mitt kornelíska vandamál
Ég er í úlfakreppu (sem er frábær íslensk þýðing á orðinu dilemma). Mig langar svo að geta hlakkað til vorsins, vil að febrúar og mars líði eins hratt og hægt er.En vandamálið er að tvær góðar konur ætla að flýja, ásamt fjölskyldum, til hins landsins míns, næslandsins góða, burt frá París, burt frá mér, í mars.
Ég á eftir að sakna þeirra svo mikið. Kvíði svo mikið fyrir. Ég vil að febrúar verði þrefaldur í ár. Ég vil að febrúar líði hratt. Ég vil að febrúar verði langur og lengri. Ég hlakka til vorsins. Ég kvíði vors án Elmars litla sem er að búa til tungumál og er um leið flinkari og flinkari að tala þetta svokallaða mannamál. Ég vil vorið fljótt. Ég vil ekki að tíminn líði. Vil að hann standi í stað.
Ég þarf greinilega að taka mér tak. Verkefni dagsins: verða sátt við núið og hætta að lifa í næstinu. Eitt í einu. Eins og alkarnir þurru. Einn dagur í einu. Dagurinn í dag verður góður.
Dagurinn á morgun; sjáum til þá.
Lifið í friði.
<< Home