14.1.05

heim í heiðardalinn

Heimferðin var ekki söguleg, gekk vel fyrir utan sólina í augun þegar ekið er í suðvestur og vindinn sem blés undir bílinn í upphafi ferðar. Fjónn er vindsöm eyja, minnir það á einhverja aðra eyju sem við þekkjum öll svo vel?
Gistum á hóteli sem birtist okkur í vegakantinum þegar Kári (drengurinn, ekki vindurinn) var að byrja að væla og þetta reyndist þriggja stjörnu ráðstefnuhótel sem við tókum þó að það væri m.a.s. dýrara en bjálkahöll jólasveinsins. Greiddum 105 evrur fyrir herbergið sem var hið huggulegasta og rúmgott mjög.
Ég er reyndar meira fyrir bjálkakofa stílinn heldur en þennan sótthreinsaða stjörnustíl hótela, en þegar maður er á langferðalagi í myrkri með börn sem eru að fá nóg er maður kannski ekkert að velja og hafna mikið. Ég er mikið á móti stjörnugjöfum hótela sem ganga oft út á það eitt að klósettrúllan sé ný, að það séu tvö handklæði á mann, að það sé teppi en ekki dúkur á herberginu og annað eins húmbúkk. Finnst frekar að hótelin eigi að hafa frammi gestabækur með umsögnum og leggja meira upp á að vera persónuleg og veita glaða og káta þjónustu. Svoleiðis væri þetta í draumalandinu mínu. Þá gæti maður ákveðið hvort maður vildi vera í bjálkakofastemningunni, heimilisstemningunni, austurlensku stemningunni eða kannski jafnvel bara sótthreinsuðu stemningunni fyrir þá sem vilja. En í dag gengur túristabransinn alltaf út á IÐNAÐARhugmyndir og Íslendingar eru einmitt núna á kafi í því að aðlaga sig þeim ranga hugsunarhætti. Við ættum ekki að vera feimin við að búa til lítil gestaherbergi með krossaumuðum dúkum og rýjateppum á veggjum og bera fram vöfflur og nýlagað kaffi upp á gamla mátann. Hætta þessari vélvæðingu og iðnvæðingu á ferðamannamóttöku okkar. En ég er kannski ekki sú besta til að rausa um þetta, margir sem lesa mig eru á kafi í þessum bransa uppi á Íslandi og hafa eflaust fleira og gáfulegra til málanna að leggja.
Ég sá þó á þessu ferðalagi að það er gott fyrir fólk í bransanum að ferðast til að fá viðmiðanir. Ég tek iðulega á móti fólki hér í París og blæs hér með á eftirfarandi kvartanir sem ég heyri í sífellu:
1. Frakkar tala bara frönsku. Bull og vitleysa, Þjóðverjar tala bara þýsku, og Ítalir bara ítölsku en Frakkar eru þrælsleipir í ensku og tilbúnir til að tala hana við rétta fólkið. Sem er fólkið sem kemur því strax að að þau séu frá Íslandi, en hvorki frá Þýskalandi né Bretlandi og alls ekki Kanar.
2. París er svo dýr. Rétt en þetta verður þó að hafa í huga: Vestræna Evrópa er dýr og þar með Frakkland og París. Evran breytti miklu þar um, það er orðið ótækt að fá sér kaffibolla án þess að vera með móral, mér sýnast þó hvorki hótel né matur vera dýrari hér en í Þýskalandi eða Danmörku. Þar að auki þarf að borga á ÖLLUM klósettum sem ég fór á í Þýskalandi og Belgíu. Hvort sem maður sat og snæddi á staðnum eða ekki.

Og hana nú! Og allir til Parísar!

Annars er alltaf voðalega gott að koma heim til sín aftur. Í rúmið sitt og undir sængina sína. Tilfinningin vissulega blönduð hryllilegum söknuði því við vitum ekki hvenær við hittum vini okkar í Óðinsvéum næst.
En það er gott að geta núna séð þau almennilega fyrir sér á fína kaffihúsinu Optimisten, Brogade 3, Odense C. Hvet alla sem eiga leið um Danmörku að gera sér ferð þangað, skemmtilegur hlýr og persónulegur staður sem myndi örugglega ekki eiga séns í stjörnugjöf Michelins en skýtur mörgum stjörnustöðum þeirra ref fyrir rass í súpu- og brauðgerð. Og speltvöfflurnar eru hrein unun. Óþarfi að tala um tyrkneska kaffið hans Bjarka sem maður lifir á í nokkra mánuði eftir einn lítinn bolla.

Smá kafli um börnin fyrir þá sem hafa áhuga:
Sólrún fékk grátkast með ekka í gærkvöld, einhvers konar áfall við heimkomu en hún er hress og kát í dag að kubba. Kári virðist alsæll og ligeglad eins og alltaf.
Hann er ekki farinn að ganga enn, þvert á allar vonir og spár. Hann er þó byrjaður að æfa sig að standa upp á miðju gólfi, sem mig minnir að hafi einmitt verið undanfari fyrstu skrefa Sólrúnar.
Bæði börnin dýrka Emblu, enda er hún með einhvers konar ömmukomplexa gagnvart þeim, sagði oft já eftir að foreldrarnir höfðu reynt að pípa einhvers konar nei og þau voru fljót að komast upp á lagið með að nýta sér þetta.
Sólrún talar auðvitað enn betri íslensku eftir þetta ferðalag. Hún er eins og svampur og segir stundum fyndna hluti eins og: "MMM, þetta er fellega gott." og: "Vá, æislega er etta flott." Tónninn eins og í mömmunni og allt. Fer um mann smá hrollur.

Má víst ekki vera lengur í tölvunni og bið því alla vel að lifa í friði.