6.4.07

Gleðilega páska

Ég er á leið í sveitina í fallega húsið hennar Laurence þar sem öll húsgögnin sem ég málaði um árið liggja undir lökum inni í hlöðu og minna mig á brostna drauma. Ég hristi líklega músaskítinn af lökunum og klappa húsgögnunum aðeins um leið og ég þakka forlögunum í hljóði fyrir að hafa hætt við þennan bissness, ég held að það hefði orðið allt of mikill barningur fyrir allt of lítinn árangur.

Spáin er 17-18 stiga hiti og sól, andstæða rigningar og hráslaga um páskana í fyrra. Í farangrinum er ég með tvær nýjustu sögur Ævars Arnar Jósepssonar sem, af sérstökum ástæðum, er í uppáhaldi hjá mér. Svo keypti ég líka Viktor Arnar Ingólfsson, Aftureldingu. Fyrst verð ég samt að klára Lizu og Lottu um konur og helvíti. Ég finn að ég er hálfhikandi gagnvart börnunum mínum eftir lestur fyrstu kaflanna, þetta er bók sem ég mæli eindregið með að allir, jafnt konur sem karlar, lesi. Ég missti mig aðeins í Mál og Menningu, börnin fengu líka nýjar bækur sem slógu svo gersamlega í gegn að Einar Áskell óþekki sem vill ekki fara að sofa er kvaddur með tárum þegar farið er í skólann á morgnana og Emma er góð fyrirmynd þar sem hún gerir við leikföngin sín. Ekkert glænýtt sem þau fengu, en skotheldir klassíkerar eru nú oft einmitt það rétta.

En líklega verður minnst lesið í sveitinni, mest leikið á daginn og svo sötrað rauðvín/hvítvín, grillað, spilað tarot og sungin ættjarðarljóð tveggja landa á kvöldin.

Ég er heldur betur að standa við áramótaheitið mitt sem var strengt einhvern tímann í nóvember ef ég man rétt, að hreyfa mig meira, ferðast eins og hægt er, fara bara af stað hvenær sem færi gefst. Maður lifir bara einu sinni.

Lifið í friði.