6.8.04

persepolis

Vá! Ég var að ljúka við fjórða og síðasta bindi teiknimyndasögunnar Persepolis eftir Marjane Satrapi. Hún er írönsk og segir sögu sína frá barnæsku til ca 24 ára. Byltingin í Íran, kaþólskur skóli í Austurríki o.m.fl. Þetta er frábært verk og mæli ég með því að þið lesið það öll. Maður lærir sögu Írans um leið og maður nýtur frábærrar frásagnargáfu stúlkunnar. Hún skrifaði þetta á frönsku en ég er nokkuð örugg um að þetta hefur verið þýtt á ensku.
Ég grét í endann á hverju einasta bindi. Hún er bæði fyndin, hreinskilin og ótrúlega næm og hvernig hún segir ljótustu hlutina algerlega án orða er magnað. Það sem fólk þarf að lifa. Og maður er eitthvað að svekkja sig á sjampónotkun og öðru álíka fánýtu meðan rúmlega helmingur heimsins hefur ekki einu sinni vatn að drekka og upplifir sprengingar, blóð og morð á hverjum degi. Marjane komst að því að þegar maður vorkennir sjálfum sér þýðir það að það sem maður er að þola er þolandi. Þegar maður fer yfir strikið og þarf að þola hið óþolandi, hættir maður að vorkenna sér og fer að hlægja að öllu saman. Það er eina leiðin í gegnum alvöru hörmungar.
Og nú er ég byrjuð að lesa bók um ofríki Vesturlanda í Afríku, hvernig Frakkar eru sekir í þjóðarmorðinu í Rúanda, ásamt ýmsum öðrum ósóma. Maður þyrfti helst að hafa fötu við hliðina á sér, ég varð að hætta að lesa í Metró í morgun, fór hreinlega að skjálfa úr reiði og sektarkennd. Ef maður gæti nú sagt við sjálfan sig að maður ætlaði að búa í hinu hlutlausa ríki, Íslandi. Ó, nei, við höfum leyft stjórnmálamönnum að láta peningavafstur og glæpahyski draga okkur inn í atburðina, við erum jú atkvæði í SÞ og hvert atkvæði skiptir máli fyrir fjármálaveldin. Við erum því samsek.
Lifið í friði.