vi er röde, vi er hvide...
Það er nú meira hvað það er gaman að vera í Danmörku. Mér finnst Danir alltaf vera að grínast þegar þeir tala. Og mér finnst ógurlega gaman að vaða áfram í einhvers konar norrænu. Á sínum tíma var ég alltaf best í dönsku og fyllti hinar stelpurnar vonsku en einhverra undarlegra hluta vegna hvarf danskan þegar ég lærði frönskuna. Því komst ég að þegar ég hitti Dani á bar í París forðum og ætlaði að fara að monta mig af dönskufærninni og mistóskt hrikalega.Ferðalagið var skemmtilegt, hraðbrautirnar eru svo frábærar og gaman að keyra með fólki sem fer eftir umferðarreglunum. Á mjög vel við mig.
Um nóttina ókum við út af þegar Kári var farin að standa á veininu, komum inn í þorp norður af Köln sem leit út svipað og Arnarnesið. Stórar villur velupplýstar. Afskaplega hlýlegt og greinilega nóg pláss hjá öllum. Ókum beint fram á stórt og fínt Gasthause uppljómað en ég barði allt að utan og fékk ekkert svar. Ókum áfram í myrkri og rigningu og horfðum löngunaraugum inn í stóru húsin þar til við komum að grískum veitingastað. Þar var okkur bent á að beygja inn í næstu götu, botnlangi með stórum einbýlishúsum og við enda götunnar birtist allt í einu, eins og tálmynd, risastór alpabjálkakofi. Húsið hennar Heidi stækkað upp. Hét Sauna-eitthvað. Pabbinn hljóp núna út úr bílnum og hvarf eitthvert niður fyrir hús. Leið og beið. Við og við týndist einn og einn þýskur karl úr garðinum þaðan sem Arnaud hafði horfið. Þeir voru með blautt hár og stórar íþróttatöskur. Ég skildi þá að þarna væri líka hægt að koma í gufubað. Greinilega ekki gufubað í hverri villu eins og á Arnarnesinu. En ekkert bólaði á manninum mínum. Börnin voru bæði farin að standa á veininu og mér stóð ekki á sama þegar karlarnir komu að segja halló og voru allir hinir vinalegustu. Þegar ég var búin að ákveða að það væri búið að búta hann niður og íþróttatöskurnar innihéldu eiginmanninn í pörtum, finnst Þjóðverjum ekki einmitt svo gott að borða mannakjöt í beinni? ákvað ég að taka börnin út úr bílnum og halda þarna niður fyrir á vit örlaga okkar. Þá birtist hann ásamt rjóðum og feitum skeggjuðum dæmigerðum Þjóðverja sem bauð herbergi fyrir 90 evrur. Okkur fannst það heldur dýrt, en miðað við aðstæður, snjókomuna og ástandið á börnunum sem voru gersamlega búin að fá nóg af hraðbrautinni ákváðum við að slá til.
Þetta var hið huggulegasta gistiheimili og við borðuðum mat í matsal fullum af körlum á náttsloppum með bjór og bók, alger draumur. Fengum kartöflur með sýrðum rjóma eftir að hafa reynt að biðja um grillsteikina sem okkur sýndist vera á matseðlinum. En karftöflurnar voru kynntar með nafni og upprunastað og okkur tjáð að þær væru wunderbar sem þær vissulega voru. Upp um alla veggi voru beinagrindur af elgum með horn, uppstoppaðir fuglar og ýmislegt annað sem tilheyrir í veiðikofa.
Daginn eftir ókum við næstum í einum rikk þá 700 kílómetra sem eftir voru og höfum verið hér í góðu yfirlæti með trúð frá Ítalíu, samkynhneigðan engil frá Grikklandi, danska grænmetisætu sem er sammála Frökkum um að banna slæður í skólum og auðvitað íslensku fjölskyldunni sem við komum að heimsækja.
Kaffihúsið Optimisten opnaði í gær eftir áramótalokunina. Mjög góður staður og þægilegur. Segi ykkur nánar frá honum seinna. Heyrist vera kominn matur. MMmmmmMMMM ég borða út í eitt hérna, frikadellur, flödebollur, pulsur, spægipylsur, grænmetisrétti a la Embla og fleira og fleira. Drekk líka 3 tonn af tei á dag. Gott að vera til og mega vera ligeglad sem er líklega besti kostur Dananna.
Lifið í friði.
<< Home