22.4.07

það var fleira

sem mig langaði til að setja hingað inn en ekkert kemur

allt hringsnýst í mínum fagra kolli

ég þarf endilega að smala

fólki í kampavín ef konan slær karlinn út í næstu umferð ekki bara því hún er kona heldur líka vegna þess að hún er þrátt fyrir allt sósíalisti og að með henni mun koma flokkur fólks í Elysée-höllina sem ráðgjafar og talsmenn og það fólk er líka sósíalistar

Það hlýtur að vera betra að fá sósíalista þó hann sé svolítið frjálslyndur fyrir annarra sósíalista smekk heldur en að fá Sarkozy með sína drauma um að henda rumpulýðnum sem truflar hann við að maka eigin krók, úr landi.

En svo er líka eitthvað unaðslega skemmtilegt við að ímynda sér forsetann hér sem konu. Madame la Présidente? Madame le Président? La générale Royale?

Ef ég skrifa þetta á síðuna mína á hverjum degi í tvær vikur, haldið þið að það auki líkurnar á sigri hennar?

Annars er ég búin að eyða svo til öllum tímanum síðasta færsla var skrifuð í blogglestur. Mikið sem ég hafði dregist aftur úr. Skemmtilegur rúntur og tel ég kvöldinu betur varið en að horfa á frambjóðendur eða talsmenn frambjóðenda eða stjórnmálafræðinga segja ekki neitt í míkrófóna. Veit líka að á morgun get ég horft á zapping og séð hápunkta ef einhverjir voru.

Af hverju skrifaði ég fyrst hápúnkta?

Við blogglesturinn rifjaðist upp fyrir mér í gegnum pælingar hjá Hryssu að einhvern tímann ætlaði ég að halda stóra brúðkaupsveislu. Það var reyndar áður en ég kynntist manninum mínum en ég var sem sagt að láta mig dreyma um stórt brúðkaup með risaveislu.
Svo fór ég að spá í það að ég myndi ekki geta boðið öllum sem ég myndi samt ætlast til að kæmu í jarðaförina mína eða þið skiljið hvað ég meina, ég ætlast ekki til eins né neins af einum né neinum heldur frekar ímynda ég mér að þessi eða hinn kæmi í jarðaförina mína létist ég fyrir aldur fram frá ungum börnum og eiginmanni. Mér varð einhvern veginn svo um og ó við þessa tilhugsun að brúðkaupið mitt endaði með að fara fram næstum því í kyrrþey.
Ég hef ekki gert erfðaskrá þannig að ég hef ekki enn óskað eftir jarðaför í kyrrþey enda vil ég að fólk safnist saman, að það verði umferðarhnútar og kannski brjótist út einhvers konar brjálæði í líkingu við það sem gerðist þegar Zola (eða var það Hugo? viðbætur að morgni: Já, það var víst Victor Hugo) dó en þá trylltist París, fólk gerðist ofurölvi og vændiskonur gáfu drætti hægri vinstri.
Nú eða þá að útförin mín verði með konunglegu og afskaplega hátíðlegu og langdregnu ívafi og verði sjónvarpað beint og öryrkjarnir sitji með viskustykki í stað vasaklúta horfandi á.

Svo vil ég koma því á framfæri eftir lestur Reykvískrar sápuóperudrottningar að ég sæti ávallt færis á að gefa bílastæðamiða sem á tíma eftir, að brosa framan í manneskju sem virðist sérlega grá og guggin, að róa barn sem grenjar með því að gretta mig til þess í laumi, að gefa metrómiðann minn sem gildir í tvo tíma ef ég sé einhvern stökkva yfir hliðið þegar ég er á leið út, að gefa fólki skiptimynt í búðinni þegar kassadaman er í vandræðum með að gefa til baka og bara alls konar svona litla greiða og ég trúi því statt og stöðugt að ég fái þetta til baka í einhverju formi og ég fæ alveg hrikalega, HRIKALEGA mikið kikk út úr svona góðverkum þó smá séu. Stærðin skiptir nefninlega ekki alltaf máli.

Lifið í friði.