ég skil ekki
Ég skil ekki fréttina sem ég var að horfa á um flugvélarnar tvær sem fórust í Rússlandi í morgun. Ég skil ekki hvernig stórar fréttastofur voga sér að velta sér upp úr því hvort um hryðjuverk sé að ræða og hver hafi framið hryðjuverkin og hvers vegna um leið og tekið er fram að ekkert ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að um hryðjuverk sé að ræða. Enn og aftur sé ég í gegnum snoppufríðar fréttakonurnar, stóran slefandi hund, óskandi eftir því að Tjétjénar hafi framið hryðjuverk, því það hljómar svo miklu betur heldur mannleg mistök eða slys.Ég skil ekki heldur hvernig við vestrænir ofaldir fordekraðir fituhlunkar vogum okkur að fordæma hryðjuverk án þess að hugsa okkur tvisvar um. Við skulum ekki gleyma því að Andspyrnuhreyfingin í Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni var kölluð hryðjuverkasamtök af ríkjandi stjórnvöldum þá. Við skulum ekki gleyma því að troðið er á réttindum fólks út um allan heim alla daga og að oftast er það hetjuskapur að berjast gegn því.
Æ, lífið er svo flókið, ekki bara svart og hvítt, gott og vont, repúblikar og demókratar þó að Hollywood og W hamri þeirri lygi inn í okkur statt og stöðugt.
En það er svo margt sem ég skil ekki. Nokkur dæmi:
Ég skil ekki hvernig konur geta verið heima hjá börnum og ekkert unnið úti. Ég er ekki hneyksluð á þeim, en ég skil þær samt ekki.
Ég skil ekki hvernig fólki dettur í hug að hlaupa maraþon, kannski er ég m.a.s. dálítið hneyksluð á fólki sem gerir slíkt!
Ég skil ekki kínversku, en ég skil hins vegar fólk sem lærir kínversku og væri sko alveg til í að skilja hana.
Ég skil ekki ofnotkun á broskörlum í rituðu máli og þakka æðri máttarvöldum fyrir að Halldór Laxness lifði ekki nógu lengi til að læra að nota þá. Gerum þetta nú vísindalega. Lesið eftirfarandi texta úr snilldarverkinu Sjálfstætt fólk:
En Ásta Sóllilja, það er hún sem svífur á vængjum skáldskaparins í þær álfur sem hún hafði skynjað líkt og í fjarlægum ómi eina vornótt í fyrra þegar hún las um litlu stúlkuna sem fór yfir fjöllin þau sjö, þessi ómur var altíeinu orðinn að saung við eyra henni, og hér fann sál hennar fyrst upphaf sitt og ætt;
Þessi texti með broskörlum, væri þá svona, ef ég skil þessa broskarlanotkun rétt, ég hef alltaf talið það fyrir neðan mína virðingu að læra broskarlavísindin:
En Ásta Sóllilja, það er hún sem svífur á vængjum skáldskaparins í þær álfur sem hún hafði skynjað líkt og í fjarlægum ómi eina vornótt í fyrra þegar hún las um litlu stúlkuna sem fór yfir fjöllin þau sjö (: (: og hér fann sál hennar fyrst upphaf sitt og ætt;)
Þarf að bæta einhverju við þetta?
En þið sem hafið tamið ykkur broskarlanotkun ætlið ykkur líklega hvort sem er ekki að feta í fótspor Halldórs Laxness, svo þið megið svo sem alveg halda áfram að nota þá. Þeir pirra mig ekkert, ég bara skil þá ekki.
Ég mun gefa út út bók einn góðan veðurdag, hana! þá er það sagt og mun standa og þá verð ég líka að standa við þetta loforð.
Ég hef því góða ástæðu til að venja mig ekki á broskarlanotkun, heldur þarf ég einmitt að æfa mig í að lýsa tilfinningum með alvöru orðum.
Embla var að hringja og segja mér að Súkkat og Megas, sá góði broskarl, ætla að koma og spila á opnun Optimistans á Fjóni í næstu viku. Nú þarf ég bara að finna barnapíu fyrir túristana og keyri af stað strax á mánudaginn með Sólrúnu og Kára til að geta verið viðstödd.
Kíkið á myndirnar af okkur fjölskyldunni á
http://community.webshots.com/user/parisardaman
Lifið í friði.
<< Home