vínskólanámskeið og Mokka
Tékkið á vínskólanum (sjá tengil undir LYST hér til hliðar). Fullt af námskeiðum á næstunni, t.d. er ólífuolíusmökkun í ostabúðinni á Skólavörðustíg nk. fimmtudagskvöld. Einhverjum gæti þótt það undarlegt að vínskólar séu að ræða um olíur en mér finnst það afar viðeigandi og blæs á gagnrýni. Mér finnst ólífuolíusmökkun hljóma mjög spennandi, hefur stundum langað í búðina sem gengið er framhjá á rue Vieille du Temple í Mýrartúrnum mínum. Þar er manni boðið að smakka áður en keypt er en ég hef aldrei þorað því ég er alls enginn connaisseur í ólífuolíum.
Ég ætla að vera á Mokka frá ca. 16 á mánudag og við sjáum til hverjir vilja og geta komið þá eða síðar. Þið megið alveg láta mig vita hvort þið ætlið ykkur að koma og þá ca. klukkan hvað. Annars má líka koma óvænt, það er allt í lagi og engum verður hent út.
Má maður ekki alveg sletta latínu svona?
Annars er maður bara hress og kát, enda veðrið öllu þolanlegra. Ég fór í bæinn í dag en missti móðinn eftir smá tíma með börnin í búðum og fór heim.
Og nú ætla ég í sund.
Mér finnst tíminn vera hið versta skrímsli núna, líður sem renni ég fótskriðu í átt að brottför. Hvað þarf maður eiginlega að vera lengi í fríi á landinu sínu gamla til að fá gersamlega nóg? Tvö ár?
Lifið í friði.
gefum ljósinu líf
Upp með seríurnar núna, alveg tilvalið í þennan kulda og snjó. Og leyfið þeim að vera fram í febrúar. Þessi ár sem ég bjó að vetrarlagi hér á skerinu var ég alvarlega að spá í að stofna til viðurkenningarskjalagjafar fyrir svokallaða letingja sem þrjóskuðust við að leyfa ljósum að loga áfram eftir þrettándann. Það varð þó ekkert af því en ég er enn á því að af ljósum fær maður aldrei nóg hérna.
Annars er ég að verða vitlaus því ég hef þrisvar reynt að plögga bækur Ævars Arnar Jósepssonar hérna en Blogger étur alltaf færslurnar um hann. Las sem sagt Skítadjobb og Svarta engla nýlega og hafði mikið gaman af. Mæli eindregið með að byrja á þessari góðu seríu og hlakka sjálf til að lesa nýtilnefnt Blóðberg fljótlega. Nú er ég að lesa Þriðja táknið eftir Yrsu og þó ég skemmti mér ágætlega finnst mér stíllinn ekki eins skemmtilegur og hjá Ævari. Það er eitthvað svo innilega gaman að kíkja inn í kollinn á aðalsöguhetjunni hans, unga manninum sem langar að vera femínisti, fyrir femínista.
Ég held ég hafi séð höfundinn á Ölstofunni um daginn, horfði og horfði á þennan mann en tókst ekki að átta mig á því hver hann var fyrr en ég sá mynd af honum út af tilnefningunni. Ég hef þá afsökun að þjást af sjúkdómi eins og ég hef áður sagt.
Ég vil koma á framfæri þeirri skoðun minni að kiljur eru góðar í jólapakkann, ég er eiginlega bara alveg stórhneyksluð á þessari harðspjaldaáráttu í Íslendingum og nett hissa á ákveðnu hortugu skáldi að vestan að taka þátt í því bulli.
Lifið í friði.
skýin
Þegar við vorum að koma að landi hátt uppi á himninum sigldu falleg og freistandi ský undir flugvélinni. Dóttir mín leit á mig afar sposk á svip og hvíslaði: Bráðum, þegar ég verð stór, ætla ég að fara og sitja á svona skýi. Brosið var einhvern veginn montblandað og móðurhjartað kramdist og ég svaraði henni klökk að það skyldi hún gera.
Hvers vegna missa stúlkur síðar þessa ótakmörkuðu trú á sjálfum sér, á fegurð sinni og getu?
Lifið í friði.
til hamingju
Þrjú ár síðan út úr mér kom með slíku offorsi að læknirinn tók eiginlega á móti honum með kaffibollann í annarri hendi, Kári, fagurbleikur, hvíthærður og bláeygur. Hann fór beint á brjóst og saug kröftuglega, og hefur alltaf borðað bæði hratt og vel, eiginlega óhugnalega fljótur að læra að nota gaffal og drekka úr venjulegu glasi og ropaði alltaf strax hátt og snjallt. Ekta íslenskur karlmaður. Þó hann eigi ekta franskan pabba.
Surtsey varð fertug sama dag og Kári fæddist og fær því afganginn af kveðjunni ásamt einni lítilli vinkonu í Þingholtunum, Kristínu Hörpu sem er fjögurra ára í dag.
Annars hef ég bara það að segja að mér finnst ég aldrei stoppa, brjálað að gera við ýmsa vinnu, vera með mömmu, fara í sund... enginn tími til að lesa blogg eða skrifa.
Ég verð á Sykurmolaendurkomunni nk. föstudagskvöld og fer áreiðanlega í bæinn á eftir. Það verður fyrsta útstáelsið síðan ég kom, að undanskildu góðu kvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum og á Mokka. Spurningin er hvert mig langar helst að fara, en ég verð með leiðsögumenn sem kunna á næturlífið.
Lifið í friði.
bull
Ég var búin að skrifa langa færslu um góðar íslenskar sögur í gær og hvort ég væri stolt af því að vera Íslendingur en færslan hvarf út fyrir endamörk heimsins og ég samhryggist ykkur hinum.
Sagnakvöld Hugleiks var frábært, alveg satt, maður var grátklökkur og samt hlæjandi. Fullkomin blanda eins og allir vita sem vilja.
Mokka er alltaf jafn fáránlega fallegur staður og enn betri svona reyklaus. Súkkulaðið þeirra, mmmm.
Gaman að hitta bloggarana, leitt að missa af því að heilsa Baun og leitt að mæta Elíasi (sem er ekki á tenglalistanum mínum þó ég lesi hann stundum, hann fer þangað bráðum en ekki núna) svona í dyrunum, hann lofaði að koma fyrr næst.
Það verður aftur hittingur mánudaginn 27. nóv þar sem Farfuglinn mun blása á kerti.
Kannski líka á föstudeginum, veit það ekki alveg.
Á leið frá Mokka fauk ég niður milli húsa og hvar ég stóð við Hverfisgötuna og vildi komast yfir fauk keila með skilti í veg fyrir bílana. Mín var kurteis og fór og náði í keiluna svo bílarnir kæmust leiðar sinnar. Svo stóð ég þarna og var barin af vindi og regni meðan bílarnir keyrðu allir framhjá án þess að hleypa mér yfir. M.a.s. strætó líka. Ég var nú dálítið hissa og er meira slegin yfir þessu en fréttum af e-töfluáti ungabarna og tíðum húsbrunum, nauðgunum og bílslysum sem stungið er af frá. Síðasti bílstjórinn hleypti mér þó yfir og hlaut að launum eitt það fegursta vink sem um getur í sögu landsins, jafnvel heimsins. Hann hlýtur að hafa komið sæll og glaður heim til sín sá (eða sú?).
Ég hef þá kenningu að veðrið sé alltaf svona hérna, að þegar ég er í útlöndum þegja allir um það, fjölmiðlar líka, en neyðast svo til að játa þetta eymdarástand þegar ég er stödd á landinu. En það er nú samt alveg búandi á þessu skeri, a.m.k. meðan hægt er að fá kókosbollur, pulsur með öllu og fara í sund.
Lifið í friði.
tilvitnun dagsins
Anna Benkovic Mikaelsdóttir hitti naglann á höfuðið í kommentakerfi Eyju nýlega:
"Ég held að hlutverk íslendinga á meðal þjóðanna sé að halda við og kunna þetta gamla, erfiða, en fallega tungumáli! Allt annað er lítilvægt."
Lifið í friði.
Hugleikur í Þjóðleikhúskjallaranum fyrst
Mér lýst afskaplega vel á það að mæta í Þjóðleikhúskjallarann (sjá athugasemdir að neðan). Frekar fúlt að Eyja er á Hvanneyri, en það verður annar Mokkahittingur síðar og þá verður Eyja að komast.
Allir aðrir eru velkomnir að mæta í menninguna í Þjóðleikhúskjallaranum og koma og setjast við borðið hjá mér (er þetta ekki annars þannig?) eða gefa sig að mér að fyrra bragði því ég get lofað ykkur því að ég þekki engan í sjón nema einmitt Hildigunni, Jón Lárus, Eyju, Gumma og svo náttúrulega heiðarlega útivinnandi fyrrverandi Parísarsveininn Einar sem ég vona að sjái sér fært að mæta, en það var fyrir hann sem hittingurinn var færður til kvölds. Þó þið séuð með myndir á síðum ykkar sum hver er öruggt mál að ég þekki ykkur ekki ég er með andlitsblindu á alvarlegu stigi.
Svo er ráð að fara á Mokka í heitt súkkulaði með rjóma á eftir, eða hvað? Þá geta þau sem ekki sjá sér fært að mæta á slaginu átta hitt okkur hin þar.
Hvað er dagskráin löng? Verður að þegja? Geta bloggarar þagað? Kemur einhver frægur?
Ferlega er þetta orðið spennandi allt saman og skemmtilegt. Það er nú aldeilis gaman að vera til á Íslandi í sól og sjó... nei ég meina snjó.
Varðandi þjóðmálin, innflytjendamálið stóra til dæmis, hef ég eiginlega ekkert að segja annað en að fólk er fífl nema sumir.
Lifið í friði.
mokka
Nú er ég búin að vera á Íslandi í ca fjóra daga og allar vinkonurnar örugglega orðanar sárreiðar út í mig því ég hef ekki haft samband við neinn. Föstudagurinn fór í ofsaþreytu, laugardagurinn í smá útréttingar og svo var boð frá fimm til níu sem entist til tvö og varð til þess að sunnudagurinn er ekki til í mínu lífi. Ég held ég hafi ekki haft aðra eins timburmenn árum saman, höfuðverkurinn ætlaði bara ekki að hverfa þrátt fyrir lambalæri og annað góðgæti ásamt góðum slatta af parkódíni, íbúfeni og öðrum viðbjóði. En í þessu boði komst ég að því að ég á snilling fyrir frænda og get lofað ykkur því að að þið eigið eftir að heyra í honum í framtíðinni. Annað úr boðinu er væntanlega ekki prenthæft...
EN, ég fer í sund á hverjum degi með börnin sem eru jafnsæl og ég með þann hluta Íslandsferða. Og á fimmtudagskvöldið ætla ég að setjast niður á Mokka, Hildigunnur ætlar að koma. Einhverjir fleiri? Ég verð þar upp úr átta.
Lifið í friði.
Mokkahittingur og farangur
Eins og síðast, ætlum a.m.k. við Eyja, Gvendabrunnur og Hildigunnur að hittast á Mokka. Aðrir bloggarar eru vitanlega velkomnir með. Ég er mjög laus og liðug (aðallega liðug) og vil því að þið nefnið dagana og tímana sem henta ykkur best.
Annars hef ég það að segja að ég bakaði vöfflur í dag og pakkaði niður mánaðarfarangri fyrir þrjár manneskjur. Það er ótrúlegt hvernig farangur barnanna hefur tútnað út, ég veit að fötin stækka og allt það en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Ef Saga Class miðar innifela einn góðan veðurdag alla umsjá farangurs frá dyr að dyrum gæti ég vel hugsað mér að gerast lúxusgella og ferðast á Saga Class.
Lifið í friði.
Fyrirsögnin er tengill.
Lifið í friði.
tremma
Eitt nýja blaðið auglýsir sig sem Blað fyrir Íslendinga, maður gæti kannski séð svona undirtitil á blaði frá Front National fasistableðlum hér á meginlandinu.
Annað nýtt tímarit segir á netsíðunni sinni að Lífið sé lífsstíll, svona frasar fá grænar bólur til að hlaupa upp á annars óvenju fagurri og sléttri húð minni.
Gvuð mín góð hvað ég er farin að hlakka til að koma heim. Í alvöru. Ég elska að hata og elska Ísland og Íslendinga og lífsgæðakapphlaupið, ég elska það að fólk trúi því í alvörunni að flottasta uppþvottavélin og smartasti ísskápurinn sé virkilega lykill að einhvers konar hamingju. Ég hlakka svo til að koma heim. Ég elska ykkur. Líka ykkur hin sem berjist við að vera hippar, kúl afturhaldshommatittir, farið í strætó og kaupið inn á Laugaveginum. Ég elska að standa hnípin niðri á tjörn með börnin mín stíf úr kulda, horfa á fallegu húsin sem búið er að taka í gegn og seljast á verði sem ég skil ekki. Ég elska það hvernig fólk reynir að glápa á mann út úr bílunum, athuga hvort það þekki mann en verður svo flóttalegt og skammarlegt þegar maður glápir á móti. Ég hlakka mikið til að koma heim. Búin að kaupa vínið, ætlaði reyndar að spyrja Hildigunni, hvað er það sem maður borgar af aukaflöskum, ég held ég þurfi svoleiðis fyrir heilan mánuð.
Lifið í friði og umfram allt, ekki taka mig alvarlega. Eða jú, eða nei, eða jú.
Og p.s: Halló! Ég vann í bókmenntagetraun Tótu pönk, ég er að rifna úr monti yfir því og ég fæ m.a.s. VERÐLAUN. Ég er nú obboponsulítið best, er það ekki? (ég er búin að skrifa ponsuogguorð tvisvar í dag, hvað er í gangi?)