15.4.07

falleg brúnka - gamlir kjánar - skemmtilegt fólk

Veðrið (þið verðið að fyrirgefa, það er bara ekki annað hægt en að tala um þetta) er með besta móti. Hefur ekki mælst hærri hiti í apríl síðan 1949. Útivera gerir manni gott, sólkremið verndar en húðin tekur samt á sig gullinn lit.
Ég verð ekki mjög brún en verð samt "fallega brún" eða það sagði mamma mín alltaf þegar við systur bárum okkur saman og hún var komin með bláa slikju í brúnkuna, svo dökk var hún og ég leit (að mér fannst) út fyrir að vera hálflasin við hliðina á henni. Fallega brún. Ég þoldi ekki þessa huggun og vildi bara vera svertingi eins og systirin.
En núna er ég alsæl með minn gullna lit, það er alveg ótrúlegt að ég held að það sé rétt hjá Þórdísi sem var minnt á það á dögunum að hún hafði einhvern tímann sagt að brúnt spik væri skárra en hvítt spik. Mér líður a.m.k. betur með sjálfa mig.

Í gær gekk ég um Mýrina með kórinn Stöku. Þau eru yndisleg, bæði syngja vel og eru skemmtilegt fólk, ætli það fari alltaf saman? Tónleikarnir á föstudag gengu vel, það safnaðist bara slatti af fólki. Ég hef ekkert frétt hvernig gekk svo í gær en ég treysti mér ekki til að fara aftur, mér er ennþá illt í blessuðu hnénu mínu og er farin að standa mig að því að bölva sjúkraþjálfaranum mínum sem ég elskaði svo mikið. Bæði lagar hann ekki á mér hnéð og svo byrjaði hann á dögunum að þvaðra um það hvað allt væri á niðurleið hér í Frakklandi, börnin illa upp alin o.s.frv. Svei mér ef ég greindi ekki kynþáttahatur eða bara almennt mannhatur í ræðunni, honum líst a.m.k. illa á alla þessa asísku sem "flykkjast í hverfið okkar", ég nennti ekki að segja honum að þær íbúðir sem hafa selst í okkar götu undanfarið hafa verið keyptar af svipuðu fólki og minni fjölskyldu, hvítt fólk með börn. Fólk af asískum uppruna er í nokkrum íbúðum hérna í götunni en þau keyptu líklega áður en verðið fór að rjúka upp og ég verð að segja það að fyrir utan ungu drengina á 143 sem skilja oft ruslið sitt eftir úti á gangstétt í staðinn fyrir að fara með það í tunnuna, er varla hægt að biðja um betri nágranna, róleg, kurteis og hlédræg sem þau eru flest. En ég nenni eiginlega aldrei að svara fólki sem byrjar að þvaðra svona. Ég fyllist bara þreytu. Þreytu á heimsku og þröngsýni. Og verð líklega hálfstíf í framan því ég veit aldrei hvort ég á að hlæja eða gráta. Svo kinka ég bara kolli eða hristi höfuðið og kveð eins fljótt og ég get. Nenni ekki að reyna að breyta gömlum kjánum.
En mér er sem sagt ennþá illt í hnénu.
Samt ætla ég að taka annan túr í dag með konu af blogginu.
Svo fer ég kannski út að borða í kvöld en bara kannski kannski kannski. Annars ligg ég uppi í sófa með manninum mínum og horfi á FBI Portés disparus, eða Without a trace eins og það heitir á frummannamálinu.

Lifið í friði.