21.8.04

austurstræti og ikea frænka

Austurstræti, ys og læti
fólk á hlaupum í innkaupum.
Fólk að tala, fólk í bala,
og fólk sem ríkið þarf að ala.

Vona að menningarnótt sé með menningarlegasta móti í Reykjavíkinni minni í kvöld. Ég eyddi eftirmiðdeginum í IKEA, sagði manninum mínum að það væri síðasti séns fyrir LA RENTREE, sem eru frílokin og upphaf nýs árs í Frakklandi. Hélt að það yrði tómt og þægilegt að versla þar og þetta yrði skottúr. En, ónei, það var rangt hjá mér. Sénsinn var fokinn út í veður og vind. Ég hef aldrei lent í öðru eins mannhafi í IKEA og í dag. Fullt af Frökkum að kaupa skrifborð, náttborð, ruslafötur og annað ódýrt IKEA dót. Mér finnst Frakkarnir alltaf lægra settir en ég í IKEA. Ég er á heimavelli þar, þeir í útlöndum. Ég lét mannhafið og vonda skap hinna sem vind um eyrun þjóta og keypti stóla í eldhúsið, gardínur í stofuna, rúmteppi á gestarúmið, púðaver fyrir gestasængina og ýmislegt smálegt að vanda. Kjötbollur í kvöldmatinn mmmmm...
Ég veit ekki hvernig þessi heimur væri án IKEA. Líklega leiðinlegri, ljótari og dýrari.
Lifið í friði.