22.11.06

gefum ljósinu líf

Upp með seríurnar núna, alveg tilvalið í þennan kulda og snjó. Og leyfið þeim að vera fram í febrúar. Þessi ár sem ég bjó að vetrarlagi hér á skerinu var ég alvarlega að spá í að stofna til viðurkenningarskjalagjafar fyrir svokallaða letingja sem þrjóskuðust við að leyfa ljósum að loga áfram eftir þrettándann. Það varð þó ekkert af því en ég er enn á því að af ljósum fær maður aldrei nóg hérna.

Annars er ég að verða vitlaus því ég hef þrisvar reynt að plögga bækur Ævars Arnar Jósepssonar hérna en Blogger étur alltaf færslurnar um hann. Las sem sagt Skítadjobb og Svarta engla nýlega og hafði mikið gaman af. Mæli eindregið með að byrja á þessari góðu seríu og hlakka sjálf til að lesa nýtilnefnt Blóðberg fljótlega. Nú er ég að lesa Þriðja táknið eftir Yrsu og þó ég skemmti mér ágætlega finnst mér stíllinn ekki eins skemmtilegur og hjá Ævari. Það er eitthvað svo innilega gaman að kíkja inn í kollinn á aðalsöguhetjunni hans, unga manninum sem langar að vera femínisti, fyrir femínista.
Ég held ég hafi séð höfundinn á Ölstofunni um daginn, horfði og horfði á þennan mann en tókst ekki að átta mig á því hver hann var fyrr en ég sá mynd af honum út af tilnefningunni. Ég hef þá afsökun að þjást af sjúkdómi eins og ég hef áður sagt.
Ég vil koma á framfæri þeirri skoðun minni að kiljur eru góðar í jólapakkann, ég er eiginlega bara alveg stórhneyksluð á þessari harðspjaldaáráttu í Íslendingum og nett hissa á ákveðnu hortugu skáldi að vestan að taka þátt í því bulli.

Lifið í friði.