10.11.06

bull

Ég var búin að skrifa langa færslu um góðar íslenskar sögur í gær og hvort ég væri stolt af því að vera Íslendingur en færslan hvarf út fyrir endamörk heimsins og ég samhryggist ykkur hinum.
Sagnakvöld Hugleiks var frábært, alveg satt, maður var grátklökkur og samt hlæjandi. Fullkomin blanda eins og allir vita sem vilja.
Mokka er alltaf jafn fáránlega fallegur staður og enn betri svona reyklaus. Súkkulaðið þeirra, mmmm.
Gaman að hitta bloggarana, leitt að missa af því að heilsa Baun og leitt að mæta Elíasi (sem er ekki á tenglalistanum mínum þó ég lesi hann stundum, hann fer þangað bráðum en ekki núna) svona í dyrunum, hann lofaði að koma fyrr næst.
Það verður aftur hittingur mánudaginn 27. nóv þar sem Farfuglinn mun blása á kerti.
Kannski líka á föstudeginum, veit það ekki alveg.

Á leið frá Mokka fauk ég niður milli húsa og hvar ég stóð við Hverfisgötuna og vildi komast yfir fauk keila með skilti í veg fyrir bílana. Mín var kurteis og fór og náði í keiluna svo bílarnir kæmust leiðar sinnar. Svo stóð ég þarna og var barin af vindi og regni meðan bílarnir keyrðu allir framhjá án þess að hleypa mér yfir. M.a.s. strætó líka. Ég var nú dálítið hissa og er meira slegin yfir þessu en fréttum af e-töfluáti ungabarna og tíðum húsbrunum, nauðgunum og bílslysum sem stungið er af frá. Síðasti bílstjórinn hleypti mér þó yfir og hlaut að launum eitt það fegursta vink sem um getur í sögu landsins, jafnvel heimsins. Hann hlýtur að hafa komið sæll og glaður heim til sín sá (eða sú?).

Ég hef þá kenningu að veðrið sé alltaf svona hérna, að þegar ég er í útlöndum þegja allir um það, fjölmiðlar líka, en neyðast svo til að játa þetta eymdarástand þegar ég er stödd á landinu. En það er nú samt alveg búandi á þessu skeri, a.m.k. meðan hægt er að fá kókosbollur, pulsur með öllu og fara í sund.

Lifið í friði.