28.12.04

nýir bloggvinir

Bætti Ernu og Gísla sem gáfu mér svör við myndagátuvonleysi mínu við tenglalistann. Nú vantar mig bara eitt orð til að ljúka þessu. Það verður hugsað um þetta í ökuferðinni og reynt að leysa með Emblunni minni ef okkur skyldi skorta umræðuefni í byrjun. Nú hlæja þeir sem okkur þekkja. Hinir taka mig kannski alvarlega. Orð eru varhugavert fyrirbrigði og auðvelt að ljúga og blekkja. Sérstaklega í bloggi, enda ganga mörg blogg út á það að blekkja. Ég er frekar svona heiðarleg held ég þó ég dragi kannski upp helst til fallega mynd af mér, og lífi mínu og hugsjónum, maður getur nú ekki verið að gera lítið úr sér svona á netinu.
En það er gaman að kynnast fólki á þennan hátt. Án þess að kynnast því í raun og veru. Fæstir eru með mynd af sér svo maður þarf ekki einu sinni að spá í hvort maður eigi að heilsa þegar maður sér það í bænum. Sem er heppilegt fyrir mig þar sem ég er ómannglögg og utan við mig. Ég setti myndina bara af því ég vissi ekki að fólk setti ekki myndina. Ég fyllti samviskusamlega út allan prófílspurningalistann og gerði allt sem ég var beðin um og svo sá ég eftir á að það var kannski helst til viðvaningslegt. En þá fannst mér það bara dálítið sætt að sýna hvað ég var mikill viðvaningur þegar ég byrjaði.
Það er eiginlega verst við þetta blogg hvað maður er farinn að kynnast mörgum. Stundum dett ég inn á síður sem mér líst vel á, en ég bara get varla farið að bæta fleirum við mitt bloggflandur sem er stundum daglegt, stundum ekki. Ágætis leið frá börnunum að flandra um bloggsíður og því er mikið gert af því þessar vikurnar. Fer nú vonandi að breytast bráðum og þá sér maður til hvað maður verður harður í þessu.
Átti alltaf eftir að biðjast afsökunar fyrir hönd alvöru vina minna í hinu raunverulega lífi sem eru á tenglalistanum. Þeir eru líklega lélegustu bloggarar sem til eru, miðað við afköst. Gersamlega vonlaust lið. En það er mjög erfitt að taka fólk út af listanum. Enda mega þær svo sem alveg vera þarna... mæðgurnar blogglötu...
Verð að fara að sinna tveimur gríslingum sem ákváðu að fá sér ekki eftirmiðdagsblund þar sem mamma þarf að pakka niður OG setja frímerki á 130 bréf til kvenna í Frakklandi út af útstáelsi í lok janúar.
Held áfram að vera pollýanna eins og í lok síðasta pistils. Þau eru nú samt svo góð og meðfærileg og svo eru þau heilbrigð sem er dýrmætara en nokkuð annað. Get því ekki kvartað yfir þeim.

Lifið í friði.

p.s. verð að muna að segja ykkur frá því sem ég veit um Sri Lanka bráðum í minningu þeirra 13.000 staðfestu látinna þar.