móðirin, faðirinn, börnin, fjölskyldan og lífið
Þegar við komum heim úr áramótafríinu var fyrsta verkið að hringja í borgaryfirvöld til að fá að vita stöðuna í sambandi við dagheimilispláss fyrir Kára. Það er löngu búið að segja okkur að Sólrún komist ekki inn fyrr en í haust þegar hún byrjar í maternelle sem er "alvöru" leikskóli með bekkjarkerfi og kennara og er fyrir börn frá 3ja ára til 6 ára, en þá hefst skólaskyldan. Hingað til hefur franska ríkinu tekist að standa við það að hleypa öllum börnum sem sótt er um fyrir inn í leikskólana frá þriggja ára aldri, en það er þó að verða erfiðara með hverju árinu og mörg börn fá aðeins hálfan dag og ekkert mötuneyti o.s.frv. Ráðherra tilkynnti nýlega að það væri engin lagaleg skylda ríkisins að taka við öllum börnum sem þýðir auðvitað að ekki verður bætt við plássum í samræmi við aukna barneignatíðni og aukna sókn kvenna á vinnumarkaði.En Kári er sem sagt á biðlista til að komast inn á "crèche" sem þýðir vöggustofa og er fyrir börn frá tveggja og hálfs mánaða (þá lýkur fæðingarorlofi kvenna hér) til 3ja ára, þegar þau fara í leikskólann. Fyrir nokkru voru sett lög sem kveða á um að aðeins megi sækja þrisvar sinnum um fyrir börn. Ef þau fá neitun þrisvar, komast þau aldrei inn á þessar vöggustofur. Kári hefur fengið neitun tvisvar. Ef hann fær þá þriðju, "sitjum við uppi" með hann til þriggja ára aldurs. Okkur var sem sagt tilkynnt um daginn að þar sem engin börn hafa hætt síðan síðasti inntökufundur var haldinn ættum við ekki að sækja um í þetta sinn. Næsti fundur er í mars en forstöðukonan hljómaði þannig að við ættum ekki að hugsa um þetta fyrr en í haust, þá væri alveg öruggt að hún tæki hann inn.
Ég elska börnin mín. Ég elska að leika við þau og gefa þeim að borða og fylgjast með þeim vaxa úr grasi. En ég er samt með ákveðnar hugmyndir um framtíðarvinnu mína (kominn tími til myndu einhverjir segja) og ég þarf tíma til að hrinda áætlun minni af stað. Ég þarf að geta setið við tölvuna og farið á fundi með skrifstofublókum sem segja mér hvað það er flókið og erfitt að stofna fyrirtæki og ég þarf líka smá tíma fyrir sjálfa mig. Komast í bæinn, skreppa í bíó, hitta vinkonur á kaffihúsum og annað slíkt. Ég skammast mín alls alls ekkert fyrir að játa það að stundum verð ég svo þreytt á þessum mömmuleik að mig langar til að ganga út og koma aldrei heim aftur.
Samt má ekki gleyma því að ég er frekar heppin þar sem maðurinn minn vinnur líka óreglulega vinnu og hugsar mjög mikið um börnin og heimilið með mér. Ólíkt öðrum konum sem ég þekki sem eiga menn sem hverfa út klukkan sjö eða fyrr á morgnana og koma heim upp úr átta eða seinna á kvöldin.
Ég frétti að áramótaræður biskups og forsætisráðherra hefðu mikið gengið út á nostalgíska sýn á móðurina og heimilið. Ég veit líka að margar konur á Íslandi tala um að réttur kvenna felist í því að GETA VERIÐ HEIMA. Það er svo sem alveg ýmislegt til í því að gamla móðurímyndin sem kom börnum á legg og kenndi þeim svo margt og svo vel að þegar þau komust í skóla voru þau hæst í bekknum (vitna nú í pistil frá Nönnu Rögnvalds frá því fyrir nokkru síðan) um leið og hún sauð slátur og saltaði fisk og bakaði rúgbrauð og þvoði allt í höndunum og kom heyinu í hús fyrir veturinn og og og og og OG... OG?
[þessar tvær línur á að öskra af lífs og sálar kröftum]:
OG?
OG?
Er þetta virkilega það sem nútímakonur vilja geta valið um? Mig langar mjög mikið að vita hversu margar konur myndu snúa aftur inn á heimilið til að sinna börnunum sem NOTA BENE færu aldrei í gæslu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að margar konur eru að vinna óspennandi skrifstofuvinnu eða verksmiðjuvinnu, með óþolandi yfirmenn (oft allt of marga og auðvitað allt karlar fyrir utan þessa einu konu sem er orðin hörð, horuð og bitur af því að koma sér áfram í karlaheiminum) sem sýna lítinn skilning á veikindum barnanna og tannlæknaferðum og fleiru í þeim dúr. Það er fullt af fólki ófullnægt í vinnunni sinni. Auðvitað dreymir því suma um að breyta til og auðvitað kemur þá upp í hugann þessi möguleiki, AÐ VERA BARA HEIMA.
Hins vegar geri ég mér einnig fulla grein fyrir því að þetta fólk fengi fljótt og örugglega sömu tilfinningu heima fyrir. Börnin eru harður húsbóndi. Heimilisverkin eru ótrúlega ófullnægjandi og óþolandi fljót að verða að engu. Þó maður eyði öllum deginum í að halda stofunni þokkalegri (svona ef einhver skyldi nú líta inn, sem auðvitað gerist aldrei) þá er samt eitthvað dót og drasl þegar litlu skrímslin eru loksins sofnuð á kvöldin. Og manni er svo til aldrei hrósað fyrir vel unnin verk. Þau sjást aldrei þessi verk! Börnum dettur ekki í hug að gleðjast yfir vel röðuðu dóti í hillum eða glansandi krönum inni á baði. Börn finna ekki muninn á verksmiðjuframleiddu kexi og heimabökuðum vöfflum. Bæði namm. Meira!
Þetta myndi ekkert breytast þó við fengjum borgað fyrir þetta í peningum.
Þetta er ákall til íslenskra kvenna: EKKI LEYFA KÖRLUNUM AÐ KLIFA Á ÞVÍ AÐ ÞIÐ EIGIÐ AÐ BERJAST FYRIR RÉTTINUM AÐ FÁ AÐ VERA HEIMA! Hugsið ykkur a.m.k. vel um áður. Er það virkilega það sem þið viljið? Fara aftur inn á heimilin?
Ég, sem er nú föst heima fyrir ráðlegg heldur: Berjist heldur fyrir betri kjörum á vinnustað, betri fríum, launajafnrétti (sem er líklega það allra allra mikilvægasta). Berjist á réttum vígstöðvum.
Lifið í friði.
<< Home