19.4.07

Sporin í hökuna eru alveg til friðs. Þetta verður áreiðanlega afskaplega kvenlega karlmannlegt á drengnum.
Einhvern tímann skrifa ég kannski um lætin á slysavarðstofunum hérna en núna er ég svona um það bil að leka niður úr þreytu eftir stökk milli sjónvarpsliðs sem filmar úthverfin sem mig hefur lengi langað til að heimsækja og gat loksins farið í í fylgd tveggja íslenskra karlmanna og hóps af ferðalöngum í árshátíðarferð í sumrinu í París.

Clichy-sous-bois reyndist (eins og mig grunaði) hið rólegasta og besta hverfi. Gaman að komast loksins í þetta ógurlega hverfi sem hefur verið gert að stríðssvæði í pressunni eftir ólætin þar í nóvember 2005. Ekki beint kannski staðurinn sem ég myndi velja mér að búa á, en aðallega og kannski eingöngu vegna fjarlægðar frá París. Væri alveg til í að eiga einbýlishús með garði í líkingu við það sem hýsir félagasamtökin ACLEFEU sem hafa brýnt fyrir unga fólkinu að innrita sig á kjörskrá og mæta á kjörstað, að skilja það að leiðin að hjarta pólitíkusanna liggi í gegnum kosningaréttinn.
Eftir viðtalið við talsmann samtakanna hef ég enn og aftur verið að spá í það hvort lýðræðið sé nokkuð til, hvort það sé ekki helber lygi að þetta unga fólk hafi virkilega val. Val um hvað? Ségo? Sarkó? Bayrou? Le Pen? Hvað eiga þau að kjósa? Og svo hef ég líka spáð í það hvort kosningar á litla Íslandinu séu ekki bara dúkkuleikur. En ég hef ekki komist að neinum alvöru niðurstöðum.

AND NOW FOR SOMETHING COMPLETELY DIFFERENT:
Varðandi komment hér neðar um brúnku, tanorexíu o.fl. Er ég að spá í orð eins og brúnkusælni og brúnkufælni. Er það ekki málið?

ET ENCORE DES CHOSES DIFFERENTS:
Mér finnst það sérlega sætt að sjá alla óska öllum gleðilegs sumars á Frónsbloggum vitandi af næturfrosti og þvíumlíku með það á tilfinningunni að hér í París sé komið fram á mitt sumar. En ég óska öllum gleðilegs og góðs íslensks sumars, sérstaklega óska ég ykkur (og mér um leið) að júlímánuður verði ljúfur, sólríkur og fallegur.

Lifið í friði.