14.11.06

til hamingju

Þrjú ár síðan út úr mér kom með slíku offorsi að læknirinn tók eiginlega á móti honum með kaffibollann í annarri hendi, Kári, fagurbleikur, hvíthærður og bláeygur. Hann fór beint á brjóst og saug kröftuglega, og hefur alltaf borðað bæði hratt og vel, eiginlega óhugnalega fljótur að læra að nota gaffal og drekka úr venjulegu glasi og ropaði alltaf strax hátt og snjallt. Ekta íslenskur karlmaður. Þó hann eigi ekta franskan pabba.
Surtsey varð fertug sama dag og Kári fæddist og fær því afganginn af kveðjunni ásamt einni lítilli vinkonu í Þingholtunum, Kristínu Hörpu sem er fjögurra ára í dag.

Annars hef ég bara það að segja að mér finnst ég aldrei stoppa, brjálað að gera við ýmsa vinnu, vera með mömmu, fara í sund... enginn tími til að lesa blogg eða skrifa.
Ég verð á Sykurmolaendurkomunni nk. föstudagskvöld og fer áreiðanlega í bæinn á eftir. Það verður fyrsta útstáelsið síðan ég kom, að undanskildu góðu kvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum og á Mokka. Spurningin er hvert mig langar helst að fara, en ég verð með leiðsögumenn sem kunna á næturlífið.

Lifið í friði.