17.1.05

bækur

Ég var að gera mér grein fyrir því að ég skrifa afar sjaldan um þær bækur sem ég er að lesa. Margir halda kannski að ég lesi ekki mikið, en raunin er sú að ég er alltaf með bók að lesa og geng hér um eins og dýr í búri ef ég lýk bók án þess að vita hvað ég ætla að lesa næst. Maðurinn minn á fullt af bókum sem ég á eftir að lesa en sumt langar mig alls ekki að lesa og sumt finnst mér stundum of flókið til að byrja á akkúrat þá stundina. Því eins og líklega allir lestrarhestar hefur maður nefninlega mismunandi þarfir og langanir.
Stundum vil ég bara léttmeti, helst á ensku og helst með blóði og grimmd. Mary Higgins Clark, Patricia Highsmith, Patricia Cornwell, Stephen King o.fl. mætti nefna sem "uppáhöld".
Stundum vil ég léttmeti án grimmdar eins og Bridget Jones en það er sjaldgæfara og verður að vera gott til að koma mér ekki í afleitt skap.
Oftast finnst mér þó best að lesa bækur sem hafa eitthvað fram að færa, fá mig til að hugsa og spá og láta mann finna fyrir metnaði hjá höfundinum. Oft eru bækur sem komast í þennan flokk hjá mér metsölubækur. T.d. mætti setja Bridget Jones í þennan flokk þó hún sé létt og skemmtileg. Þar er ádeila á nútímaþjóðfélag og slæma stöðu einhleypu konunnar og fleira kannski. Í þennan flokk fara samt líka hinar svokölluðu "heimsbókmenntir" (sem er allt annað hugtak heldur en hið undarlega hugtak "heimstónlist" (world music) sem táknar tónlist frá öðrum stöðum en Bretlandi og Bandaríkjunum).
Það er eiginlega jafn fáránlegt að setja bækur í einhvers konar gæðakeppni og að etja ungum og fríðum stúlkum í fegurðarsamkeppni. Og mér hefur alltaf þótt erfitt að flokka niður bækur, alveg eins og það er lífsins ómögulegt og jafnvel hættulegt og fordómahvetjandi að flokka niður fólk. Auðvitað má setja niður flokkana vísinda- eða fræðirit, ævisögur og skáldsögur. En svo er hægt að leika sér svo mikið innan þessara flokka að stundum verða ævisögur hreint skáldverk o.s.frv.
Þess vegna ætla ég ekki að koma með neina lista um bestu bækur ársins eða neitt slíkt. Frekar að segja frá því hvað ég las. Kannski kynnist þið mér þá aðeins betur.

Maður er það sem maður les.

Minnir einmitt að einhver ungu höfundanna hafi notað þetta í persónulýsingum og kom það út eitthvað á þessa leið: Hann var ljóshærður, hávaxinn og hafði lesið Tolstoj, Hemingway og allan Laxness. Frekar góð hugmynd en ég man ekki í hvaða bók þetta var, kannski las ég bara úrdrátt í Lesbókinni?

Dæmi um bækur sem ég las nýlega og sitja í mér:
Kynntist loksins á nýliðnu ári Philip Roth. Las Portnoy's Complaint sem ég hló mig næstum til dauða af og mæli með bæði fyrir konur og menn, og aðra sem ég get ekki munað titilinn á, ekki alveg eins fyndin en samt þess virði. Langar að prófa að lesa hann á íslensku, veit að það er verið að þýða hann þessa dagana.
Balzac klikkar aldrei, en ég gafst þó upp í miðri Splendeurs et misères des courtisanes. Vandamálið fyrir þreyttar húsmæður er að þær ná oft að lesa bara hálfa blaðsíðu og missa því athyglina og ég var hætt að skilja hver var hver og í Balzac á það ekki að vera vandamál. Svo ég hætti og ætla að byrja aftur bráðum (vona að það fari ekki eins og fór með Önnu Katerínu sem ég er ekki enn búin að ljúka eftir "smá pásu" árið 1987. Las svo um það hvernig fer fyrir henni hjá Leif Panduro, minnir mig og var svo svekkt að ég hef aldrei komið mér í að lesa endinn.)
Núna um jólin las ég Stormur eftir Einar Kárason og skemmti mér ágætlega þó að Stormur sjálfur færi dálítið mikið í taugarnar á mér þar sem hann minnir mig óþægilega á fólk mér náið. Finnst líka afar óviðeigandi að setja tilvitnun úr ritdómi Kolbrúnar "stórkostlega fyndin" framan á kápuna í kiljuútgáfunni. Er lesanda ekki treystandi til að ákveða það bara sjálfur?
Svo las ég sögu einhverfa drengsins um hundinn hjá Emblu og Bjarka. Sú bók snerti mig mikið og gerði mér mögulegt að syrgja og sættast við hluti sem ég hef kannski aldrei tekist á við. Fín bók og auðlesin. Ætti vitanlega að lesast í skóla.
Nýja bókin sem ég fékk í jólagjöf var eftir Gerði Kristnýju, Bátur með segli og allt. Hún er allt í lagi. La la. Vonbrigði. Bjóst við meiru. Veit ekki alveg af hverju. Hef mikla trú á höfundi án þess að geta rökstutt það mjög vel. Sumir kaflanna voru svo hallærislega niðurskrifuð alvöru atvik úr lífi einhvers að ég átti ekki orð. Á öðrum stöðum sýnir hún snilli, en leyfir sér ekki alltaf að ganga alla leið... hætti núna...
Í janúar í fyrra las ég bók sem ég keypti mér sjálf eftir jólin 2003. Það er bók eftir uppáhaldshöfundinn minn. Var næstum búin að stofna aðdáendaklúbb einu sinni en svo varð ekkert af því. Bjarni Bjarnason heitir maðurinn og gaf út skáldævisöguna Andlit. Frábær bók. Afar ólík fyrri verkum hans en betri.
Las nokkrar þýðingar þar sem ég er að spá í að fara út í slíkt sjálf:
Paradís eftir Lizu Marklund, sænsk þrælfín spennusaga.
Hending eftir Paul Auster. Flott, endirinn þó svolítil vonbrigði.
Er núna að lesa Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov og skemmti mér gersamlega konunglega. Ein af þessum bókum sem láta manni finnast maður verða unglingur á ný. Eins og þegar maður uppgötvaði Þórberg eða Kundera. Frábærlega vel þýdd. Ekki það að ég skilji rússnesku, bara svo mikill og safaríkur orðaforði að manni finnst maður vera fáviti að ímynda sér að maður geti þýtt sjálfur.
Svo las ég auðvitað Jean-Francois Parot sem er sagnfræðingur og sérfræðingur í frönsku 17. öldinni og er sendiherra og dundar sér við það í frítíma sínum að skrifa sögur um Nicholas Le Floch, franskan lögregluþjón á 17. öld, rétt fyrir byltinguna. Frábærar sögur sem gefa manni skemmtilega innsýn í lífið í París á þessum rósturtímum. Ég hafði misst af einni, þannig að ég gat lesið tvær í sumar.

Þetta eru skáldsögurnar. Af fræðiritum las ég Eric Hazan sem ég minntist á í bloggi þá og svo er ég vitanlega alltaf að lesa eitthvað um París og franska sögu og matreiðslubækur.
Best að auglýsa eina slíka hér: Jóhanna Sveinsdóttir, Hratt og bítandi. Skemmtileg aflestrar og sýnir hvernig má deila um flokkaniðurröðun því í bókinni eru alls konar pælingar um lífið og tilveruna sem ég mæli með fyrir alla.
Bestu matreiðslubók í heimi á ég ekki enn, en það er auðvitað Matarást bloggvinkonu minnar Nönnu Rögnvalds.

Voilà. Þar hafið þið það. Vona að þessi færsla sé ekki of sundurleit því meðan ég skrifaði hana þurfti ég að kveðja manninn sem fór í vinnuna, setja upp í rúm litla stúlku sem átti að fá sér blund, taka aftur fram litla stúlku sem ákvað að gera númer tvö í bleijuna í staðinn fyrir blundinn og kyssa á nokkur meiddi sem hún fékk af ferðalögum sínum hér undir skrifborðinu.

Lifið í friði.