30.4.07

ekki hlýða manninum sínum daglega

Í gær ráðlagði Arnaud mér að kaupa helgarmiða í Versali því ég sá á netinu að verð hafði hækkað. Ég var mjög ánægð með að hafa ekki tekið neina áhættu, hef aldrei vitað aðra eins mannmergð og var þar í gær. Við flugum inn framhjá röðinni.

Síðar þann dag fór að rigna í fyrsta sinn eftir sól og hita síðustu vikna. Ég hafði gripið regnstakkinn minn með, aftur að ráði mannsins míns.

Það borgar sig að hlýða. Stundum.

Í morgun fórum við svo á boðaðan fund hjá bankaráðgjafafjármálafulltrúaaðilanum okkar. Ég nennti ekki að fara, taldi okkur ekki eiga neitt erindi við hann, enda höfum við hvorki unnið í lottó né stofnað til skulda, við tjillum bara þarna í kringum núllpúnktinn, jú, víst erum við búin að fá 8 evrur í vexti af þessum sparireikningi sem á að tryggja okkur rólegt ævikvöld (þ.e.a.s. það verða vín og villtir piltar, bara rólegt fjárhagslega sko).
Ég hlýddi manninum mínum og kom með.
Ráðgjafinn, sem er besta skinn, rauðhærður og fer fitnandi, heitir M. Viking og man alltaf eftir því að ég er íslensk og að Arnaud selur bækur, hafði nákvæmlega ekkert við okkur að tala. Þetta eru markaðsblöffarar sem hringja og láta mann samþykkja tíma, krakkarnir þar fá kannski prósentur af öllum stefnumótum sem þeim tekst að narra fólk á. En þó við hefðum ekkert að ræða tókst honum samt að halda okkur í 40 stiga heitri skrifstofunni sinni með vælandi viftu og másandi tölvu (hver þolir PC?) í rúm þrjú korter.

Það borgar sig ekki að hlýða. Stundum.

Lifið í friði.

Leitað að brúðhjónum

Ung frönsk kona sem er að skrifa doktorsritgerð um fiskveiðistjórnun á Íslandi hefur fengið aukavinnu fyrir einhvers konar Þjóðminjasafn í Marseille sem ætlar að halda sýningu um evrópskar brúðkaupshefðir. Hún þarf því að finna verðandi brúðhjón sem ætla að gifta sig milli 15. júní og loka september. Það má vera hefðbundið eða óhefðbundið brúðkaup en þarf þó að vera lúterskt, haldið hvar sem er á landinu og brúðhjónin mega vera á hvaða aldri sem er. Það eina sem þau þurfa að samþykkja er að veita viðtal við konuna um veisluvenjur og kirkjuvenjur á Íslandi, sem og einhverjir fleiri í kringum þau, ættingjar, veislustjórar, svaramenn... Svo þarf hún að fá að vera viðstödd sjálfa athöfnina og veisluna með myndavél en lofar að láta brúðhjónin og gesti samt alveg í friði.
Þessi kona talar íslensku og er afskaplega geðug og klár að mínu mati.

Ég get komið skilaboðum á framfæri. Setjið ábendingar í athugasemdakerfið eða sendið mér póst, meilið mitt á að sjást hérna einhvers staðar og sést þá a.m.k. á www.parisardaman.com

Lifið í friði.

Mánudagur ekki til mæðu

Í dag ætla ég nákvæmlega eingöngu að gera hluti sem ég ÞARF að gera:

Fara á fund með einhverju fjármálahálfvita í banka mannsins míns (maðurinn minn er að pína mig í þetta og þar sem það reyndist svo farsælt að hlýða honum í gær mun ég halda því áfram í dag).

Senda tölvupósta til nokkurra viðskiptalega mikilvægra manna sem ég hef trassað að gera í allt of langan tíma.

Renna hægt og rólega í gegnum tölvupósta síðustu vikna til að athuga hvort ég hafi skilið einhver bréf eftir ósvöruð. Henda þá í leiðinni út bréfum sem ekki þarf að geyma.

Reyna að ná í mann sem á lítið sveitagistiheimili rétt fyrir utan París. Hvað er þetta með fólk sem svarar ekki í síma dögum saman?

Hringja í vinkonu sem bað um að ég hringdi í hana í gær en ég datt niður sofandi ofan í kvöldmatinn svo ekkert varð úr símtölum.

Fylla út nokkur eyðublöð fyrir sjúkratryggingarnar, ég hef nýlega þróað í mér eyðublaðafælni, líklega of langt síðan ég vann hjá Fóstri og Slíma og las úr illa útfylltum eyðublöðum daginn út og daginn inn milli þess sem ég hlustaði á fólk skammast yfir lélegu fyrirtæki eða drakk ódrekkandi kaffi og hlustaði á tuðið í samstarfsfélögum og tuðaði svo sjálf.

Önnur verkefni væru að kaupa vask á baðið ásamt mubblu undir hann. En það verður að bíða betri tíma.
Ég er örþreytt eftir hlaup og læti síðustu vikna. Mér er illt í hnénu.

Mig langar ógurlega til að elda góðan mat í kvöld. Skera niður slatta af grænmeti og hakka hvítlauk. Hugmyndir? Rétturinn verður að ilma vel.

Segó vinnur. Segó er miklu fallegri en Sarkó, er það ekki alltaf kostur í svona kosningabaráttu?

Lifið í friði.

28.4.07

jiminn

hvað hún á sko eftir að sigra þessar kosningar. Rétt vika núna í þær. Ségolène Royal, forseti Frakklands.

Lifið í friði.

27.4.07

veður

Var ég búin að segja ykkur að veðrið heldur áfram að vera frábært? Nei, en ég er þá alla vega búin að því núna. Það eru flogið svo til daglega hingað í tæpar 30 gráðurnar og sólskinið. Drífa sig.
Reyndar er ég ansi hrædd um að nú þurfi að fá smá skúr ef flóran á að lifa áfram.
Bílstjórabrúnkan hefur alveg lagast og fallegi gulbrúni liturinn dreifist nú nokkuð jafn á handleggi, andlit og háls. Fæturnir halda áfram að vera hvítir eitthvað áfram, til að ná lit á þá þarf ég að liggja í sólbaði og maka smjöri á húðina. Og það dettur mér ekki í hug að gera. Knútur Björnsson sem saumaði einu sinni húð á mig sagði að það væru eingöngu apaheilar sem gerðu húð sinni það að liggja í sólbaði. Ég er ekki apaheili. Ónei.

Lífið er fallegt og Ségolène sigrar í forsetakosningunum eftir rúma viku. Ójá.

Lifið í friði.

26.4.07

á ég?

Á ég að vera stolt af sögu Íslands? Mér finnst ég bara algerlega hafa eigið val um það. Mér líður alls ekki eins og ég þurfi að vera mjög stolt af fortíðinni. Hvað með Drekkingarhyl?
Jú, jú, ég er stolt af sumu og þakka oft fyrir það að koma frá litlu krúttlandi í fjarska. Mér finnst í raun leiðtt hvað við rembumst við að hætta að vera krútt, hvað okkur langar að verða stór. Íraksstríðsstuðningur er allt of mikið ókrútt fyrir minn smekk. Er ég vondur Íslendingur vegna þess að ég er á móti núverandi ríkisstjórnarstefnu í flestum, ef ekki öllum, málum? Nútímasagan er bara ekki að gera það fyrir mig. Er ég þá andíslensk?

Og hvaða fjandans vesen er þetta svo á ÞJÓÐkirkjunni? Ef ég væri ekki löngu búin að því myndi ég finna mig knúna til að segja mig úr henni. Er ekki kominn tími á aðskilnað ríkis og kirkju þarna uppi á krúttlandi?

Ségolène verður áreiðanlega næsti forseti Frakklands. Hún burstar ekki Sarkó en hún mer út sigurinn.

Lifið í friði.

25.4.07

vondi kallinn

Sarkó var í sjónvarpinu mínu í kvöld að segja að hann hefði ekkert á móti innflytjendum. Bara innflytjendum sem kunna ekki frönsku og eru ekki stoltir af sögu Frakklands.

Segó verður næsti forsetinn okkar. Það er engin spurning. La Générale Royale.

Lifið í friði.

24.4.07

bara rétt að minna á

Ségolène verður næsti forseti Frakklands.

Lifið í friði.

22.4.07

það var fleira

sem mig langaði til að setja hingað inn en ekkert kemur

allt hringsnýst í mínum fagra kolli

ég þarf endilega að smala

fólki í kampavín ef konan slær karlinn út í næstu umferð ekki bara því hún er kona heldur líka vegna þess að hún er þrátt fyrir allt sósíalisti og að með henni mun koma flokkur fólks í Elysée-höllina sem ráðgjafar og talsmenn og það fólk er líka sósíalistar

Það hlýtur að vera betra að fá sósíalista þó hann sé svolítið frjálslyndur fyrir annarra sósíalista smekk heldur en að fá Sarkozy með sína drauma um að henda rumpulýðnum sem truflar hann við að maka eigin krók, úr landi.

En svo er líka eitthvað unaðslega skemmtilegt við að ímynda sér forsetann hér sem konu. Madame la Présidente? Madame le Président? La générale Royale?

Ef ég skrifa þetta á síðuna mína á hverjum degi í tvær vikur, haldið þið að það auki líkurnar á sigri hennar?

Annars er ég búin að eyða svo til öllum tímanum síðasta færsla var skrifuð í blogglestur. Mikið sem ég hafði dregist aftur úr. Skemmtilegur rúntur og tel ég kvöldinu betur varið en að horfa á frambjóðendur eða talsmenn frambjóðenda eða stjórnmálafræðinga segja ekki neitt í míkrófóna. Veit líka að á morgun get ég horft á zapping og séð hápunkta ef einhverjir voru.

Af hverju skrifaði ég fyrst hápúnkta?

Við blogglesturinn rifjaðist upp fyrir mér í gegnum pælingar hjá Hryssu að einhvern tímann ætlaði ég að halda stóra brúðkaupsveislu. Það var reyndar áður en ég kynntist manninum mínum en ég var sem sagt að láta mig dreyma um stórt brúðkaup með risaveislu.
Svo fór ég að spá í það að ég myndi ekki geta boðið öllum sem ég myndi samt ætlast til að kæmu í jarðaförina mína eða þið skiljið hvað ég meina, ég ætlast ekki til eins né neins af einum né neinum heldur frekar ímynda ég mér að þessi eða hinn kæmi í jarðaförina mína létist ég fyrir aldur fram frá ungum börnum og eiginmanni. Mér varð einhvern veginn svo um og ó við þessa tilhugsun að brúðkaupið mitt endaði með að fara fram næstum því í kyrrþey.
Ég hef ekki gert erfðaskrá þannig að ég hef ekki enn óskað eftir jarðaför í kyrrþey enda vil ég að fólk safnist saman, að það verði umferðarhnútar og kannski brjótist út einhvers konar brjálæði í líkingu við það sem gerðist þegar Zola (eða var það Hugo? viðbætur að morgni: Já, það var víst Victor Hugo) dó en þá trylltist París, fólk gerðist ofurölvi og vændiskonur gáfu drætti hægri vinstri.
Nú eða þá að útförin mín verði með konunglegu og afskaplega hátíðlegu og langdregnu ívafi og verði sjónvarpað beint og öryrkjarnir sitji með viskustykki í stað vasaklúta horfandi á.

Svo vil ég koma því á framfæri eftir lestur Reykvískrar sápuóperudrottningar að ég sæti ávallt færis á að gefa bílastæðamiða sem á tíma eftir, að brosa framan í manneskju sem virðist sérlega grá og guggin, að róa barn sem grenjar með því að gretta mig til þess í laumi, að gefa metrómiðann minn sem gildir í tvo tíma ef ég sé einhvern stökkva yfir hliðið þegar ég er á leið út, að gefa fólki skiptimynt í búðinni þegar kassadaman er í vandræðum með að gefa til baka og bara alls konar svona litla greiða og ég trúi því statt og stöðugt að ég fái þetta til baka í einhverju formi og ég fæ alveg hrikalega, HRIKALEGA mikið kikk út úr svona góðverkum þó smá séu. Stærðin skiptir nefninlega ekki alltaf máli.

Lifið í friði.

Sego-Sarko

Helvítis fauskurinn fékk 29,6 prósent núna í fyrstu tölum, Segolène 25,1. Nú þarf hún að taka á honum stóra sínum. Kannski er einmitt bara ágætt að hann fái svona miklu betri tölur en hún, þá brjóta þeir sem finnst hún ekki nægilega langt til vinstri kannski odd af oflæti sínu og mæta á kjörstað til að koma a.m.k. í veg fyrir að ríkið fari of langt til hægri.
Þess er skemmst að minnast að þegar Chiraq fagnaði sigri sínum gegn Le Pen fyrir fimm árum, voru það helst krakkar af arabískum uppruna sem hylltu hann á Place de la République. Það sést vel í upptökum að konan hans vissi ekki alveg hvernig hún átti að vera í framan.

Lifið í friði.

19.4.07

nei sko og svo

Auðvitað ætlið þið öll að drífa ykkur í Háskólabíó að sjá CHANGES um helgina.

Ef þið vitið ekki um hvað ég er að tala eruð þið alveg úti að aka.

Farið á Gvendarbrunn í bloggtenglunum og sjá!

Lifið í friði.

Sporin í hökuna eru alveg til friðs. Þetta verður áreiðanlega afskaplega kvenlega karlmannlegt á drengnum.
Einhvern tímann skrifa ég kannski um lætin á slysavarðstofunum hérna en núna er ég svona um það bil að leka niður úr þreytu eftir stökk milli sjónvarpsliðs sem filmar úthverfin sem mig hefur lengi langað til að heimsækja og gat loksins farið í í fylgd tveggja íslenskra karlmanna og hóps af ferðalöngum í árshátíðarferð í sumrinu í París.

Clichy-sous-bois reyndist (eins og mig grunaði) hið rólegasta og besta hverfi. Gaman að komast loksins í þetta ógurlega hverfi sem hefur verið gert að stríðssvæði í pressunni eftir ólætin þar í nóvember 2005. Ekki beint kannski staðurinn sem ég myndi velja mér að búa á, en aðallega og kannski eingöngu vegna fjarlægðar frá París. Væri alveg til í að eiga einbýlishús með garði í líkingu við það sem hýsir félagasamtökin ACLEFEU sem hafa brýnt fyrir unga fólkinu að innrita sig á kjörskrá og mæta á kjörstað, að skilja það að leiðin að hjarta pólitíkusanna liggi í gegnum kosningaréttinn.
Eftir viðtalið við talsmann samtakanna hef ég enn og aftur verið að spá í það hvort lýðræðið sé nokkuð til, hvort það sé ekki helber lygi að þetta unga fólk hafi virkilega val. Val um hvað? Ségo? Sarkó? Bayrou? Le Pen? Hvað eiga þau að kjósa? Og svo hef ég líka spáð í það hvort kosningar á litla Íslandinu séu ekki bara dúkkuleikur. En ég hef ekki komist að neinum alvöru niðurstöðum.

AND NOW FOR SOMETHING COMPLETELY DIFFERENT:
Varðandi komment hér neðar um brúnku, tanorexíu o.fl. Er ég að spá í orð eins og brúnkusælni og brúnkufælni. Er það ekki málið?

ET ENCORE DES CHOSES DIFFERENTS:
Mér finnst það sérlega sætt að sjá alla óska öllum gleðilegs sumars á Frónsbloggum vitandi af næturfrosti og þvíumlíku með það á tilfinningunni að hér í París sé komið fram á mitt sumar. En ég óska öllum gleðilegs og góðs íslensks sumars, sérstaklega óska ég ykkur (og mér um leið) að júlímánuður verði ljúfur, sólríkur og fallegur.

Lifið í friði.

18.4.07

Fyrstu sporin

Kári: 2 undir hökuna.

Lifið í friði.

15.4.07

falleg brúnka - gamlir kjánar - skemmtilegt fólk

Veðrið (þið verðið að fyrirgefa, það er bara ekki annað hægt en að tala um þetta) er með besta móti. Hefur ekki mælst hærri hiti í apríl síðan 1949. Útivera gerir manni gott, sólkremið verndar en húðin tekur samt á sig gullinn lit.
Ég verð ekki mjög brún en verð samt "fallega brún" eða það sagði mamma mín alltaf þegar við systur bárum okkur saman og hún var komin með bláa slikju í brúnkuna, svo dökk var hún og ég leit (að mér fannst) út fyrir að vera hálflasin við hliðina á henni. Fallega brún. Ég þoldi ekki þessa huggun og vildi bara vera svertingi eins og systirin.
En núna er ég alsæl með minn gullna lit, það er alveg ótrúlegt að ég held að það sé rétt hjá Þórdísi sem var minnt á það á dögunum að hún hafði einhvern tímann sagt að brúnt spik væri skárra en hvítt spik. Mér líður a.m.k. betur með sjálfa mig.

Í gær gekk ég um Mýrina með kórinn Stöku. Þau eru yndisleg, bæði syngja vel og eru skemmtilegt fólk, ætli það fari alltaf saman? Tónleikarnir á föstudag gengu vel, það safnaðist bara slatti af fólki. Ég hef ekkert frétt hvernig gekk svo í gær en ég treysti mér ekki til að fara aftur, mér er ennþá illt í blessuðu hnénu mínu og er farin að standa mig að því að bölva sjúkraþjálfaranum mínum sem ég elskaði svo mikið. Bæði lagar hann ekki á mér hnéð og svo byrjaði hann á dögunum að þvaðra um það hvað allt væri á niðurleið hér í Frakklandi, börnin illa upp alin o.s.frv. Svei mér ef ég greindi ekki kynþáttahatur eða bara almennt mannhatur í ræðunni, honum líst a.m.k. illa á alla þessa asísku sem "flykkjast í hverfið okkar", ég nennti ekki að segja honum að þær íbúðir sem hafa selst í okkar götu undanfarið hafa verið keyptar af svipuðu fólki og minni fjölskyldu, hvítt fólk með börn. Fólk af asískum uppruna er í nokkrum íbúðum hérna í götunni en þau keyptu líklega áður en verðið fór að rjúka upp og ég verð að segja það að fyrir utan ungu drengina á 143 sem skilja oft ruslið sitt eftir úti á gangstétt í staðinn fyrir að fara með það í tunnuna, er varla hægt að biðja um betri nágranna, róleg, kurteis og hlédræg sem þau eru flest. En ég nenni eiginlega aldrei að svara fólki sem byrjar að þvaðra svona. Ég fyllist bara þreytu. Þreytu á heimsku og þröngsýni. Og verð líklega hálfstíf í framan því ég veit aldrei hvort ég á að hlæja eða gráta. Svo kinka ég bara kolli eða hristi höfuðið og kveð eins fljótt og ég get. Nenni ekki að reyna að breyta gömlum kjánum.
En mér er sem sagt ennþá illt í hnénu.
Samt ætla ég að taka annan túr í dag með konu af blogginu.
Svo fer ég kannski út að borða í kvöld en bara kannski kannski kannski. Annars ligg ég uppi í sófa með manninum mínum og horfi á FBI Portés disparus, eða Without a trace eins og það heitir á frummannamálinu.

Lifið í friði.

12.4.07

búin

að kjósa. Kaus rétt. Gerið það líka, þið öll hin.

Við fórum saman fjórar Parísardömur og líklega voru bara tvær okkar enn inni á kjörskrá. Hinar tvær eru alls ekki vissar. Ég varð sem sagt að hinu mesta fóli fyrir að hafa vitað um þessa undarlegu reglu að láta fólk detta út af kjörskrá eftir ákveðinn árafjölda í útlöndum og ekki látið þær vita. Ég er sko "big mama" kvennanna hérna og á að vita allt og láta vita því ég fylgist svo vel með, les blogg og vefmiðla og svona. Þær eru meira bara svona blaður á MSN stundum. Ekkert vit í því.
Þessi regla er sérstaklega fáránleg t.d. þegar hugsað er út í að þegar gagnagrunnur með sjúkraskýrslum var settur á laggirnar þurfti að strika sig út, annars fór maður sjálfkrafa inn. Ég get lofað ykkur því að margir Íslendingar búsettir erlendis lentu í þessum gagnagrunni án þess að vilja það og án þess að vita um það.

Jamm. Og nú er ég sem sagt búin að neyta réttar míns eina ferðina enn og finn fyrir sama blessaða biturleikanum og vanalega. Er lýðræðið til? Mun ný ríkisstjórn breyta einhverju? Gerist eitthvað nýtt? Verður ljós?
Ég er hrikalega stressuð yfir þessum kosningum. Næstum jafn stressuð og ég er yfir forsetakosningunum hér sem eru þó alveg að fara með mig. Ég er svo hrædd um að upp úr 1. umferð fari Le Pen og Sarkó að ég er farin að fá martraðir á næturnar yfir því. Ég er alveg viss um það núna að mætti ég kjósa, kysi ég Segolène Royal. Hún er skásti kosturinn. Ekki fullkomin, en langskást. Og verður náttúrulega umkringd góðum sósíalistum á valdastóli.

Veðurfréttir: Hér er a.m.k. 23 stiga hiti og enn glampandi sól þvert á fyrri spár. Helgin verður líklega öll svona.

Og svo að léttari málum: STAKA syngur í París á morgun og hinn og hinn, sjá nánar á PARISARDAMAN.COM.

Það er gaman að vera til.
Það er gaman að vera til.
Það er gaman að vera til.

Lifið í friði.

11.4.07

Af brúnku og Billy-væðingu fínna Parísarhverfa

Bloggdívan Þórdís spekúleraði í brúnku um daginn. Það minnti mig á flugfreyjuna sem ég hef nokkrum sinnum flogið með milli landanna minna. Hann er mjög undarlegur á litinn, eiginlega hef ég hallast að því að þetta hljóti að vera frá pillum, var ekki gulrótartónninn afgerandi eftir inntöku slíkrar ólyfjan?

Mér finnst alltaf þessi unglingatískutýpa, vel brún allt árið um kring, alltaf með gloss í rétta litnum, þeim sem er inni þessa stundina, alltaf í rétt sniðnum gallabuxum/satínbuxum/leðurbuxum/terrilínbuxum, alltaf í réttu skónum, með réttu klippinguna, réttu handtöskuna og fylgihlutamagnið í réttu hlutfalli við lög og reglugerðir tískustjórnarinnar, mér finnst þessi týpa algerlega ómissandi hluti af veruleikanum.
Þegar ég hengslast í búðir í veikri von um að finna mér kannski pils eða topp eða eitthvað sem er aðeins meira gelló heldur en mínar vanalegu óléttumussur og hörbuxur, horfi ég vandlega á þessar píur til að vita hvað ég ætla EKKI að kaupa og svo hugsa ég stundum um mömmur þeirra, hvernig líður þeim að sjá á eftir ungum dætrum sínum klæddum svona ögrandi? En það er samt eitthvað skemmtilegt við þennan hóp, þær minna mig t.d. á að ég sakna þess nákvæmlega ekki neitt að vera ekki á þessum aldri.
Á ég að skanna inn mynd handa ykkur? Ofmeikuð, overdressed, ofurbrún.
Ég fór í ljós fyrir ferminguna mína. Ég fór reglulega í ljós frá ca þeim aldri og fram til tja, 17 ára líklega. Kannski lengur, ég man það ekki. Ég keypti mér allt of dýrar flíkur í Kjallaranum og í Flónni. Ég VARÐ að eiga þetta og hitt.
Ég málaði mig ekki dags daglega og átti alltaf líka scalaskó, gekk í gallabuxum og vinnufataskyrtu, en um helgar, á djamminu, var ég eins og hinar vinkonurnar, að keppast um að vera aðalgellan, það var spáð í það alla vikuna í hverju ætti að vera. Þær tóku mig og túberuðu og máluðu og við vorum í kellingaleik og okkur fannst það skemmtilegt. Mamma saumaði á mig bleik satínjakkaföt eitt árið!

Ég er strákastelpa í dag eða eitthvað svoleiðis eða ekki. Ég veit það ekki. Ég geng um eins og "versta drusla" dags daglega en mér líður vel og sjálfsöryggið er, að ég held, í góðu lagi hvort sem ég er grá og guggin eða komin með léttan lit eins og núna eftir þessa sólríku helgi. Ég set stundum á mig maskara og varalit, setti m.a.s. púður í smá tíma þar til ég týndi helvítis fokdýru dósinni, en það er ekki til að vera öruggari með mig heldur... ég veit það ekki, til að vera pínu sætari? Hvers vegna set ég maskara þegar ég fer út?

Mér finnst fermingarbörnin ógurlega lítil og barnaleg. En ég var það líka, samt var ég í pæjukjól og stígvélum með smá hæl. Ekki máluð að vísu, en ég fór í ljós og hárgreiðslu. Mér fannst ég miklu eldri en ég var. Þroskaðri. Hélt að ég ætti stutt í land með að verða fullorðin. He he he, thíhíhí. Hér sit ég gömul kerling og finnst ég hvorki þroskuð né fullorðin. Full orðin.

Í gær Billy-væddi ég tengdaforeldra mína. Þau hafa aldrei komið í IKEA. Þau eru Parísarbúar aftur í aldir og eru ekki með bílpróf. IKEA er úthverfasjoppa. Ég gaf tengdamóður minni ferð í IKEA í jólagjöf samkvæmt hugmynd frá Landvernd um vænar og grænar jólagjafir. Hún afþakkaði pent. Svo reifst hún við karlinn sinn um helgina og skammaði hann fyrir að eiga ekki enn bókahillur og hann vældi um þetta við mig og ég rauk upp í sænsku búð í gær og svo inn í fína hverfið, upp í Haussmann-íbúðina með 80 cm breiða og 202 cm háan Billy handa henni. Tengdamamma hefur sérstakt lag á því að firra sig veruleikanum. Það sýndi hún mér glöggt þegar hún sagði við mig að ég væri svo HEPPIN að vera með þessa fínu skápa og hillur. Ég leit á hana og sagði henni að þetta væri afrakstur margra erfiðra ferða í stóru sænsku búðina, pælinga, mælinga og burðar. Hún skilur það ekki. Hún heldur að hillur og skápar sé eitthvað sem annað hvort sé fyrir framan þig eða sé ekki til.
En nú fær hún sinn fyrsta Billy. Ég ætla að segja henni í löngu máli frá ferðalaginu. Biðinni á kassanum, erfiðleikunum fyrir konu sem er 44 cm lægri en Billy að koma kassanum upp á brettið alein, að koma kassanum inn í bílinn (tók reyndar allt í sundur) og að koma þessu inn í stigaganginn og upp í litlu lyftunni. Ég veit ekki hvort ég segi henni frá skrúfjárnsleitinni sem ekki bar árangur og verður til þess að karlinn minn þarf að fara yfir síðar til að koma þessari töfragræju upp. En ég vona að hún öðlist nýjan skilning á lífi með skápum og hillum.
Og ég ætlaði alls ekki að vera svona langorð heldur bara að skrifa örlítið um það að ég er með bílstjórabrúnku eftir gærdaginn í bílnum. Vinstri framhandleggurinn er fallega rauður, restin er hvít. Í dag verður það lagað. Tuttugu stig og sól.

Lifið í friði.

10.4.07

karlar kyrktir

Líklega ætti ekki að kyrkja óþekku börnin heldur taka þau af foreldrum og ala þau upp sjálf(ur). Það yrði líklega uppi á manni typpið eftir nokkra daga með eitt stykki einhverft barn.
En fólkið sem helst ætti að kyrkja eru karlar í byggingavöruverslunum sem tala við konur sem fávitar væru. Svín og apaheilar sem halda að viðgerðir séu okkur ofviða.
Ég fer í BHV, þar bíður maður kannski í röð eftir afgreiðslu og svo aftur á kassanum en inni í deildunum fær maður alla jafna þjónustu og almennilegheit.

Lifið í friði.

6.4.07

kyrkt

Ég get svo svarið það að ég væri búin að kyrkja barnið sem öskrar hérna niðri ef veðrið væri ekki svona gott og ég á leið í frí. Djöfulsins frekja og óhemjugangur í þessu skrímsli. Geta foreldrar virkilega ekki lengur haft stjórn á þessum krógum sínum?

En ég er bara í svo brilljant góðu skapi að ég gef honum líf í þetta sinn.

Lifið í friði.

Gleðilega páska

Ég er á leið í sveitina í fallega húsið hennar Laurence þar sem öll húsgögnin sem ég málaði um árið liggja undir lökum inni í hlöðu og minna mig á brostna drauma. Ég hristi líklega músaskítinn af lökunum og klappa húsgögnunum aðeins um leið og ég þakka forlögunum í hljóði fyrir að hafa hætt við þennan bissness, ég held að það hefði orðið allt of mikill barningur fyrir allt of lítinn árangur.

Spáin er 17-18 stiga hiti og sól, andstæða rigningar og hráslaga um páskana í fyrra. Í farangrinum er ég með tvær nýjustu sögur Ævars Arnar Jósepssonar sem, af sérstökum ástæðum, er í uppáhaldi hjá mér. Svo keypti ég líka Viktor Arnar Ingólfsson, Aftureldingu. Fyrst verð ég samt að klára Lizu og Lottu um konur og helvíti. Ég finn að ég er hálfhikandi gagnvart börnunum mínum eftir lestur fyrstu kaflanna, þetta er bók sem ég mæli eindregið með að allir, jafnt konur sem karlar, lesi. Ég missti mig aðeins í Mál og Menningu, börnin fengu líka nýjar bækur sem slógu svo gersamlega í gegn að Einar Áskell óþekki sem vill ekki fara að sofa er kvaddur með tárum þegar farið er í skólann á morgnana og Emma er góð fyrirmynd þar sem hún gerir við leikföngin sín. Ekkert glænýtt sem þau fengu, en skotheldir klassíkerar eru nú oft einmitt það rétta.

En líklega verður minnst lesið í sveitinni, mest leikið á daginn og svo sötrað rauðvín/hvítvín, grillað, spilað tarot og sungin ættjarðarljóð tveggja landa á kvöldin.

Ég er heldur betur að standa við áramótaheitið mitt sem var strengt einhvern tímann í nóvember ef ég man rétt, að hreyfa mig meira, ferðast eins og hægt er, fara bara af stað hvenær sem færi gefst. Maður lifir bara einu sinni.

Lifið í friði.

5.4.07

landafræði

Landafræði var ekki mitt uppáhaldsfag og ég er ekkert sérlega spennt fyrir landafræðispurningunum í Trivial Pursuit. En þetta stingur þó í augun, það er fyrirsögnin sem er tengill elskan.

Fyrirlesturinn minn gekk líka svona bara vel. Reyndar talaði aðalmaðurinn svo ógurlega lengi að ég gat ekki verið með of langt mál en þarna hitti ég fólk úr bransanum og fólk sem ætlar að taka á móti Íslendingum í Suður Frakklandi og snitturnar voru góðar. Enginn fór á barinn. Og ekki ég heldur.

Ég bið alla sem ég hitti ekki að reyna að skilja mig. Fram að fyrirlestri komst lítið annað að. Eftir fyrirlestur leið þessi rúmi sólarhringur eins og mínúta. Sjáumst næst.

Ísland er annars alveg ágætt land, dálítið grá stemning samt þessa helgi.

Lifið í friði.