Af brúnku og Billy-væðingu fínna Parísarhverfa
Bloggdívan Þórdís spekúleraði í brúnku um daginn. Það minnti mig á flugfreyjuna sem ég hef nokkrum sinnum flogið með milli landanna minna. Hann er mjög undarlegur á litinn, eiginlega hef ég hallast að því að þetta hljóti að vera frá pillum, var ekki gulrótartónninn afgerandi eftir inntöku slíkrar ólyfjan?Mér finnst alltaf þessi unglingatískutýpa, vel brún allt árið um kring, alltaf með gloss í rétta litnum, þeim sem er inni þessa stundina, alltaf í rétt sniðnum gallabuxum/satínbuxum/leðurbuxum/terrilínbuxum, alltaf í réttu skónum, með réttu klippinguna, réttu handtöskuna og fylgihlutamagnið í réttu hlutfalli við lög og reglugerðir tískustjórnarinnar, mér finnst þessi týpa algerlega ómissandi hluti af veruleikanum.
Þegar ég hengslast í búðir í veikri von um að finna mér kannski pils eða topp eða eitthvað sem er aðeins meira gelló heldur en mínar vanalegu óléttumussur og hörbuxur, horfi ég vandlega á þessar píur til að vita hvað ég ætla EKKI að kaupa og svo hugsa ég stundum um mömmur þeirra, hvernig líður þeim að sjá á eftir ungum dætrum sínum klæddum svona ögrandi? En það er samt eitthvað skemmtilegt við þennan hóp, þær minna mig t.d. á að ég sakna þess nákvæmlega ekki neitt að vera ekki á þessum aldri.
Á ég að skanna inn mynd handa ykkur? Ofmeikuð, overdressed, ofurbrún.
Ég fór í ljós fyrir ferminguna mína. Ég fór reglulega í ljós frá ca þeim aldri og fram til tja, 17 ára líklega. Kannski lengur, ég man það ekki. Ég keypti mér allt of dýrar flíkur í Kjallaranum og í Flónni. Ég VARÐ að eiga þetta og hitt.
Ég málaði mig ekki dags daglega og átti alltaf líka scalaskó, gekk í gallabuxum og vinnufataskyrtu, en um helgar, á djamminu, var ég eins og hinar vinkonurnar, að keppast um að vera aðalgellan, það var spáð í það alla vikuna í hverju ætti að vera. Þær tóku mig og túberuðu og máluðu og við vorum í kellingaleik og okkur fannst það skemmtilegt. Mamma saumaði á mig bleik satínjakkaföt eitt árið!
Ég er strákastelpa í dag eða eitthvað svoleiðis eða ekki. Ég veit það ekki. Ég geng um eins og "versta drusla" dags daglega en mér líður vel og sjálfsöryggið er, að ég held, í góðu lagi hvort sem ég er grá og guggin eða komin með léttan lit eins og núna eftir þessa sólríku helgi. Ég set stundum á mig maskara og varalit, setti m.a.s. púður í smá tíma þar til ég týndi helvítis fokdýru dósinni, en það er ekki til að vera öruggari með mig heldur... ég veit það ekki, til að vera pínu sætari? Hvers vegna set ég maskara þegar ég fer út?
Mér finnst fermingarbörnin ógurlega lítil og barnaleg. En ég var það líka, samt var ég í pæjukjól og stígvélum með smá hæl. Ekki máluð að vísu, en ég fór í ljós og hárgreiðslu. Mér fannst ég miklu eldri en ég var. Þroskaðri. Hélt að ég ætti stutt í land með að verða fullorðin. He he he, thíhíhí. Hér sit ég gömul kerling og finnst ég hvorki þroskuð né fullorðin. Full orðin.
Í gær Billy-væddi ég tengdaforeldra mína. Þau hafa aldrei komið í IKEA. Þau eru Parísarbúar aftur í aldir og eru ekki með bílpróf. IKEA er úthverfasjoppa. Ég gaf tengdamóður minni ferð í IKEA í jólagjöf samkvæmt hugmynd frá Landvernd um vænar og grænar jólagjafir. Hún afþakkaði pent. Svo reifst hún við karlinn sinn um helgina og skammaði hann fyrir að eiga ekki enn bókahillur og hann vældi um þetta við mig og ég rauk upp í sænsku búð í gær og svo inn í fína hverfið, upp í Haussmann-íbúðina með 80 cm breiða og 202 cm háan Billy handa henni. Tengdamamma hefur sérstakt lag á því að firra sig veruleikanum. Það sýndi hún mér glöggt þegar hún sagði við mig að ég væri svo HEPPIN að vera með þessa fínu skápa og hillur. Ég leit á hana og sagði henni að þetta væri afrakstur margra erfiðra ferða í stóru sænsku búðina, pælinga, mælinga og burðar. Hún skilur það ekki. Hún heldur að hillur og skápar sé eitthvað sem annað hvort sé fyrir framan þig eða sé ekki til.
En nú fær hún sinn fyrsta Billy. Ég ætla að segja henni í löngu máli frá ferðalaginu. Biðinni á kassanum, erfiðleikunum fyrir konu sem er 44 cm lægri en Billy að koma kassanum upp á brettið alein, að koma kassanum inn í bílinn (tók reyndar allt í sundur) og að koma þessu inn í stigaganginn og upp í litlu lyftunni. Ég veit ekki hvort ég segi henni frá skrúfjárnsleitinni sem ekki bar árangur og verður til þess að karlinn minn þarf að fara yfir síðar til að koma þessari töfragræju upp. En ég vona að hún öðlist nýjan skilning á lífi með skápum og hillum.
Og ég ætlaði alls ekki að vera svona langorð heldur bara að skrifa örlítið um það að ég er með bílstjórabrúnku eftir gærdaginn í bílnum. Vinstri framhandleggurinn er fallega rauður, restin er hvít. Í dag verður það lagað. Tuttugu stig og sól.
Lifið í friði.
<< Home