14.1.05

opinberun hvers?

Í síðasta pistli Pullu biður hún fólk um að tilnefna ljótustu atriði sem fólk man eftir úr bíómyndum. Skeleggur (sem ég hef ekki enn haft tíma til að kynna mér) tilnefndi alla myndina Opinberun Hannesar sem er, eins og flestir hljóta að muna, fokdýr kvikmynd eftir þá félaga Davíð O. (sem reit) og Hrafn G. (sem sviðsetti (var næstum búin að segja skeit því það rímar en hélt í mér)) sem var frumsýnd í Ríkissjónvarpinu rétt eftir áramótin þarsíðustu. Einhverra hluta vegna ákvað ég að horfa á þessa mynd og gerði það.
Ég var dálítið lengi svo hissa og undrandi að ég fylgdist áhugalaus með umræðum og rifrildi í fjölmiðlum næstu daga á eftir. Ég var reyndar bara hreinlega svo eftir mig að það var ekki fyrr en síðsumars sem ég allt í einu reis upp hér í stofunni okkar hér í útlöndum og hvæsti á manninn minn: Hvernig í ósköpunum stendur á því að forsætisráðherra VOGAR sér að bera annað eins rusl á borð fyrir alþjóð og annað eins efni og þetta sem gæti meira að segja bara alveg verið satt? Erum við ekki öll til í einhverjum rosa lista, allt sem við gerum og hugsum og bloggum og prumpum, er þessu ekki bara safnað á ákveðinn stað eftir kennitölu og geta þeir ekki bara flett okkur upp og lesið okkur á nokkrum klukkustundum ef þeim sýnist svo?
Maðurinn mig leit á mig og kom með eftirfarandi kenningu: Davíð er að fara frá völdum fljótlega og veit það. Hann veit líka að hann leyfði bandarískum yfirvöldum að komast yfir allt allt of mikið af upplýsingum um Íslendinga og sér eftir því að hafa samþykkt að gera Ísland og Íslendinga að tilraunarottum fyrir Kanann. Hann veit samt líka að ef hann kjaftar frá, verður honum ekki vært.
Hver er titill myndarinnar? Hver er Hannes? Kannski Davíð?
Veit ekki hvort nokkuð er til í þessu, en sagan er góð engu að síður.

Lifið í friði.