfa á sjónvarp. Ég horfði þó spennt og stillt á hádegisfréttirnar núna og er því með nokkra punkta fyrir þá sem hafa áhuga.

Fyrst er hægt að líta á skiptingu atkvæða:
Borgir sögðu JÁ
Sveitin segir NEI
Vinstri flokkar sögðu NEI þó að Sósíalistar (sem er eiginlega blanda af Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum ef ég fer út í að þýða og staðfæra) hafi boðað JÁ. Í þeim flokki fór þetta 50-50, kannski aðeins meira JÁ. Allir aðrir vinstri flokkar (Grænir og kommúnistar) sögðu strax NEI og kusu eftir því.
Hægri flokkarnir hefðbundnu sögðu JÁ eins og þeim var sagt að gera og öfga hægri flokkarnir þrír sögðu NEI eins og þeim var sagt að gera.

Af þessu má draga nokkrar ályktanir:
Chirac og stjórnin hans töpuðu. En Chirac heldur þó fylgi flokksmanna sinna öfugt við Sósíalista sem töpuðu á báðum vígstöðvum og þurfa enn frekar að stokka upp hjá sér og finna sér góða Ingibjörgu Sólrúnu til að taka flokkinn í gegn. Chirac átti Raffarin (ömurlegan forsætisráðherra) í rassvasa og mun sparka honum og þykjast þar með vera búinn að taka til. Hlutur sem hann átti að gera fyrir löngu síðan því stjórnin hefur beðið afhroð í sveitastjórnarkosningum og Evrópukosningum meðan Raffarin hefur "ríkt". Aðaltitringurinn er að vita hvort hann gerir Sarkozy að forsætisráðherra. Sarkó er efni í heilan pistil sem ég er þó ekki viss um að hann eigi inni hjá mér.

Verkafólk og bændur, hinar vinnandi stéttir, sigruðu. Ég var langhræddust um að lítil þáttaka yrði í dreifbýlinu og að þannig myndi JÁið sigra en örvænting og reiði er orðin of stór hluti af daglegu lífi fólksins í landinu, fólk er búið að fá nóg og dreif sig á kjörstað til að sýna það. Borgarbúar eru mun fjær greinilegum afleiðingum heimsvæðingar Markaðsins og líður mun betur og treystir því flokkstjórum til að segja sér hvað á að kjósa. Hér á ég við að heimsvæðingin felur í sér flutning verksmiðja til landa með ódýrara vinnuafl. Borgarbúinn græðir á lægra vöruverði og er skítsama um að helmingur þjóðarinnar er atvinnulaus eða sér fram á að verða það mjög fljótlega. Í stjórnarskránni voru undarlega skýjuð ákvæði um að mega greiða láglaunafólki samkvæmt taxta þeirra eigin landa þó þeir ynnu í ríkari löndum, þ.e.a.s. að franskt fyrirtæki gæti ráðið pólskan pípulagningamann á pólskum taxta. En þetta var þó mjög umdeilt eins og margt í þessari stjórnarskrá sem líkist Biblíunni að því leyti til að hver og einn getur túlkað hana að vild. Sem í sjálfu sér hefði dugað eitt og sér til að fella hana, fólk var ekki tilbúið til að skrifa undir óskiljanlegan samning.

Það er enn ástæða til að vera skíthræddur við öfga hægri flokkana. Hvað myndi gerast ef þeir sameinuðust á ný? Alveg eins og vinstri flokkarnir, er það einkenni öfga hægri flokka að eiga í illdeilum innbyrðis og það hefur bjargað Frakklandi frá því að þeir nái of langt. En þeir eru viðbjóðslega sterkir núna og það er hreint með ólíkindum að svona flokkar nái slíku fylgi í Frakklandi á meðan svona flokkar eru varla til í öðrum Evrópuríkjum. Þ.e.a.s. að alls staðar er illgresi en það nær ekki að blómstra jafn sterkt í öðrum stórríkjum. (Danmörk er sem betur fer lítið land.) Nú ganga þeir um breiðir í baki og brosandi og segjast hlakka til að takast á við Chirac 2007. Frekar óhuggulegt og virkilega VIRKILEGA nauðsynlegt að Sósíalistar taki sig saman í andlitinu og finni lausnir á vandamálum sínum.

Vandamál Sósíalistanna er fyrst og fremst að þeir eru orðnir frjálshyggjumenn og sýna það best með því að boða JÁ við þessari stjórnarskrá. Þ.e.a.s. stjórn Sósíalistaflokksins er orðin frjálshyggjuskítapakk. Flokksfélagar sýna skýrt í verki að þeir vilja ekki taka mark á stjórn flokksins lengur. Þeir eiga fullt af góðu fólki sem hægt er að treysta betur en François Hollande sem ríður nú þar rækjum (sem er skemmtileg afbökun á að ráða ríkjum).

Niðurstaða alls þessa er líklega helst sú að fólk er orðið langþreytt á ofuráherslu á Markaðinn og frjálshyggjuna. Það þarf að fara að huga að öðrum og mikilvægari málefnum. Frakkar eru hræddir, það er verið að breyta öllu, eftirlaunakerfinu, sjúkratryggingakerfinu, spítalar eru yfirfullir og erfitt að fá góða heilbrigðisþjónustu sem verður dýrari með hverju árinu, fólki líður virkilega illa. Og ráðamenn einblína stöðugt á Markaðinn, framleiðslu og eftirspurn, hagræðingu og skattabreytingar. Þetta eru stef og tilbrigði sem fólk er orðið hundleitt á.
Er ekki kominn tími til að setjast niður og huga að Mannneskjunni sjálfri? Er velferð okkar falin í því að eiga bankareikning en enga heilsu til að kaupa drasl frá Kína? Viljum við ekki frekar vita af því að yfirmönnum okkar er umhugað um heilsu okkar og vellíðan, burtséð frá peningadrasli? Eitt af ákvæðunum í stjórnarskránni gekk út á að ef borgarstyrjöld brýst út í einu landanna skal fyrst huga að því að vernda MARKAÐI hinna aðildarríkjanna! Ekki múkk um líf og limi vesalings fórnarlambanna. Peningar peningar peningar. Út á það gekk þessi samningur og Frakkar ákváðu með glæsibrag að skrifa ekki undir. Finnið eitthvað annað!

Ímyndaðu þér heiminn án landamæra. Án himins og jarðar. Án vítis og paradísar.
Þú mátt kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein.
Einn daginn muntu ganga í lið með mér og heimurinn verður einn.
Kannski var John Lennon Nostradamus?
Eða Ég?

Lifið í friði.