6.1.05

bókhald og prump m.a.

Ég er að bíða eftir Emblu til að geta haldið áfram með bókhaldið fyrir Optimisten, sem var í hálfgerðu, nei, afsakið, algeru hassi þangað til Kristín kom og reif Emblu upp í að byrja á þessu. Hún á fund með revísörnum á morgun klukkan níu, og sagði honum fyrir nokkrum dögum að hún væri búin að færa allt inn. Við erum nú komnar langleiðina með að þvo út lygina sem Embla segir snjakahvíta þar sem hún laug til að koma sér í verkið.
En áður en við getum byrjað í dag þarf hún að opna staðinn og gera húmmus. Sagði mér að blogga um prumpandi baunaætur á meðan.
Prumpandi baunaætur.
Einu sinni las ég einhvers staðar að maður prumpaði bara af baunum ef maður væri óvanur því að borða þær. Þess vegna ætti maður að gefa börnum sínum baunir snemma og venja þau á það að borða þær óprumpandi.
Embla borðar mikið af baunum en prumpar.
Embla las einhvers staðar að það væri samband kjötsins við baunirnar sem leysti út vindinn. Þannig að maður prumpaði af chili con carne, en ekki af chili sin carne.
Embla borðar chili sin carne en prumpar.
Ég hef ekki fleiri kenningar um baunir og prump en tek glöð við slíkum í orðabelgina.

Ekki halda að Embla sé sú eina sem er síprumpandi hérna. Sem betur fer er auðvelt að lofta út hérna og húsið á þremur hæðum svo öllum er líft svona yfirleitt.

Sá mynd af þorpi á Súmötru fyrir og eftir flóðin í dönsku blaði í gær. Grænt og blómlegt svæði orðið að drullusvaði. Manni líður ekkert sérlega vel með að hugsa út í þetta allt saman. Sérstaklega að þeir vissu af þessu átta stundum fyrir sjálfa flóðbylgjuna, en vildu ekki hræða túristana í burtu. Og óhugnalegt í raun og veru að hugsa til þess að nú er djammið byrjað aftur þarna, en auðvitað þarf fólkið að lifa áfram og auðvitað heldur sjóið alltaf áfram og fáránlegt að ímynda sér annað.
Svo má ekki gleyma því að um jólin og áramótin létust nokkrar milljónir í Afríku úr eyðni og malaríu. Lyfin eru til og gnótt af þeim, en það hentar alls ekki ríkum lyfjafyrirtækjunum að gefa þau þangað niður eftir.
Það er ekki alltaf auðvelt að vera nútímamaður og lifa í velmegun með prumpvandamálin sín. Þess vegna fannst mér dálítið undarlegt að sjá klára konu fárast yfir því í frönsku sjónvarpi að Friends væri bara gríndrasl og hún skildi ekki af hverju við horfum svona mörg á þessa þætti. Hvernig í ósköpunum eigum við að komast af án hláturs og gríns?
Íranska stúlkan sem skrifaði teiknimyndasögurnar Persepolis segir einmitt frá því hvernig fólkið fór að hlægja að bröndurum um fótalausa og lamaða þegar sem verst lét í Íran og allir þekktu einhvern fótalausan eða lamaðan eftir sprengjur.
Ég get kannski ekki alveg í sakleysi líkt saman þessari vörn stríðshrjáðra og minni Friends-vörn, en það er samt held ég ekkert fáránlegt að spá í þetta.
Hlægjum. Verum glöð. Munum samt alltaf eftir þeim sem þurfa á hjálp að halda og veitum hana eftir megni. En hlægjum og verum glöð. Læknum þennan heim. Við getum það. Einn góðan veðurdag vöknum við upp vitandi að það ríkir friður og jafnrétti í þessum heimi.
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Einn daginn munuð þið koma í hópinn. Og heimurinn verður sem einn.

Lifið í friði.